Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sterkari utan ESB

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins síðar í mánuðinum þarf flokkurinn að taka afstöðu til aðilar að Evrópusambandinu. Mín skoðun hvað málið varðar er alveg ljós, ég vil ekki ganga í ESB. Ísland er ríkt af auðlindum, sjávarútvegur, landbúnaður, umhverfisvæn orka og vonir um olíu á Drekasvæðinu styrkir enn stöðu okkar utan Evrópusambandsins.

Landbúnaður
Við inngöngu í ESB hafa þjóðir gert sérsamninga um landbúnað. Margir telja er að Finnar hafi gert hagkvæmasta samninginn við ESB. Ef við næðum sambærilegum samningi, sem kallast góður, myndu tekjur bænda á Íslandi dragast saman um 30%. Slík skerðing væri dauðabiti margra bænda. Stéttinni væri stefnt í verulega hættu og til þyrfti að koma mun meiri stuðningur við bændur en nú þegar er til staðar. Afurðastöðvar og þjónustuaðilar gætu lokað sem væri til að mynda mikið áfall fyrir svæði eins og Selfoss.

Sjávarútvegur
Hvað varðar sjávarútveginn tel ég það ekki verja hagsmuni okkar best að færa forræði fiskistofnanna til Brussel. Við höfum unnið með fiskstjórnunarkerfi til að vernda fiskistofna okkar gegn ofveiði og  það hefur komið niður á mörgum útgerðum í landinu. Því er nauðsynlegt að sá afli sem er veiddur á Íslandsmiðum sé veiddur af íslenskum útgerðum. Sjávarútvegur er með elstu atvinnugreinum okkar og hefur verið grunnstoð samfélagsins í gegnum tíðina og því er nauðsynlegt að standa vörð um greinina.

Endurnýtanleg orka
Fallvatns- og jarðvarmaorkan er gullnáma sem í liggja mikil tækifæri. Suðurkjördæmi býr við þau forréttindi að eiga mikil tækifæri í virkjun orku. Sérfræðingar á þessu sviði telja að samanlagt orkumagn í kjördæminu geti orðið um 50 teravattstundir á ári. Ef áætlað sé að orkuverðið sé um 2 krónur á kílóvattstundina nemur verðmæti orkumagnsins um 100 milljörðum á ári. Ég tel það mikilvægt að við nýtum virkjunartækifæri í sátt og samlindi við landeigendur og umhverfið

Framtíðin er björt
Með forræði okkar fyrir auðlindunum er framtíð Íslands björt. Við eigum að standa saman og verja hagsmuni okkar. Með öflugra regluverki, gegnsæi í stjórnmálum og viljan að verki getum við endurreist íslenskt samfélag að nýju og skapað mannsæmandi samfélag með góðum lífskjörum allra landsmanna að leiðarljósi, þess vegna segi ég nei við ESB.

Árni Árnason
Blaðamaður í Reykjanesbæ
Sækist eftir 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

 


Nýtum sóknarfærin

Fyrirtæki og heimili í landinu er í fjárhagslegu svelti og eru búin að vera það síðan bankakerfið hrundi í haust. Fyrirtæki fá ekki fyrirgreiðslu með tilheyrandi samdrætti, uppsögnum og atvinnuleysi. Keðjuverkandi áhrifin skila sér inn á heimilin í landinu og fjölskyldur missa tökin.

Vonbrigði
Á meðan samfélagið blæðir hefur núverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna eytt dýrmætum tíma í eitt verkefni, að reka einn mann, Davíð Oddson seðlabankastjóra. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru með eindæmum og verð ég að lýsa yfir vonbrigðum mínum með Jóhönnu Sigurðardóttir sem forsætisráðherra. Ég taldi hana í meiri tengingu við alþýðuna í landinu en raun ber vitni.

Hvað svo?
Atvinnuleysi er ríkjandi í samfélaginu, vextirnir, verðtryggingin og stýrivextirnir með þeim hætti að almenningur ræður ekki afborganir. Frumvarp um gjaldþrot og tveggja ára kröfuskyldu í stað tíu ára, er blekkingin ein. Eina sem almenningi er lofað er að búa í húsnæði sínu í eitt ár eftir að hafa misst það, hvað svo?

Aldrei setið heilt kjörtímabil
Bankastofnirnar eru en óstarfhæfar og einu breytingarnar sem hafa átt sér stað eru endalausar breytingar á stjórnarmönnum, almenningur er látinn bíða. Fjöldi einstaklinga bíða með góðar og fullmótaðar hugmyndir að nýsköpun, sprotafyrirtækjum og öðrum lausnum og sjá tækifæri í kreppunni sem skapa atvinnu og gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Svör bankanna eru öll á einn veginn, enda kannski ekki von á öðru þar sem vinstri stjórnir hafa aldrei í sögu íslenskrar stjórnmálasögu ráðið við stjórnartaumana, hvað þá setið heilt kjörtímabil.

Lífskjör og stöðugleiki
Ísland þarf ríkisstjórn sem lætur til sín taka og vinnur hratt og örugglega að samfélagslegum úrbótum. Við stöndum frammi fyrir breyttu landslagi í stjórnmálum og þurfum breytingar, bæði hvað þingmenn varðar, sem og málefnalegar breytingar. Í vor þarf Sjálfstæðisflokkurinn að tefla fram traustum og sterkum einstaklingum á framboðslistum sínum í öllum kjördæmum. Framboðslistum sem sanna vilja okkar til athafna til að reisa nýtt regluverk og nýtt samfélag byggt á traustum grunni þeirra gilda sem Ísland stendur fyrir. Þrátt fyrir smæð okkar búum við að miklum auðlindum bæði til sjávar og sveita. Nýtum sóknarfærin og búum í samfélagi þar sem lífskjör og stöðuleiki er hafður að leiðarljósi.

Árni Árnason, blaðamaður í Reykjanesbæ
sækist eftir 4.sætinu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

 


Ungt fólk til áhrifa

Ég er ánægður með hvað ungt fólk sem ég hitti á ferðum mínum um Suðurkjördæmi, er bjartsýnt á framtíð landsins. Spár um landsflótta á næstu árum eru ofmetnar að mínu mati. Ungt fólk er bjartsýnt og tilbúið að taka málið í sínar hendur. Það kemur líka glögglega í ljós þegar litið er til þeirra prófkjöra sem eru framundan hjá stjórnmálaflokkunum, þar lætur ungt fólk til sín taka.

Nýtt regluverk
Mikilvægt er fyrir almenning að taka þátt í prófkjörum og styðja ungt fólk til forystu. Við stöndum frammi fyrir því að regluverkið gaf sig undan ofsókn græðgisvæðingarinnar sem heltók þröngan hóp þjóðarinnar. Afleiðingarnar eru að almenningur í landinu blæðir, skert heilbrigðisþjónusta, atvinnuleysi, skuldafen og erfiðleikar, án þess að almenningur hafi neitt með það að gera hvernig fór.

Viðreisn sjálfstæðisstefnunnar
Sjálfstæðisstefnan var misnotuð á mjög neikvæðan hátt og því nauðsynlegt að reisa regluverk þjóðarinnar á nýjan leik, án möguleika á misnotkun. Sjálfstæðisstefnan er reist á frelsi einstaklingsins til komast áfram á eigin ágætum og hæfileikum án þess þó að það skaði aðra. Við sem sem viljum axla ábyrgð erum reiðubúin í að reisa samfélag þar sem allir búi við eðlileg lífsgæði á nýjan leik.

Framtíðarsýn
Ég hef þessa sterku framtíðarsýn fyrir land og þjóð. Ég vil hvergi annarsstaðar búa en á Íslandi og til að Ísland verði land tækifærana er ég reiðubúinn að leggja mitt að mörkum. Ég vil þjóðfélag þar sem einstaklingurinn geti blómstað án hafta og þvinganna. Ég vil næga atvinnu, nýsköpun og spennandi sprotafyrirtæki. Ég vil gott heilbrigðiskerfi og næg hjúkrunarrými, tækifæri ungs fólks til menntunar og öfluga ferðaþjónustu. Ég vil verðtryggingu burt og lægri vexti. Ég vil samfélag sem við Íslendingar getum verið stoltir af.

Ungt fólk til áhrifa
Þann 14.mars nk. fer fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og sækist ég eftir stuðningi í 4. sætið. Ég er reiðubúinn að láta gott af mér leiða í þágu þjóðarinnar í þeirri viðreisnarverkum sem framundan eru. Ég vona að sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi styðji ungt og metnaðarfullt fólk til áhrifa.

Árni Árnason
Blaðamaður í Reykjanesbæ

 


Tími breytinga

Boðað hefur verið til alþingiskosnina 25.apríl næstkomandi. Íslensk stjórnmál standa á krossgötum, 18 ára stjórnarseta Sjálfstæðisflokks er lokið og vinstri stjórn tekin til valda. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn stjórnmálaflokka tekið höggið fyrir alþjóðakreppu, Framsóknarmenn hvítþvo hendur sínar og kannast ekkert við neitt, sem segir meira en mörg orð um ábyrgðarkennd flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur að sjálfsögðu verið lengi við völd og því kannski eðlilegt að hann axli ábyrgð. Breytinga er þörf innan flokksins til að vinna aftur traust almennings á flokknum. Breytingar á forystu liggur fyrir, Geir Haarde formaður gefur ekki kost á sér aftur og spurning hvernig Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kemur út úr kosningu um forystu flokksins.

Sjálfstæðismenn um allt land vilja breytingar og þá ekki einvörðungu á forystu flokksins, heldur á framboðslistum líka. Flokkurinn þarf að taka til innan sinnar raða, hleypa öðrum að til að vinna að endurbyggingu samfélagsins. Tiltekt á framboðslistum er stórhluti af iðrun flokksins. Það er lýðræðisleg krafa almennings að fram fari prófkjör í öllum kjördæmum. Flokkurinn mun ekki koma vel út úr kosningu með sömu leiðtogaefnin og sátu í ríkisstjórn, fyrir þessu þurfum við sjálfstæðismenn um land að berjast fyrir.

Við þurfum að koma bönkunum úr öndunarvélunum og af gjörgæslu. Eins og staðan er í dag eru fyrirtæki í landinu á bið í sínum eðlilega rekstri. Fyrirgreiðslur og fjármagn til nýsköpunar í atvinnulífinu eru nauðsynlegar. Atvinnuleysi þarf að eyða á næstu árum og vinna hratt og örugglega í þeim efnum. Fjölskyldur í landinu eru að taka höggið þrátt fyrir að hafa ekki verið með í fjármálaleiknum sem knésetti þjóðina. Sú staða er engan veginn viðunandi, útrásarvíkingarnir eru þeir sem eiga að blæða um þessar mundir.

Við þurfum að skoða vandlega möguleika á upptöku annars gjaldmiðils. Við eigum að fara í aðildarviðræður við ESB til að fá skýr svör um hvað við fáum og hverju við þurfum að fórna. Þegar það liggur fyrir á þjóðin að kjósa um kosti og galla inngöngu í ESB. Þjóðin getur vart gert upp hug sinn þar sem nægilegar upplýsingar liggja ekki fyrir.

Við verðum að hefja hvalveiðar. Hvalastofnin hefur fengið að vaxa og dafna um árabil óáreittur á kostnað fiskistofna sem við höfum með fiskveiðistjórnunarkerfinu okkar reynt að verja. Það liggur fyrir að hvalastofnin þarf að haldast í skefjum. Aukaveiðiheimildir sem nýverið voru leyfðar af sjávarútvegsráðherra hefði mátt deila á byggðarlög á landsbyggðinni með þeim skilyrðum að öll vinnsla færi fram í landi og skapaði atvinnu.

Ný vinstri stjórn hefur á tímum niðurskurðar eytt strax á fyrstu metrunum eytt 500 milljónum. Stjórnlagaþing kostar 300 milljónir og talið er að það kosti ríkið 200 milljónir að skipta út seðlabankastjórum. Þá hafa komugjöld innan heilbrigðisstofnana verið afnumið á sama tíma og fé vantar í heilbrigðisgeirann og innkaup á lyfjum til sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu verða skorin niður svo um munar.

Kosningarnar í apríl næstkomandi verða að bjóða almenningi upp á trausta einstaklinga sem eru reiðubúnir að fórna sér í uppbyggingarstarf, viðreisn Íslands og standa vörð um hag fyrirtækja og heimila í landinu. Samfélagið er ekkert annað en ein stór vél sem þarf að smyrja svo allt gangi sinn vanagang. Við erum olíulaus, núna þurfum við að smyrja.


Gleðileg jól

 Ekki hefði ég verið góður öryggisvörður í búð fyrir þessi jól. Búðarhlupl hefur verið áberandi síðustu daga og oft á tíðum er um að ræða eldri borgara sem hafa hnuplað sér til matar vegna fátæktar. Fólkið sem hefur unnið baki brotnu fyrir land og þjóð alla sína ævi. Þetta er sorgleg staðreynd í íslensku samfélagi. Við sem vorum svo rík, við sem töluðum um fátækt eins og mein sem ekki væri að finna hjá okkur. Á einum sólarhring breyttist allt, fólk á öllum aldri, ungar barnafjölskyldur sem og eldri borgarar eiga erfitt. Almenningur sem stóð við sitt í samfélaginu, sinntu sínum störfum taka nú höggið fyrir örfáa útrásarvíkinga sem halda nú jól í glæsilegum íbúðum víða um heiminn. Eftir situr þjóðin með sárt ennið. Ég hefði aldrei höndlað það að hrifsa mat af fátæku fólki í búð, ég hefði látið sem ég sæi þetta ekki. Það er ömulegt að eiga ekki fyrir mat á jólunum, alveg ömulegt. 

Ég vona að við íslendingar notum jólin til að íhuga stöðu okkar, við sem setjum að borðum í kvöld hlöðnum kræsingum gerum okkur grein fyrir því að þetta er ekki sjálfsagður hlutum á öllum heimilum í landinu. Lífsgæðin standa á brauðfótum og aldrei fyrr hefur verið eins nauðsynlegt að huga að náunganum. Fylgjumst með næsta manni, nágranna, ættingjum og vinum því ekkert er yndislegra en að geta rétt út hjálparhönd, ekkert gleður meira og tilfinningin í hjartanu verður ómetanleg. Framundan eru erfiðari tímar og aldrei verður meiri þörf á samstöðu og samhug. Sýnum útrárasarvíkingunum að þrátt fyrir að þeim tókst að setja heila þjóð í gjaldþrot þá tókst þeim ekki að selja sálur okkar, hlýhug og vinarþel. 

Kæru vinir og félagar, ég þakka þeim sem hafa lagt leið sína inn á bloggið hjá mér og hafa tekið þátt í skoðanaskiptum hérna. Ég óska ykkur sem og allri þjóðinni gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, njótið þess að eiga stundir með ykkar nánustu, það ætla ég að gera.


Eigum við að ganga í ESB?

Þá er það þetta blessaða Evrópusamband sem margir halda að sé ljósið í myrkrinu hjá okkur íslendingum um þessar mundir. Ég sat fund á vegum sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sl. mánudagskvöld um sambandið þar sem tekist var á um málið.  

Margt gott kom fram á fundinum en mörgum spurningum er enn ósvarað að mínu mati. Ég líka velti því fyrir mér hvort það sé hægt að mynda hóp einstaklinga til að skoða Evrópusambandið með eins óhlutdrægum hætti og nauðsyn er ? Þeir sem vilja ganga í ESB eru svo heilaþvegnir margir hverjir og sama má segja um þá sem eru því algjörlega ósammála. Þegar ég hitti slíkt fólk þá tapar það trúverðugleika nema að rökin séu það fjölþætt að þau varpi ljósi á allar staðreyndir málsins.  

Ég nam stjórnmálafræði við Háskóla Íslands 2001-2004 og tók þar nokkra Evrópu áfanga og þar af einn sem var vikuferð til Brussel. Eftir nám mitt þá var ég ekki hlynntur inngöngu í ESB, ástæða inngöngu þá var byggð á rökum sem ekki heilluðu mig. Ég hef ávallt litið á ESB sem hálfgert risa félagasmálaráðuneyti, ráðuneyti sem hefur jú stöðugri gjaldmiðil en þau ríki sem standa vel græði minna á aðildinni. Ég hef ekki litið svo á að íslenskir bændur þurfi á auknu styrktarkerfi að halda, finnum stærðarhagkvæmnina í landbúnaði eins og við ætlumst til af öðrum stéttum.  

Landbúnaðarstefna ESB er langt í frá að vera fullkomin. Sambandið hefur staðið frammi fyrir því að leggja 50% af fjárlögum sínum í málaflokkin. 2003 voru 11 milljónir bænda í ESB-ríkjunum 4 milljónir bænda í Póllandi. Þar voru bændur verulega fátækir og útbúnaður þeirra árhundruðum á eftir siðmenntuðum þjóðum. Gífulegur stuðningur við stéttina olli því að ESB stóð frammi fyrir framboði yfir eftirspurn. Á tímabili var landbúnaðarvörum safnað í geymslur til að hægja ekki á framleiðslu bændanna og að lokum endaði það á haugunum. ESB ákvað viðmiðunarverð á landbúnaðarvörum, veit ekki hvort það sé enn við lýði. Allar vörur sem framleiddar eru utan Evrópska efnahagssvæðisins eru aukaskattlagaðar svo að vörur svæðisins séu lægri.  

Matarkarfan á að lækka þvílíkt við inngöngu í ESB, er þá reiknað inn í dæmið sendingarkostnaður? Eða er tekið verð í verslun í Frakklandi, Þýskalandi eða Bretlandi og lagt á borð fyrir okkur ? Við verðum að átta okkur á að við skutlumst ekki með vöruna okkar á flutningabíl yfir landamæri, við erum á eyju. Það er staðreynd að matarkarfan hefur ekki lækkað í öllum þeim löndum sem hafa gengið í ESB.

Sjávarútvegsstefnan er langt í frá að vera fullkomin heldur. Allur kvóti fer í einn pott og ESB deilir honum niður á löndin sem úthluta honum áfram til útgerða. Við fáum aðgang að veiðum í lögsögum ESB – ríkjanna og þeir hjá okkur. Samkvæmt Rómarsáttmálanum er bannað að mismuna eftir þjóðernum þegar kemur að úthlutun kvótans. Getum við þá sótt um sérkjör hvað kvótan varðar ? Á Íslandi er kvótinn yfirveðsettur ! Þá var á tímabili stundað svokallað kvótahopp þar sem lönd voru að díla með veiðarnar. Bresk skip á veiðum undir spænsku flaggi og öfugt. Veiddu í spænskri lögsögu en sigldu svo með aflan til Bretlands. Noregur sótti um undanþágu varðandi fiskveiðarnar og þeim var synjað. Þeim var boðin aðlögunartími þar sem þeir réðu yfir 6 til 12 mílna landhelgi við strendur Noregs. Norðmenn felldu aðildartillöguna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Miðað við núverandi ástand á Íslandi ættum við að auka kvóta á smábáta og láta þá koma með aflann í land og auka þar með atvinnutækifærin á landsbyggðinni. 

Ég vil fá svör við öllum málaflokkum varðandi aðild okkar að ESB. Ég skal skoða svörin, staðreyndirnar með hlutlausum hætti og svara þá hvað ég vil. Ég verð að viðurkenna það að ganga inn í þingsal Evrópuþingsins og sjá öll sætin og hugsa til þess að við fáum þar kannski fimm sæti af tæplega 800 hundruð vakti athygli mína á smægð okkar. Þingmenn allra ríkjanna skiptast niður eftir hvaða flokki þeir tilheyra, íhaldsmenn saman, jafnaðaramenn og svo framvegis. Samt hafa komið upp deiluefni þar sem stóru ríkin innan ESB rotti sig saman burt séð frá flokkum til að keyra í gegn málefni, kúga þar með smáríkin.  

Haraldur Helgason formaður Sjálfstæðisfélagsins Njarðvíkings vitnaði á fundinum í orð Vigdísar Finnbogadóttur fyrrum forseta lýðveldisins. Hún sagði í Sjálfstæðu fólki nýverið að hún vill sjá hverju hún þarf að fórna og hvað hún fær í staðin áður en hún gefur upp afstöðu sína um ESB. Þar er ég henni hjartanlega sammála, við Vigdís og Haraldur erum semsagt óákveðin eins og er.

P.S. eitt sem ég veit er að Vigdís gæti enn verið forseti okkar - þvílíkur munur sem það væri :)


Til skammar að grýta Alþingishúsið

Ég skil vel þá reiði sem ríkir í íslensku samfélagi, ég skil að almenningur rísi upp, segi skoðanir sínar og vilji láta í sér heyra. Ég skil að almenningur vilji að á það sé hlustað. Almenningur situr uppi með tap útrásarvíkinganna, hrun bankanna, fall krónunnar, háa stýrivexti. Almenningur stendur frammi fyrir greiðsluerfiðleikum og margir sjá fram á gjaldþrot, eigur sínar teknar þar sem afborganir á lánum eru í hæstu hæðum og fáir ráða við byrgðina.  

Ég er líka almenningur og ég er líka í miklum vanda. En þegar ég horfði á fréttirnar í gær þar sem þúsundir manna söfnuðust saman á Austurvelli til að mótmæla varð ég reiður. Mótmælin fóru út í vitleysu, til átaka kom og Alþingishúsið grýtt. Alþingishúsið er eitt af glæsilegustu byggingum þjóðarinnar og við eigum það öll saman. Alþingishúsið hefur staðið sem klettur í íslensku samfélagi í gegnum tíðina og er merki sjálfstæðis og mikilvægi þjóðarinnar og það er til skammar að það sé grýtt. Mótmælin birtust á réttan hátt á fundi í Iðnó og að sjálfsögðu má mótmæla fyrir utan Alþingishúsið,en ekki grýta það.  

Þá fóru mótmælendur og flögguðu Bónusfánanum á þaki Alþingishúsins. Hvað var það ? Var verið að hylla Bónusfeðga ? Það sem ég er ekki að skilja hjá stórum hluta almennings er að það eru ekki allir að líta á málið í samhengi. Baugsfeðgar, Björgúlfsfeðgar, Hannes Smárason og fleiri útrásarvíkingar virðast losna undan ábyrgð almennings. Þar er ég ekki sammála.  

Ég veit að lagaramman vantaði og það er á ábyrgð Alþingis, það er á ábyrgð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, en Framsókn virðist alveg sleppa við ábyrgð í þessu máli. Stærsta ábyrgðin liggur hjá þeim sem stunduðu útrásina. Útrásin er tólfföld  velta þjóðarinnar. Menn hafa ekki verið að taka því rólega, enda sýna einkaþoturnar og sérhannaðar snekkjur það að menn hafa haft sig alla við að eyða peningum sem voru ekki til. Bankarnir sýndu endalaust frábæra afkomu og almenningur og stjórnmálamenn tóku uppgjörum þeirra gilda.  

Leikur með fyrirtæki á milli sömu einstaklinganna eins og með Sterling sýnir siðblindu útrásarvíkinganna. Fyrirtæki keypt leikið með tölur til að taka hærri lán á kostnað þeirra og peningum stungið undan er hættulegur leikur sem skilur okkur eftir með brúsann.

Þetta er tekið af eyjan.is afhverju er Hannes og félagar ekki grýttir ?

Sumarið 2005 lét Hannes Smárason, þá stjórnarformaður FL, flytja án heimildar þrjá milljarða króna af reikningum FL til Kaupþings í Lúxemborg, til þess að hjálpa Pálma Haraldssyni við að greiða fyrir kaupin á lággjaldaflugfélaginu Sterling í Danmörku. Þetta kemur fram í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.Þegar upp komst um gjörninginn neituðu endurskoðendur að skrifa upp á sex mánaða uppgjörið og stjórn og forstjóri sökuðu Hannes um að hafa þverbrotið lög með þessum  


Ísland er land mitt !

Ég er ríkur, ég vil hvergi annarsstaðar vera en á mínu  ylhýra Íslandi. Land og þjóð er mér allt og hér hef ég alið manninn alla mína hunds og kattatíð. Hér líður mér vel. Síðustu mánuði hef ég látið neikvæðni ná tökum á mér, verið pirraður út alla aðra en sjálfan mig. Pirraður yfir kreppunni, ástandinu, pirraður yfir því að vera í fjárhagslegum vandræðum, hef ekki séð til sólar vegna hugarástands sem er engum hollt.  

 Við unga fólkið viljum eiga allt það flottasta, glæsileg heimili, flotta bíla og ganga í klæðnaði sem endurspeglar hátískuna á hverjum tíma. Sumir eru hagsýnir og safna fyrir hlutunum og fara eftir mottói Páls Óskars, að það sé skemmtilegra að kaupa sér hlutina þegar maður á fyrir þeim, mikið til í þeirri speki. Ég hef átt nokkur góð samtöl við móður mína sem er rúmlega sextug. Ég hef áttað mig hvernig þeir sem eldri eru hugsa öðruvísi en við sem yngri erum. Með samtölunum hef ég náð að framkvæma hugarfarsbreytingu og núna líður mér betur.  

Ég á frábæra fjölskyldu, foreldra, ömmu, þrjú systkini og sex frændsystkini sem ég dýrka.  Peningar koma og fara, hús og bílar koma og fara, en á meðan við höfum hvort annað og höldum heilsu þá erum við rík. Lífsgæðakapphlaupið má ekki ná tökum á okkur, við megum ekki gleyma því mikilvægasta í lífinu. Það er stuðningur, ást og umhyggja þeirra sem standa manni næst. Ég er líka svo ríkur að ég á stóran vinahóp sem fyllir líf mitt að gleði og hlátri, samverustundum sem eru mér svo mikils virði.  

Í öllum þessum látum sem ganga yfir þjóðfélagið núna gleyma margir sér, leyfa reiði og hatri ná tökum á sér, neikvæðum tilfinningum sem skilar engu nema eigin vanlíðan.  

Þar sem ég er sjálfstæðismaður og verð það alltaf, fæ ég að heyra það reglulega frá fólki, hvernig minn flokkur er búinn að klúðra íslensku samfélagi, hvernig minn flokkur hefur gert drauma og vonir fólks að engu. Ég er ekki sammála þessu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið einn við stjórnvöldin hér í landinu síðastliðna áratugi, þótt hann hafi að sjálfsögðu verið einn af stjórnarflokkunum. Geir hefur í sumar unnið að því að auka lausafjármagn í landinu til að draga úr áhrifum kreppunnar. Ekki má heldur gleyma því í umræðunni að þetta ástand er ekki eins dæmi. Kreppan er um alla Evrópu, Bandaríkin, Kanada. Allsstaðar er sótt að almenningi í þessu ástandi. Geir og félagar standa í ströngu við að bjarga hag þjóðarinnar á sama tíma og fjölmiðlar næra almenning á neikvæðni og stuðla að múgæsingi. Það væri frábært ef fjölmiðlar gætu séð af sér og fjallað með jákvæðum hætti um stöðuna. Ég vinn við fjölmiðil sjálfur og veit alveg hvernig hægt að stjórna umræðunni ef maður vill fara þann veg. 

Ég hélt að ég ætti aldrei eftir að segja að við ættum að taka Bandaríkin okkur til fyrirmyndar, en nú er staðan slíka að keyra þarf upp samkennd og einingu í landinu. Keyra á þjóðernishyggju og baráttuhug þjóðar sem hingað til hefur náð að bjarga sér úr erfiðum aðstæðum í gegnum tíðina. Náttúruhamfarir,kreppur, Þorskastríð, hersetu, berklar og fleira sem við höfum glímt við og alltaf staðið okkur. Þjóðin þarf að taka höndum saman og standa á bakvíð ríkisstjórn landsins, vinna með henni að árangri. Ég er get sannfært ykkur um það að sama hvaða stjórnmálamaður úr sama hvaða stjórnmálaflokki stæði í sporum Geirs þessa stundina þá hefði viðkomandi minn stuðning. Einn maður vinnur ekki stórsigra í hópíþrótt, hann þarf liðið allt með sér og stuðning úr áhorfendastúkunum.  

Kæru íslendingar oft er þörf en nú er nauðsyn að standa öll sem einn, brjótum ekki niður það sem er verið að reyna að afreka, tölum hlutina upp á við, jákvæðnin ein getur flutt fjöll. Hættum sandkassaleiknum að finna einhvern sökudólg, hættum að röfla um brottrekstur embættismanna, það er tími fyrir slíkt síðar.


Björn Bjarnason á villigötum

Ég verð að viðurkenna það að ég er virkilega ósáttur með flokksbróðir minn og dómsmálaráðherra Björn Bjarnason. Hann hefur ákveðið að auglýsa stöðu lögreglstjóra á Suðurnesjum.  

Jóhann Benediktsson lögreglustjóri á Suðurnesjum hefur staðið sig með prýði í störfum sínum. Hann hefur styrkt lögregluna á svæðinu og Suðurnesjamenn eru ánægðir með löggæsluna á svæðinu og þann árangur sem náðst hefur.  

Margir tala um að fíkniefnatilfellum fari fjölgandi á Suðurnesjum. Auðvitað getur verið einhver aukning, en fyrst og fremst tel ég að um sé að ræða markvissari rannsóknir og öflugri aðgerðir. Ég sannfærist ekki að rökum ráðherrans um að vegna breytinga á embættinu sé nauðsynlegt að auglýsa og hans persónulegu skoðun að oftar eigi að auglýsa stöður hjá ríkinu en nú er gert.  

Sveinn Andri lögfræðingur segir að ákvörðun ráðherrans sé ekkert annað en uppsögn, því er ég alveg sammála.  Ég tel það mikill kostur að Jóhann sé ekki Suðurnesjamaður og búi ekki hérna. Tengist engum hérna og er að taka verulega á málunum og er að skila góðum árangri og það er það sem við íbúarnir á svæðinu viljum.  

Ég vona að Björn Bjarnason sjái af sér í þessu máli og dragi hugmyndir sínar um að auglýsa starfið til baka, hann er á villigötum hvað þetta varðar.


Blessuð sé minning Frjálslynda flokksins

Ég hef verið lengi hissa á því hvað Frjálslyndi flokkurinn lifir. Klofningsframboð og framboð stofnuð í kringum eitt sérstakt málefni hafa oft á tíðum ekki átt góðan líftíma og fæst þeirra lifa lengur en eitt kjörtímabil. Meira segja eru til dæmi þess að slík framboð falli í svefnin langa strax eftir kjördag. 

 Frjálslyndi flokkurinn er í algjörri upplausn. Flokkurinn var stofnaður gagngert til að berjast gegn kvótakerfinu á sínum tíma og hefur með ótrúlegum hætti náð að halda mönnum inn á þingi. Þingflokkurinn telur 4 þingmenn sem eru engan veginn að ná saman. Fyrrverandi þingmenn hafa áhrif á umræðuna innan þingflokksins með fordómum í garð innflytjenda og flóttafólks á meðan Sigurjón Þórðarson vill gefa kost á sér gegn sitjandi formanni flokksins. 

Ungir frjálslyndir hafa ályktað gegn sitjandi þingmanni flokksin Kristni H. Gunnarssyni og vilja hann út. Það er gaman að fylgjast með Kristni, hann á fáa stjórnmálaflokka eftir karlgreyið. Hann var í Alþýðubandalaginu að mig minnir, en færði sig þaðan yfir í Framsóknarflokkinn. Þar náði hann að mála sig út í horn og flúði yfir í Frjálslynda flokkinn, hvert fer hann næst?  

Það sem vekur athygli mína í  þessum deilum er að þær eru allar innan flokksins. Félagsmenn Frjálslynda flokksins eru að fremja pólitískt sjálfsmorð, alla vega góða tilraun til þess. Hvernig ætlar 4 þingmanna þingflokkur að ganga til kosninga þegar eina eftirtektaverða sem þeir gerðu á kjörtímabilinu var að rífast innbryðis ? Hvernig væri stemmingin í Frjálslynda flokknum ef flokkurinn hefði 15 þingmenn ?  

Þetta er hættan við róttækan stjórnmálaflokk stofnaðan til að berjast um eitt málefni. Ef flokkurinn nær að lifa bætast nýjir einstaklingar við sem koma ekki alfarið fyrir eitt málefni, heldur vilja leggja áherslu á aðra málaflokka. Þegar það gerist eru menn engan veginn samstilltir og það sýður upp úr.  Ég spái því að Frjálslyndi flokkurinn eigi ekki framtíðina fyrir sér og verði tekinn af lífi í næstu kosningum með lýðræðislegum hætti í kjörklefunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband