Kjósum rétt

Tæp vika er til kosninga, sjaldan hefur deifðin verið slík og nú er, enda hefur pólitíkin strandað á skeri að mati margra. Þrátt fyrir hrun, kreppu, niðurskuð og atvinnuleysi heldur lífið áfram. Sjaldan hefur þörfin verið slík sem nú að almenningur fjölmenni á kjörstað og kjósi af ábyrgð, næstu fjögur ár eru viðkvæm ár í íslensku samfélagi.

Reykjavík
Í Reykjavík hefur hið ómögulega gerst, grín framboð skorar hátt í könnunum og margir líta á framboðið sem skemmtilegt framtak og ætla að styðja það. Rökin eru að fólk sé komið með ógeð á hinum týpísku stjórnmálaöflum og að það þurfi að senda þeim skýr skilaboð. Draugur fortíðar á víst að ráða ferðinni. Kjörtímabilið í Reykjavík hefur verið stormasamt, en Hanna Birna borgarstjóri hefur með miklum dugnaði náð að halda saman góðum meirihluta og látið til sín taka í borginni. Hún er ótvíræður leiðtogi borgarinnar og á að sjálfsögðu að fá til þess stuðning.  Þjóðin refsaði Sjálfstæðisflokknum í síðustu alþingiskosningum og hver var niðurstaðan? Við sitjum upp með ríkisstjórn sem hélt úr höfn til veiða, en er bara á reki. Veiðafærin eru enn um borð og engin afli. Almenningur sem ákvað að breyta til situr uppi með laskaða ríkisstjórnarflokka sem eru sammála um að vera ósammála. Flokkarnir eru ósammála um ESB, nýtingu orkuauðlinda, sölu HS Orku, atvinnutækifæri og svona má áfram telja. Ætla þá kjósendur að taka “sjénsinn” líka hvað varðar sveitarstjórnarkosningarnar ?

Reykjanesbær
Minn gamli heimabær hefur síðustu átta ár tekið slíkum stakkaskiptum að bæjarfélagið er nær óþekkjanlegt. Fólksfjölgun hefur verið um 30%  uppbyggingin til fyrirmyndar og umhverfismálin fylgt með og fært sveitarfélagið í hóp þeirra snyrtilegustu á landsvísu. Griðarleg vinna hefur verið lögð í atvinnuuppbyggingu í bæjarfélaginu og framtíðin er björt þrátt fyrir núverandi atvinnuleysi. Stórtæk tækifæri í Helguvík og á Ásbrú færa okkur vor með blóm í haga. Lagður hefur verið kostnaður í þessi tækifæri og Sjálfstæðisflokkurinn þarf brautargengi í kosningunum til að klára málin, svo þau tapist ekki. Vinstri grænir hafa lagt grjót í götu atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum frá því að flokkurinn komst til valda á landsvísu, en við verðum að halda í vonina og berjast gegn eineltinu. 

HS Orka
Umræðan um sölu GGE á hlut sínum í HS Orku hefur undið upp á sig með þeim hætti að málið varði Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ. Þessi umræða sýnir hve auðvelt er að koma af stað múgæsingi með lítilli fyrirhöfn. Rifjum þetta aðeins upp, HS var í eigu bæjarfélaganna á Suðurnesjum.  Öll sveitarfélögin nema Reykjanesbær seldu hlut sinn við fyrsta tækifæri og þótti það ekkert tiltökumál á sínum tíma. Reykjanesbær ákvað að selja ekki fjöreggið. Við hrun verður viðsnúningur í rekstri HS Orku eins og allra fyrirtækja á landinu. HS sem hafði áður fært Reyknesingum arð, skuldfærði af hallarekstri sínum 4 milljarða til Reykjanesbæjar. Það er stór reikningur til bæjarbúa að mínu mati. Þá gefst Reykjanesbæ tækifæri að selja hlut sinn á sama gengi og hin sveitarfélögin þrátt fyrir hrun. Ég kaus bæjarfulltrúa til að huga að mínum hag sem Reyknesingi og studdi því heilshugar söluna. Með sölunni var komið í veg fyrir að bæjarbúar fengu á sig fleiri milljarða í skuld, málinu var snúið íbúum í hag og færðir milljarðar í gróða í staðin fyrir taps, svo einfalt er það.  Reykjanebær sá samt til þess að auðlindin og veiturnar eru áfram í eigu almennings. Það er svo GGE sem notabene er undir stjórn VG og Samfylkingar, sem ákveður að selja Magma E. hlut sinn. Á Reykjanesbær að skipta sér af því ? Ef svo er, hvað þá með hin sveitarfélögin sem hafa reist sundlaugar, íþróttamannvirki og fleira fyrir HS peninginn ? Eru þau ekki ábyrg í málinu ?

Brellur
Minnihlutinn hefur farið mikinn í því að saka Sjálfstæðisflokkinn um brellur í ársreikningum bæjarfélagsins sem sýndi hagnað. Fyrir lág alltaf að salan yrði færð í reikninga. Haldin var fjölmennur íbúafundur um söluna á sínum tíma þar sem almenningi var greint frá stöðu mála og þegar salan er færð til reikninga þá kemur minnihlutinn af fjöllum og öskrar úlfur úlfur ! En þetta virðist vera einhver vinstri árátta líkt og hjá Steingrími Sigfússyni sem kom af fjöllum með sölu GGE, fyrirtækis sem starfar undir hans stjórn. Eru menn ekki að vinna heimavinnuna? Einnig hefur verið varpað fram þeirri spurningu afhverju er verið að skera niður fyrst að hagnaðurinn er svona mikill ? Það er einfalt, öll bæjarfélögin þurfa að huga að hverri krónu í þessu árferði, Reykjanesbær þarf eins og allir að standa við sínar skuldbindingar og vegna hagnaðarins verða þau spor auðveldari.  Þegar kreppir að er nauðsynlegt að grípa til aðgerða.

Íþróttir og forvarnir
Á síðastliðnum átta árum hefur stuðningur við íþróttir og forvarnarmál verið til fyrirmyndar. Íþróttahúsið í Njarðvík var tekið í gegn, nýr grasvöllur og stúka í Njarðvík, Fimleikadeildin er komin í glæsilegt húsnæði, byggt hefur verið við íþróttahúsið við Sunnubraut, fótboltavöllurinn í keflavík endurnýjaður með nýju aðstöðuhúsnæði, styrktarsamningar við fjölmörg íþróttarfélög líkt og Hestamannafélagið Mána svo eitthvað sé nefnt. Ungt fólk hefur hlotið athvarf í 88 húsinu og þau sem yngri eru sækja Fjörheima í glæsilegu húsnæði. Barnafjölskyldur hefur staðið til boða hvatagreiðslur til að koma til móts við iðkun barna sinna, í þessum málaflokki liggja stórar upphæðir sem aldrei hafa verið eins háar.

Menning
Þessi málaflokkur er mjög spennandi, hver hefði órað fyrir því að listsköpun í sinni breiðustu mynd gæti verið svona blómleg í Reykjanesbæ ?  DUUS húsin hafa verið tekin í gegn og með Listasafni Reykjanesbæjar höfum við náð að laða að tugþúsunda gesta til bæjarfélagsins. Listasafnið er til fyrirmyndar og helstu listamenn þjóðarinnar sýnt þar. Stuðningur við listamenn af öllum toga hefur fært okkur mikið, sýningar á hverju strái á Ljósanótt er dæmi þess hve öflugur þessi málaflokkur er. Listasmiðjan á Vallarheiði er miðstöð fjölbreytileikans þar sem kórar, myndlistarfólk, handverksmenn og ljósmyndarar starfa í sátt og samlyndi. Sömu sögu er að segja af Svarta Pakkhúsinu, SuðSuðVestur og fleiri menningarathvörfum í bæjarfélaginu.


Sjálfstæðisflokkurinn hefur skapað fjölskylduvænt sveitarfélag þar sem hver einstaklingur fær notið sín. Hver sá sem er ekki sammála því, þarf einfaldlega að taka niður gleraugun og pússa þau örlítið til að fá skýra sýn á hlutina. Sjálfstæðisflokkurinn þarf stuðning næstkomandi laugardag til að fá tækifæri til að haldið verði á réttri braut næstu fjögur árin og öll svo gríðarlega vinna sem lagt hefur verið í hvað varðar atvinnumál og áframhaldandi lífsgæði tapist ekki.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorvaldur Guðmundsson

Arni tu hlytur nu ad hafa turft ad gubba nokkru sinnum a medan tu skrifadir tetta.

Þorvaldur Guðmundsson, 24.5.2010 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband