Færsluflokkur: Íþróttir
23.8.2008 | 02:25
Áfram Ísland !
Ísland er á öðrum endanum yfir velgengni íslenska handboltaliðsins á Olympíuleikunum, enda engin furða. Strákarnir hafa staðið sig með slíkum ágætum að maður hreinlega trúir þessu ekki. Ég hef fylgst með landsliðinu í handbolta í mörg ár. Ég er nú samt laus við öll íþróttagen, en það sem varð til þess að fylgjast með landsliðinu var að Róbert Sighvats frændi lék með liðinu fyrir mörgum árum.
Að sjálfsögðu stóð maður með frænda og horfði á leikina stoltur, sama geri ég nú og það var ótrúleg gæsahúð sem greip mann við sigurinn á Spán. Það var frábært að sjá í fréttum hvað þjóðin stendur með strákunum, áhugi og stuðningurinn endurspeglast í öllum aldri þjóðarinnar og það er svo gaman að sjá hvað við getum tekið okkur saman og verið sem eitt þegar þess ber undir.
Ég er virkilega bjartsýnn á að strákarnir sigri frakkanna á sunnudagsmorgun og að sjálfsögðu vaknar maður til að horfa á leikinn, þetta verður stund sem engin íslendingur ætti að missa af. Ég sendi strákunum okkar baráttukveðjur til Kína, þeir hafa skráð sig í íþróttasögu þjóðarinnar með svo glæsilegum hætti að íslenska stoltið og þjóðremban brýst út í manni.
Eigið góða helgi og ekki missa af leiknum !
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 02:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)