Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað gerist í kosningunum í vor?

Sjaldan hefur pólitísk sundrung þjóðarinnar verið meiri og nú. Almenningur er brenndur eftir hrun og kjörtímabil skattahækkanna, atvinnuleysis, niðurskurði til menntunar, löggæslu og heilbrigðismála. Málið er það alvarlegt að ekki er löggæsla til að mynda í Vík í Mýrdal og krabbameinssjúklingar, sem heyja baráttu upp á líf og dauða komast ekki í lyfjameðferð þar sem lyfin eru búin í landinu. Næsta sending kemur á næsta ári.

Síðasti vetur velferðarstjórnarinnar er hafinn. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra er glöð með árangurinn. Bullandi hagvöxtur, atvinnuleysi dregst saman og jöfnuður ríkir í samfélaginu. Það lítur út fyrir að við Jóhanna búum ekki í sama samfélaginu. Öll neysla almennings er rándýr, matvæli, fatnaður, lyf, og áfram má telja. Vextir að buga annaðhvert heimili, fátækt aldrei meiri og jú atvinnuleysið dregst saman, en þá má eflaust rekja til þess að fólk flýr land.

Frambjóðendur streyma í prófkjör, uppstillingar og hvað sem þetta allt heitir. Þegar litið er til fjórflokkanna mun stór hópur núverandi þingmanna gefa kost á sér aftur. Sumir færa sig um set hvað varðar kjördæmi, eins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Sem formaður Framsóknarflokksins er hann hræddur um stöðu sína í borginni og leitar annað. Sér til þess að það er uppstilling til að tryggja sig í sessi. Hugsjón með þágu þjóðarinnar að leiðarljósi, eða útsjónarsemi með eigin hag fyrir brjósti? Dæmi hver fyrir sig.

Allir framboðslistar verða valdnir eða skipaðir af flokksfélögum. Ég hef miklar áhyggjur hvað það varðar. Alþingi stendur frammi fyrir vantrausti þjóðarinnar, virðing þess hefur aldrei verið lakari. Almenningur hefur almennt séð takmarkaðan áhuga á að vera flokksbundinn. Þess vegna verður það fastur kjarni hvers flokks fyrir sig sem á endanum velur næstu þingmenn fyrir þjóðina. Hver verður endurnýjunin ? Fasti kjarninn situr fundi og kjördæmaþing með sitjandi þingmönnum og verja þá íllum tungum. Hverjir eru þá möguleikarnir að þjóðin fá ferska framboðslista með góðri endurnýjun, mjög takmarkaðir að mínu mati.

Þá er von á nokkrum nýjum smáframboðum sem bjóða fram í vor. En sagan segir okkur að slík framboð eru ekki langlíf og 5% þröskuldurinn gerir þeim erfitt fyrir. Þar að auki má ekki búast við miklu frá framboði sem nær inn einum þingmanni. Atkvæðin munu því dreifast á fleiri framboð í vor en nokkru sinni fyrr í okkar samtíð. Mörg litlu framboðanna sem munu fá 2 til 5% atkvæða verða til þess að fjórflokkarnir munu flestir standa uppi með sína vanalegu sneið af kökunni.

Hvað breytist þá á nýju kjörtímabili ? heldur stjórnin velli og klaufast áfram ósammála um ESB, Stjórnarskrármálið og auðlindargjaldð ? Hve mörg kjörtímabil á þjóðin að sitja ráðþrota í ræsinu þegar hagur hennar í atvinnumálum, heilbrigðismálum og almennum lífskjörum situr á hakanum? Hvenær fáum fólk á Alþingi sem er í tengslum við raunveruleikann ?


Forsetinn heldur lífsmarkinu í lýðræðinu

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, heldur áfram baráttunni um lýðræði í landinu. Ríkisstjórnin hefur ekki kjark til að láta almenning í landinu hafa skoðun á eins veigamiklu máli og Icesave. Það er í fersku minni almennings þegar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Sigfússon sögðu að samningur Svavars Gestssonar væri það besta sem væri í boði í deilunni og hvöttu fólk að sitja heima í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Annað kom á daginn, enn hafa þau samt völdin.

Það læðist að mér sá grunur að mergur málsins er einmitt sá, að þjóðin ber ekki traust til ríkisstjórnarinnar. Það kemur mér ekkert á óvart, þegar litið er yfir stutt en örlagaríkt valdatímabil þeirra, hérna er bara brot af því “besta.”

• Sendu óhæfa samninganefnd til að semja um Icesave í upphafi sem kom með niðurstöðu sem hefði gengið frá möguleikum á að búa á Íslandi næstu 40 árin.
• Skattahækkanir sem eru að drekkja almenningi og kjaraskerðingin slík að hinn almenni launþegi fær rétt um 40% launa sinna í vasann.
• Barnabætur lækkaðar.
• Ráðherrar hunsa sett lög löggjafavaldsins með þeim hætti að Hæstiréttur þarf að slá á fingur ráðherra.
• Ríkisstjórnin hefur staðið í vegi fyrir flæði erlends fjármagn til landins.
• Stóð ekki við þjóðarsáttina.
• Umboðsmaður skuldara – ævintýri líkast – staurblankur almúginn þarf að byrja á að borga tugir þúsunda bara til að skuldastaða þeirra sé skoðuð.
• Matvara, vörur og almenn þjónusta hefur aldrei verið hærri.
• Vilja girða af borgina og nánasta umhverfi með vegatollskúrum.
• Eldsneyti er orðið að munaðarvöru.
• Landsflótti sjaldan verið eins mikill og sérstaklega af menntuðu fólki eins og til að mynda úr heilbrigðisstéttinni – þekking og reynsla tapast.

Ég skil gremju Jóhönnu og Steingríms,loksins þegar þau komast til valda höndla þau ekki ástandið í landinu og standa ein í fílabeinsturninum sniðin trausti þjóðarinnar. Þau tvö mega þó eiga það að þau hafa sýnt fram á nýja tíma í stjórnmálum, tíma sem eru samt ekki boðlegir. Tveir stjórnmálaflokkar í ríkisstjórn sem eru ekki sammála um atvinnumál og ESB, en eru sammála um að vera ósammála og sitja sem fastast þrátt fyrir að hafa verið rassskellt af forsetanum tvisvar. Í hvaða lýðræðisríki sæti slík ríkisstjórn ennþá við völd ? Jú í komúnsta/ einræðisríkjum kannski.  Þau eru ráðin til starfa af þjóðinni en þau vita að þau hafa ekki staðið sig, því ef svo væri þá væru þau óhrædd að boða til kosninga og leggja störf sín í dóm kjósenda. Það er sorglegt að búa við slíka kúgun sem ríkir í íslensku samfélagi og það er sorglegt að forsetinn þurfi að standa í stríði við Alþingi í von um að halda lífsmarki í lýðræðinu.


Karíus og Baktus

Á litlu afskekktu skeri út á ballarhafi, bjó lítil þjóð með háleit markmið. Lífið var ljúft og stór hluti þjóðarinnar átti í sig og á og gátu leyft sér ýmsan munað sér til dægrarstyttingar og lífsgæða. Þjóðin mældist sú hamingjusamasta, óspilltasta og með ríkustu þjóðum á heimsmælikvaða og því ekki að undra að gleðið var við völd. Litlu eyjarskeggjarnir menntuðu sig og veittu góða þjónustu á öllum sviðum samfélagsins, en sumir léku sér að eldinum, á kostnað annarra.

Eins og hendi væri veifað strandaði skerið litla í Atlandshafinu og góð ráð voru dýr. Almenningur var reiður og kaus vinstri stjórn til að bjarga skerinu fallega og kom til valda norræn velferðarstjórn. Forystukálfar hennar voru Karíus og Baktus og hafði þjóðin mikla trú á nýrri forystu.

Karíus og Baktus höfðu aldrei fengið að ráða áður, en verkefnin voru stór og erfið. Áður en þjóðin vissi af, fóru þeir félagar á fullt skrið, hrifsuðu til sín lífeyrir, sparnað, laun, húsnæði og bíla af íbúum litla skersins. Þeir átu stoðir atvinnulífisins með bestu lyst, bönnuðu heilbrigðisþjónustu, barnabætur og  komu í veg fyrir menntun. Lokuðu heimilum og stofnunum fyrir minni máttar  en styrktu þó baráttu við hestapest þótt þjóðin svelti.

Karíus og Baktus voru aldrei saddir og boruðu endalaust í litlu þjóðina og urðu feitir og pattaralegir af eigin illsku í garð hennar. Erlend hjálp til að rétta við atvinnuvegina og lífið á skerinu birtist þeim í líki djöfulsins og voru kæfð um leið og þeirra var getið. Íbúarnir gátu ræktað sér kartöflur og lagt sér gras til munns eins og hver önnur dýr, á meðan Karíus og Baktus keyptu höll í Bretlandi fyrir 900 milljónir.

Karíus og Baktus voru reiðubúnir að fórna auðlindum skersins og húkka far með sósíalískri fléttu fjarlægra landa í von um ný embætti fyrir þá sjálfa. Þeir voru tilbúnir að fórna skerinu góða, sem áður fyrr var hamingjusamt, ríkt og gjöfult.

Áratuga valdahungur þeirra varð banabiti heillar þjóðar, þjóðar sem vonandi dregur þann lærdóm af, að vinstri stjórn er ekki rétta svarið fyrir skerið litla.


Öreigð þjóðarinnar

Umræðan á þingi um Landsdóm virðist vera enn eitt málið sem tekur tíma og orku þingmanna frá þeirri vinnu sem nauðsynleg er. Um þúsund heimila verða boðin upp á næstunni þar sem fjölskyldur missa ofan af sér. Íbúðalánasjóður býðst til að leigja þeim húsnæðið til baka á leigu sem oftar en ekki er  hærri en sú greiðslubyrði sem er að buga fjölskyldurnar.

Þessi ríkisstjórn hefur tekist hið ómögulega að mínu mati. Að halda sjó í 2 ár með allt niður um sig. Það er eins og að óþarfa málefnum er kastað inn á Alþingi og þingmennirnir eru eins og sjóndaprir hvolpar sem rata ekki á spenann, hringsnúast um eigin skott. Hvaða vitleysa og tímasóun er það að eyða tímanum í vangaveltur um Landsdóm? Ég verð bara að viðurkenna að þótt Geir haarde og Ingibjórg Sólrún fái einhvern skilorðsbundinn dóm í nokkra mánuði, verð ég ekkert sáttari við stöðu mála í landinu.  Fókusinn er vanstilltur þingi og löngu tímabært að þar fari hjólin að snúast.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa hvorki þrek né kjark til að takast á við vandann. Eina lausnin í þeirra huga er að hækka skatta, draga úr þjónustu, koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu, meina erlendu fjármagni aðgang að landinu og svona má áfram telja.

Almenningur myndar orðið langar raðir þar sem mataraðstoð er í boði í von um að fá aðstoð til að fæða börn sín, á sama tíma og allri fjárhagslegri ábyrgð er velt á herðar einstaklinganna í landinu. Skattahækkanir hafa aldrei skilað árangri, sagan segir okkur það. Gott dæmi er hækkun á áfengi.

Það er í raun ótrúlegt að ekki hafi brotist út kröftug mótmæli í samfélaginu. Við erum öll dofinn og höfum lagt árar í bát og beygt okkur undir kúgun heillrar þjóðar og með áframhaldandi stefnu núverandi ríkisstjórnar horfum við fram á öldu gjaldþrota minni fyrirtækja og aukið atvinnuleysi. Ef ekki er gripið í taumana og ríkisstjórninni komið frá blasir við okkur öreigð næstu 15 til 20 árin. Spurning að fólk safni í farseðla til að gefa börnum sínum í fermingagjafir með vorinu, hver vill að barnið sitt alist upp í vitleysunni sem ríkir á klakanum.


Við eigum að borga og þegja

 

Ég velti fyrir mér fulltrúalýðræðinu sem við búum við, er það að virka sem skyldi ? Kjörbærir einstaklingar í samfélaginu ganga til kosninga og framselja rétti sínum til ákvarðanatöku, til frambjóðenda sem hafa lagt fram skýra stefnu um hvernig þjóðskútunni skuli vera siglt.

Þegar stjórnmálin eru skoðuð í dag tel ég fulltrúalýðræðinu ábótavant. Við erum með ekki bara ríkisstjórn, heldur fjölda alþingismanna sem eru á engan hátt að sinna störfum sínum. Ríkisstjórnin er máttvana í allri sinni mynd og þingmenn hræðast að tjá sig, til að mynda um dóm Hæstaréttar sem féll nýverið varðandi gengistryggða lánveitingu.

Háttvirtur viðskiptaráðherra hefur komið fram í málinu með þeim hætti að hann má alveg taka pokann sinn mín vegna. Ég spyr hvar eru þingmennirnir okkar sem fengu lýðræðislegt umboð okkar til að standa vörð um hag okkar ?  Almenningur í þessu landi hefur nú á annað ár búið við óréttlæti,  bankastofnanir skiptu um kennitölur eins og dauðvona bílasala og fengu sínar skuldir afskrifaðar. En skuldir almennings við gömlu bankana var eina arflegðin sem flutt var yfir í þá nýju. Við eigum að borga og þegja.

Almenningur bar loksins sigur í baráttunni við kúgun og óréttlæti með þessum tiltekna dómi, en einhverra hluta vegna liggur fnykur í loftinu. Lýðræðiskjörnu fulltrúarnir okkar eru hljóðlátir í þetta skiptið. Við þurfum að þola niðurskurð í  öllum málaflokkum, verðhækkanir á vöru og þjónustu og skattahækkanir upp í rjáfur. Á almenningur þá ekki rétt á leiðréttingu á okri lánastofnana í von um að ná endum saman ? Það er ekki eins og heimilum í landinu hafi verið rétt hjálparhönd í ástandinu.

Ef almenningur fær ekki notið þessa dóm til hins ýtrasta liggur alveg ljóst fyrir að við þurfum að kjósa okkur aðra fulltrúa til að fara með valdið í landinu – við hreinlega getum ekki meir.

Ég er mikill lýðræðissinni í hjarta mínu, hef tröllatrú á frelsi til athafna, en köfnunartilfinningin er að verða óbærileg. Við látum bjóða okkur upp á ríkisstjórn, embættismenn og stjórnsýslu, sem á að vera okkur í hag, sem brýtur niður einstaklingana og fjölskyldur í landinu. Ég spyr hreinlega hvað ætlum við að láta bjóða okkur þetta lengi?

Á einum erfiðasta tímabili íslensku þjóðarinnar situr andvana ríkisstjórn sem mynduð er af tveimur stjórnmálaflokkum sem eru sammála um að vera ósammála. Ríkisstjórn sem hefur á engan hátt bætt atvinnuástandið í landinu, ríkisstjórn með skattpíningarhvöt, ríkisstjórn sem er ósammála í ESB málum, ríkisstjórn sem kallar sig norræna velferðarstjórn! Fátækin hefur samt aldrei verið meiri, atvinnuleysi aldrei hærra og heilbrigðisþjónustan skert verulega. Ríkisstjórn sem ætlaði að bjarga fjárhagnum með að skattleggja áfengi og sykraða gosdrykki til að ná endum saman.

Það er deginum ljósara að það þarf fólk á Alþingi sem er í tengslum við raunveruleikann, fólk sem veit og skilur vanda þjóðarinnar, fólk sem veit hvernig það er fyrir barnafjölskyldur að ná endum saman – það þarf hreinlega að fara út með ruslið !!


Kjósum rétt

Tæp vika er til kosninga, sjaldan hefur deifðin verið slík og nú er, enda hefur pólitíkin strandað á skeri að mati margra. Þrátt fyrir hrun, kreppu, niðurskuð og atvinnuleysi heldur lífið áfram. Sjaldan hefur þörfin verið slík sem nú að almenningur fjölmenni á kjörstað og kjósi af ábyrgð, næstu fjögur ár eru viðkvæm ár í íslensku samfélagi.

Reykjavík
Í Reykjavík hefur hið ómögulega gerst, grín framboð skorar hátt í könnunum og margir líta á framboðið sem skemmtilegt framtak og ætla að styðja það. Rökin eru að fólk sé komið með ógeð á hinum týpísku stjórnmálaöflum og að það þurfi að senda þeim skýr skilaboð. Draugur fortíðar á víst að ráða ferðinni. Kjörtímabilið í Reykjavík hefur verið stormasamt, en Hanna Birna borgarstjóri hefur með miklum dugnaði náð að halda saman góðum meirihluta og látið til sín taka í borginni. Hún er ótvíræður leiðtogi borgarinnar og á að sjálfsögðu að fá til þess stuðning.  Þjóðin refsaði Sjálfstæðisflokknum í síðustu alþingiskosningum og hver var niðurstaðan? Við sitjum upp með ríkisstjórn sem hélt úr höfn til veiða, en er bara á reki. Veiðafærin eru enn um borð og engin afli. Almenningur sem ákvað að breyta til situr uppi með laskaða ríkisstjórnarflokka sem eru sammála um að vera ósammála. Flokkarnir eru ósammála um ESB, nýtingu orkuauðlinda, sölu HS Orku, atvinnutækifæri og svona má áfram telja. Ætla þá kjósendur að taka “sjénsinn” líka hvað varðar sveitarstjórnarkosningarnar ?

Reykjanesbær
Minn gamli heimabær hefur síðustu átta ár tekið slíkum stakkaskiptum að bæjarfélagið er nær óþekkjanlegt. Fólksfjölgun hefur verið um 30%  uppbyggingin til fyrirmyndar og umhverfismálin fylgt með og fært sveitarfélagið í hóp þeirra snyrtilegustu á landsvísu. Griðarleg vinna hefur verið lögð í atvinnuuppbyggingu í bæjarfélaginu og framtíðin er björt þrátt fyrir núverandi atvinnuleysi. Stórtæk tækifæri í Helguvík og á Ásbrú færa okkur vor með blóm í haga. Lagður hefur verið kostnaður í þessi tækifæri og Sjálfstæðisflokkurinn þarf brautargengi í kosningunum til að klára málin, svo þau tapist ekki. Vinstri grænir hafa lagt grjót í götu atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum frá því að flokkurinn komst til valda á landsvísu, en við verðum að halda í vonina og berjast gegn eineltinu. 

HS Orka
Umræðan um sölu GGE á hlut sínum í HS Orku hefur undið upp á sig með þeim hætti að málið varði Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ. Þessi umræða sýnir hve auðvelt er að koma af stað múgæsingi með lítilli fyrirhöfn. Rifjum þetta aðeins upp, HS var í eigu bæjarfélaganna á Suðurnesjum.  Öll sveitarfélögin nema Reykjanesbær seldu hlut sinn við fyrsta tækifæri og þótti það ekkert tiltökumál á sínum tíma. Reykjanesbær ákvað að selja ekki fjöreggið. Við hrun verður viðsnúningur í rekstri HS Orku eins og allra fyrirtækja á landinu. HS sem hafði áður fært Reyknesingum arð, skuldfærði af hallarekstri sínum 4 milljarða til Reykjanesbæjar. Það er stór reikningur til bæjarbúa að mínu mati. Þá gefst Reykjanesbæ tækifæri að selja hlut sinn á sama gengi og hin sveitarfélögin þrátt fyrir hrun. Ég kaus bæjarfulltrúa til að huga að mínum hag sem Reyknesingi og studdi því heilshugar söluna. Með sölunni var komið í veg fyrir að bæjarbúar fengu á sig fleiri milljarða í skuld, málinu var snúið íbúum í hag og færðir milljarðar í gróða í staðin fyrir taps, svo einfalt er það.  Reykjanebær sá samt til þess að auðlindin og veiturnar eru áfram í eigu almennings. Það er svo GGE sem notabene er undir stjórn VG og Samfylkingar, sem ákveður að selja Magma E. hlut sinn. Á Reykjanesbær að skipta sér af því ? Ef svo er, hvað þá með hin sveitarfélögin sem hafa reist sundlaugar, íþróttamannvirki og fleira fyrir HS peninginn ? Eru þau ekki ábyrg í málinu ?

Brellur
Minnihlutinn hefur farið mikinn í því að saka Sjálfstæðisflokkinn um brellur í ársreikningum bæjarfélagsins sem sýndi hagnað. Fyrir lág alltaf að salan yrði færð í reikninga. Haldin var fjölmennur íbúafundur um söluna á sínum tíma þar sem almenningi var greint frá stöðu mála og þegar salan er færð til reikninga þá kemur minnihlutinn af fjöllum og öskrar úlfur úlfur ! En þetta virðist vera einhver vinstri árátta líkt og hjá Steingrími Sigfússyni sem kom af fjöllum með sölu GGE, fyrirtækis sem starfar undir hans stjórn. Eru menn ekki að vinna heimavinnuna? Einnig hefur verið varpað fram þeirri spurningu afhverju er verið að skera niður fyrst að hagnaðurinn er svona mikill ? Það er einfalt, öll bæjarfélögin þurfa að huga að hverri krónu í þessu árferði, Reykjanesbær þarf eins og allir að standa við sínar skuldbindingar og vegna hagnaðarins verða þau spor auðveldari.  Þegar kreppir að er nauðsynlegt að grípa til aðgerða.

Íþróttir og forvarnir
Á síðastliðnum átta árum hefur stuðningur við íþróttir og forvarnarmál verið til fyrirmyndar. Íþróttahúsið í Njarðvík var tekið í gegn, nýr grasvöllur og stúka í Njarðvík, Fimleikadeildin er komin í glæsilegt húsnæði, byggt hefur verið við íþróttahúsið við Sunnubraut, fótboltavöllurinn í keflavík endurnýjaður með nýju aðstöðuhúsnæði, styrktarsamningar við fjölmörg íþróttarfélög líkt og Hestamannafélagið Mána svo eitthvað sé nefnt. Ungt fólk hefur hlotið athvarf í 88 húsinu og þau sem yngri eru sækja Fjörheima í glæsilegu húsnæði. Barnafjölskyldur hefur staðið til boða hvatagreiðslur til að koma til móts við iðkun barna sinna, í þessum málaflokki liggja stórar upphæðir sem aldrei hafa verið eins háar.

Menning
Þessi málaflokkur er mjög spennandi, hver hefði órað fyrir því að listsköpun í sinni breiðustu mynd gæti verið svona blómleg í Reykjanesbæ ?  DUUS húsin hafa verið tekin í gegn og með Listasafni Reykjanesbæjar höfum við náð að laða að tugþúsunda gesta til bæjarfélagsins. Listasafnið er til fyrirmyndar og helstu listamenn þjóðarinnar sýnt þar. Stuðningur við listamenn af öllum toga hefur fært okkur mikið, sýningar á hverju strái á Ljósanótt er dæmi þess hve öflugur þessi málaflokkur er. Listasmiðjan á Vallarheiði er miðstöð fjölbreytileikans þar sem kórar, myndlistarfólk, handverksmenn og ljósmyndarar starfa í sátt og samlyndi. Sömu sögu er að segja af Svarta Pakkhúsinu, SuðSuðVestur og fleiri menningarathvörfum í bæjarfélaginu.


Sjálfstæðisflokkurinn hefur skapað fjölskylduvænt sveitarfélag þar sem hver einstaklingur fær notið sín. Hver sá sem er ekki sammála því, þarf einfaldlega að taka niður gleraugun og pússa þau örlítið til að fá skýra sýn á hlutina. Sjálfstæðisflokkurinn þarf stuðning næstkomandi laugardag til að fá tækifæri til að haldið verði á réttri braut næstu fjögur árin og öll svo gríðarlega vinna sem lagt hefur verið í hvað varðar atvinnumál og áframhaldandi lífsgæði tapist ekki.

 

 


Segjum NEI

Hvernig er það hægt að leggja lög fyrir þjóðaratkvæði sem flestir eru sammála um að eru ólög. Forystumenn ríkisstjórnarinnar ætla ekki að mæta og greiða atkvæði, hvaða skilaboð eru það ? Ef stjórnmálamenn sýna ekki í verki að það sé mikilvægt að nýta sér lýðræðislegan rétt sinn og kjósa, hverjir eiga þá að gera það ? Ætla þessir sömu stjórnmálamenn að hvetja almennig til að nýta kosningaréttinn í næstu alþingiskosningum ?

Sá samningur sem forseti Íslands sendi til þjóðarinnar til að staðfesta eða hafna er hreinlega vondur, vondur fyrir almenning í landinu. Með þeim samningarviðræðum sem eru í gangi núna við Bretland og Holland, sanna að ríkisstjórnin er sammála um hversu vondur samningurinn er.

Ég hefði viljað fresta þjóðaratkvæðagreiðslu og láta þjóðina kjósa þegar lausn væri komin í samningarviðræðunum sem eru í gangi núna. Við erum að eyða 200 milljónum í þjóðaratkvæðagreiðslu sem skiptir í raun litlu að mínu mati, þar sem lögin verða tekin til baka þegar nýtt samkomulag næst.

Þrátt fyrir það mun ég að sjálfsögðu mæta á kjörstað til að sýna vanþóknun mína á málinu og mun að sjálfsögðu segja NEI.


Svartur dagur í sögu þjóðar

Viðburðarríkt kvöld í lífi íslendinga, mesta skuldsetning í sögu þjóðarinnar samþykkt. Án þess að leita leiða við að ná betri samningum.  Svavar Gestsson leysti samningarviðræðurnar með einföldum hætti og sagði já og amen við öllu saman, sefur hann rótt á nóttunni ?

Ég horfði á beina útsendingu og hlustaði á rök þingmanna. Þeir þingmenn er sögðu já færðu margir hverjir rök sín að nú væri komið gott og Icesave stæði í vegi fyrir endurreisn landsins. Hugurinn óneitanlega leitaði í verk ríkisstjórnarinnar sem hefur brugðið fæti fyrir atvinnuuppbyggingu, stolist í vasapeninga eldri borgara, sett á sykurskatt, hækkað virðisaukaskatt, tekjuskatt, tryggingargjöld og aðeins brot af störfum hennar sé talin upp.

Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að þegar til neyðarsamninga er gripið sé leitað lendingar í stöðunni. Sá aðili sem illa stendur hafi til samninga af raunsæi um eigin getu til að semja um hluta skuldar. Kröfuhafarnir í flestum tilfellum gefi að hluta eftir, til að fá eitthvað í stað þess að fá ekkert. Ég er viss um að samningarnefndin hafi hallað sér aftur í stólunum þegar fulltrúar Íslands gengu af fundi og hlegið.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að hunsa ætti algjörlega ábyrgð tryggingu innistæðueigenda, en þessar upphæðir eru út fyrir öll velsæmismörk og vitna um leið í orð Steingríms Sigfússonar, fjármálaráðherra, “Landsbankinn var einkafyrirtæki.” Ég hef ekki verið viðskiptavinur Landsbankans, ég skrifaði ekki undir yfirlýsingu þess efnis að ég væri reiðubúinn að fórna mínum lífsgæðum, ef illa færi í útrásarsukki bankans. Þjóðin liggur í valnum með kutann í bakinu.

Það er deginum ljósara að Samfylkingin lofaði að greiða Icesave í skiptum fyrir ESB aðild með DHL hraðsendingu. Hvað ætli ESB fái meira ? Auðlindirnar í hafinu ? Fallvötnin? Það verður fróðlegt að fylgjast með vinnubrögðunum á stjórnarheimilinu á næstunni og sjá hverju var fórnað.

Það er með öllu ljóst að 30. desember 2009 verður ritaður sem svartur dagur í sögu þjóðarinnar og ég vona að þeir þingmenn sem sögðu já verði fordæmdir þegar fram líða stundir.


Komúnistaríkið Ísland

Fjöldi ungra fjölskyldna eru sem fangar í skuldafengi og öfga skattheimta vinstri flokkanna er með þeim hætti að almennt vonleysi ríkir í samfélaginu. Húsnæðis-bíla-námslán valda því að þessar fjölskyldur ná ekki endum saman og staðan er slík að annaðhvort er að hætta að borga af skuldasúpunni og tapa þá sem unnið hefur verið fyrir, eða herða sultarólina með þeim hætti að vart er hægt um frjálst höfuð að strjúka.

Hækkun tekjuskatts um áramótin verður með þeim hætti að skjóta má á, að af yfirvinnu fáu launþeginn um 30% í vasann. Fyrirtæki eiga eftir að standa frammi fyrir því að starfsfólk líti svo á að ekki taki því að vinna mikla yfirvinnu því það skili sér ekki líkt og það hefur gert hingað til. Svört vinna og önnur skattsvik aukast svo um munar og sú upphæð sem ríkisstjórnin ætlar sér í ríkissjóð mun ekki skila sér sem skyldi – skattpíning gerir það sjaldan.

Ráðleggingar og reynsla er virt að vettugi, líkt og reynsla Hollands af nefskatti á ferðamenn. Forsvarsmenn Icelandair vara við þessum tillögum og er ég þeim sammála hvað það varðar, þetta á eftir að koma í bakið á okkur og það verulega. Ríkisstjórnin er með það að markmiði að drepa niður alla möguleika á erlendu fjárstreymi til landisins, snaran um háls landans er bara hert meir og meir, ég er að kafna, en þú ?

Norræna velferðarríkið sem Steingrímur J. Sigfússon lofaði þjóðinni eftir kosningarsigur í vor virðist hafa gleymst. Í staðin fáum við svokallað framsækið skattkerfi sem er allt að drepa, fyrirtæki, stofnanir, fjölskyldur og einstaklinga. Næst verður rafmagn og hiti skattlagður.

Ég hef hitt margt ungt fólk, menntað sem ómenntað sem er uppgefið og hugur þeirra leitar út fyrir landsteinanna í leit að eðlilegu lífi í eðlilegu umhverfi þar sem hægt er að taka skref inn í framtíðina, en ekki til fortíðar.  Frelsi einstaklingsins til að blómstra í eigin ágætum hefur verið tekið frá okkur og í staðinn blasir við okkur kúgun og ranglæti.

Björgunaraðgerðir heimilana svokölluðu um örlitla hagræðingu á skuldum þar sem dregið er úr greiðslu kemur í bakið á fjölskyldunum þegar fram líða stundir. Þær krónur sem sparast eru teknar með öðrum hætti og gott betur en það.  Þessi skattastefna virðist fá byr undir báða vængi hjá vinstri flokkunum.

Vinnubrögðin eru metnaðarlaus með öllu og er það deginum ljósara að sú staða sem ríkir á Íslandi í dag er ekki leyst með lausnum, þvert á móti. Ríkisstjórnin starfar að kjarkleysi og felur sig á bak við þá afsökun að þetta verði bara að vera svona og þetta sé allt Sjálfstæðisflokknum að kenna. Þessi þreklausu vinnubrögð leysa engan vanda, sama hvort hann sé þessum eða hinum að kenna. Við þurfum að opna fyrir erlent fjármagn til landsins, ráðast í atvinnuuppbyggingu og koma samfélaginu í gang aftur, ekki lama það.

Eina sem ríkisstjórnin á eftir að gera er að innkalla vegabréf landsmanna til að koma í veg fyrir fólksflótta. Það verður vendipunkturinn yfir komúnistaríkið sem Vinstri grænir hafa dreymt um í áratugi. Við erum fangar í eigin landi.


Hraðbyr í torfkofanna


Ég velti fyrir mér tilgangi Alþjóða gjaldeyrissjóðnum varðandi þá kúgun  sem okkur er beitt. Ég skil ekki hvernig Ísland á að rétta úr kútnum og koma á mannsæmandi lífsskilyrðum að nýju.  Niðurskurður er lausnarorðið um þessar mundir ásamt skattahækkunum vinstri manna.

Er almenningur að átta sig á því hvað það er að vera með 50% skattheimtu af launum? Einstaklingur sem hefur unnið sig upp og nær, til að mynda 600.000 þúsund, þarf að borga um 300.000 þúsund í skatta. Persónuafslátturinn bjargar ekki miklu, þá á eftir að borga í lífeyrissjóði, félagsgjöld og fleiri tekjutengd gjöld. Hvernig er þetta þá að koma út fyrir þá sem hafa lægstu tekjurnar og  þurfa að borga 45% skatta?

Á meðan Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra leggur fram aðlögunartillögur í þágu heimilana, um að teygja á lánum til lengri tíma til að lækka greiðslubyrgði, eru boðaðar skattahækkanir. Heimilin í landinu ráða ekki við greiðslubyrgðina og aðlögunin á að koma til bjargar. Hvernig á það ná saman að lækka aðeins greiðslubyrgði á sama tíma og veruleg launaskerðing á sér stað ? Við verðum í sömu sporunum áfram.

Ég hef áður tjáð mig um heilbrigðisþjónustu og þann niðurskurð sem þar á sér stað. Næst á að skera niður á eldri borgara á vistheimilum. Skerða á vasapeninga vistmanna um 30%. Það vita allir, að ef einstaklingur fer á dvalarheimili þá tekur heimilið ellilífeyririnn og skamtar svo einstaklingnum broti af upphæðinni í vasapening. Til að fara dýpra í málið þá er það einnig þannig að ef einstaklingurinn (eldri borgarinn) á eitthvað inn á bankabók þá er tekin hlutur af þeirri upphæð líka. Köllum við þetta að sjá vel um heldri borgara landsins sem hafa lagt sitt af mörkum í uppbyggingu samfélagsins og greitt skatta og skyldur? Ég verð eigilega að viðurkenna að ég skammast mín fyrir þessi vinnubrögð. Sjálfstæðisflokkurinn er ávallt sakaður um að gleyma þeim sem minna mega sín – ég sé ekki umhyggjuna streyma frá vinstri stjórninni.

Á sama tíma og Steingrímur og Jóhanna kafa dýpra í vasa almennings og eldri borgara er íslenska ríkið að kasta 7 milljörðum í þróunaraðstoð í vanþróuðu ríkjunum, já 7 milljörðum. Þegar ég var í stjórnmálafræði í Háskólanum þá stóðu vinir okkar pólverjar í samningarviðræðum og inngöngu í Evrópusambandið. Við skoðuðum málið sérstaklega vel og þar kom glögglega fram að Pólland væri eftirbátur annarra ríkja í sambandinu. Mörg ár tæki að eyða fátækt, styrkja atvinnuþætti landsins, velvæða bændur og byggja um hagkerfi sem væri samanburðarhæft við önnur ríki. Pólland var fátækt ríki sem bjó við slök lífskjör. Þetta land sem ég fann til með og studdi heilshugar í inngöngu sinni í Evrópusambandið, er að lána okkur peninga !! Þau vorkenna okkur núna – hlutirnir snúast oftar en ekki í höndunum á okkur.

Skattheimta á auðlindir hrekja frá erlenda fjárfesta, fjölskyldur standa frammi fyrir skertari kjörum, skertari heilbrigðisþjónustu, slakari tækifærum hvað varðar menntun, atvinna verður af skornum skammti og til að toppa þetta munu íslenskar kvikmyndir og þáttagerð heyra brátt fortíðinni. Við erum á hraðferð aftur í torfkofanna ef stjórnin fer ekki frá með hraði.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband