Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Brúðkaup og Sálin

Ég veit ekki alveg hvað er í gangi með mig en ég er ennþá vakandi! Alveg óþolandi hvað ég er mikill nátthrafn. Ég var í brúðkaupi í gær, Björgvin vinur minn og Sigurbjörg unnusta hans gengu í það heilaga í gær í Útskálakirkju. Veislan var í Eldborg og heppnaðist dagurinn þeirra virkilega vel.

Þau voru stórglæsileg, veislan skemmtileg og maturinn frábær.  Ég hafði gaman af því að hlusta á mömmurnar halda ræður. Hrönn mamma Björgvins var klökk á þessum tímamótum og minnti það mig óneitanlega á mömmu mína þegar þegar Jónas bróðir og Björg systir giftu sig (samt ekki hvort öðru sko – bara hafa það á hreinu). Brúðkaup eru tilfinningarlegar stundir fyrir mömmurnar líka, sem er alveg yndislegt, enda hlýtur það að vera ljúf stund að sjá börnin sín stútfull af hamingju og væntingum á leið út í lífið með lífsförunautum sínum. Pabbi Sigurbjargar var ekkert á því að sleppa hendi af litlu stelpunni sinni því í kirkjunni settist hann aftur við hlið hennar eftir að þau höfðu verið gefin saman, Gunni greyið var rekinn yfir til Jónsa, pabba Björgvins svo brúðhjónin gætu nú sitið saman.  

Laugardagurinn er annasamur hjá mér, nóg um að vera. Fjölskylduhátíð í Vogunum sem ég verð að gera góð skil í Tíðindum í næstu viku og því verð ég á ferðinni þar með myndavélina. Hæst ber að forsetinn á að afhjúpa útilistaverk. Ég vona að það verði gott veður hjá nágrönnum mínum í Vogunum.

Þá er grillveisla um kvöldmatarleytið, Kristrún Björg á afmæli í dag, er 8 ára og Ragnar Björn á afmæli á morgun, hann verður 15 ára. Þau eru bróðurbörn mín, ég hef nú mikið gert grín af Jónasi bróður. Hann og Ragga mágkona eiga tvö börn sem eiga afmæli 9. og 10. ágúst. Ég er búinn að reikna þetta út, segi að það beri bara til tíðinda hjá þeim á fullveldisdaginn 1.desember ár hvert. Jónas vill lítið ræða þetta við litla bróðir sinn J  

Nú svo er það Sálin Hans Jóns Míns í Officeraklúbbnum – það er ekki nokkur leið að ég láti það fram hjá mér fara. Sálin er í miklu uppáhaldi og hefur verið það í gegnum tíðina og fyrst að maður er ennþá ungur í anda þá sleppur maður ekki þessu balli. Ég vona að ég sjái sem flesta á ballinu, það verður viðbjóðslega gaman.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband