Ekki vera djöfulsins sökker !!!

Í upphafi vil ég greina frá því að ég er stoltur starfsmaður Símans og því án nokkurs efa mjög hlutdrægur í því sem ég ætla að fjalla um. Ég er þó ekki á nokkurn hátt það einfaldur að ég taki mig til og tjái mína hugrenninga, án þess að hafa með einhverjum hætti skoðað hlutina frá öllum sjónarhornum.


Ég hef séð á facebook umræður um auglýsingu í nýrri auglýsingaherferð Ring hjá Símanum.  Sitt sýnist hverjum eins og ávallt er um allt saman í þessu blessaða lífi okkar. Við höfum misjafnar pólitískar skoðanir, við höldum með sitthvoru liðinu á HM, ég er meira fyrir jarðaberja þeyting þótt aðrir kjósi frekar súkkulaði bragð.


Auglýsingin margum talaða er með Steinda sem slegið hefur í gegn hjá yngri kynslóðinni í þáttaseríu á Stöð 2. Þar hafa landsþekktir einstaklingar lagt Steinda lið með góðum árangri. Á facebook –síðu Ring segir ónefnd kona að hún muni aldrei eiga viðskipti við Símann eftir að hafa séð þessa viðbjóðslegu auglýsingu ! það er blótað í auglýsingunni og börnin horfa upp á þetta.


Auglýsingar hafa í gegnum tíðina verið á alla vegu, misskemmtilegar þó, þessi auglýsing fékk mig til að hlægja. DJÖULFSINS er  blótsyrði sem er vægt að mínu mati. Ég hef bara heyrt mikið af blóti sem er mun grófara og því miður særandi. Auðvitað skil ég það vel að foreldrar reyni í lengstu lög að verja börn sín blóti og það er mér í fersku minni að það var það sama upp á teningnum í mínu uppeldi. EN þrátt fyrir það þá lærði ég blótið og ósómann á leikskóla og í grunnskóla, af börnum sem fengu annað uppeldi en ég, þess vegna veit ég að það er mjög erfitt að koma í veg fyrir að óstálpaðir einstaklingar heyri ófögur orð.


Ummæli umræddar konu fær mig til að hugsa um ábyrgð foreldra. Allt afþreyingarefni er stútfullt af viðbjóði. Barnaefni snýst meira og minna um ofbeldi þar sem vondi karlinn er bugaður að lokum eftir mikil og ýkt slagsmál og tala ég nú ekki um tölvuleikina sem eru svo veruleikafirrtir að ég hreinlega skil þá ekki. Börnin hanga samt í þessum leikjum heilu og hálfu stundirnar.  Þá leiði ég líka hugan að tónlistinni sem glymur á öllum miðlum. Rappið getur verið sérstaklega gróft og þá sérstaklega það íslenska. Þá hefur nú ungur íslendingur náð miklum vinsældum þrátt fyrir að vera varla fermndur, með lag sem kallast “Blaut dansgólf”.


Öll eigum við val þegar kemur að uppeldi barna okkar, grófir þættir með miklu ofbeldi, tónlistarmyndbönd þar sem kynþokkinn og útlitsdýrkun er í hávegum höfð, dónaleg lög og jú auglýsingar þurfa ekki að vera fyrir framan nefið á börnum okkar. En það er líka þá eins gott að við fylgjum þessu alla leið. Ekki pikka eitthvað eitt út og láta fara í taugarnar á okkur, gagnrýna og vera pirruð yfir. Ég hef sjálfur gagnrýnt í léttu rúmi auglýsingar Lotto þar sem Ásdís Rán sýnir það glögglega að hún er best á ljósmynd, en læt það engan veginn eyðileggja fyrir mér daginn og hvað þá skrifa bréf til Íslenskrar Getspár.

Valið er okkar sem betur og þannig á það að vera.  Ef Döfulsins sökker fer fyrir brjóstið á einhverjum eða vill ekki að börnin sín sjái auglýsinguna, þá er bara einfaldasta leiðin að skipta um sjónvarpsstöð. Skiptu þá líka um útvarpsstöð þegar rappið byrjar og farðu frekar í húsgarðinn með börnin í stað þess að láta þau hanga yfir ofbeldisfullu barnaefni eða tölvuleikjum. Þetta snýst allt um að vera samkvæmur sjálfum sér.


Ég bíð spenntur eftir næstu auglýsingu með Steinda 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andri

Já Nei Árni minn.... Nú er ég alveg hrikalega ósammála þér.

Í fyrsta lagi er þessi auglýsing alveg ofsalega léleg - burt séð frá mjög óviðeigandi blóti. Steindinn getur gert betur.

Í öðru lagi er ég ósammála þér að það "djöfulsins" sé eitthvað vægt blótsyrði. Mín skoðun er amk sú að "djöfulsins", "andskostans" og "helvítis" séu topp þrjú verstu blótsyrðin sem þú vilt ekki heyra 3ja ára dóttur þína segja. Og trúðu mér að barnaefni, sem heilbrigðir foreldrar, leyfa yngstu krökkunum að horfa á eða hlusta á er ekki með svona orðbragði! Þau eru heldur ekki að hlusta á rapp eða speed metal.

Ring/Síminn er að keyra þessa auglýsingu á prime time á meðan krakkarnir eru ennþá vakandi og þau sjá þetta barnaafmæli (sem grípur þau) og stara svo dáleidd á þetta. Mín börn amk fóru hjá sér í fyrsta skipti sem þau sáu þetta og horfðu svo bara á mig og spurðu "má segja þetta?". Ég legg mjög mikið upp úr því að tala fallega í kringum börnin mín og reyni að kenna þeim hvað þau mega segja og hvað ekki - þetta er ekki beint að hjálpa manni í þeirri baráttu.

Frekar myndi ég nú vilja sjá áfengisauglýsingu :) En það er önnur umræða. En það er kannski ekki sérstaklega orðbragðið sem er óheppilegt. Það er kannski meira framsetningin. Þetta barnaafmæli, kúnnahópurinn sem er verið að stíla á og að aðal áherslan sé á "djöfulsins sökker" en ekki hvað sem það er sem er verið að selja.

Gefðu mér þá frekar litla froskinn sem sagði "essasú" eða herra Ísland auglýsingar Vodafone. En ég mun seint skipta frá Símanum - ég er ekki svo mikill djöfulsins sökker! :)

En við skulum taka upp þessa umræðu þegar þú ert orðinn pabbi! ;)

Andri, 23.6.2010 kl. 23:11

2 Smámynd: Anna Guðný

Ég sé á þessari umræðu hér að ég er að missa af heilmiklu. Ég verð að fara að horfa á auglýsingarnar.

Anna Guðný , 29.6.2010 kl. 00:21

3 identicon

Er þetta ekki nákvæmlega ástæðan fyrir að Ring fær viðskptavini? Auglýsingin verður mjög umdeild og allir fara að blaðra og tjá sínar skoðanir á auglýsingunni (t.d. þú) og þegar uppi er staðið þá skilaði auglýsingin algjörlega sínum markmiðum og gott betur en það, öll athygli er góð athygli..

Árni (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 15:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband