1.7.2010 | 05:31
Við eigum að borga og þegja
Ég velti fyrir mér fulltrúalýðræðinu sem við búum við, er það að virka sem skyldi ? Kjörbærir einstaklingar í samfélaginu ganga til kosninga og framselja rétti sínum til ákvarðanatöku, til frambjóðenda sem hafa lagt fram skýra stefnu um hvernig þjóðskútunni skuli vera siglt.
Þegar stjórnmálin eru skoðuð í dag tel ég fulltrúalýðræðinu ábótavant. Við erum með ekki bara ríkisstjórn, heldur fjölda alþingismanna sem eru á engan hátt að sinna störfum sínum. Ríkisstjórnin er máttvana í allri sinni mynd og þingmenn hræðast að tjá sig, til að mynda um dóm Hæstaréttar sem féll nýverið varðandi gengistryggða lánveitingu.
Háttvirtur viðskiptaráðherra hefur komið fram í málinu með þeim hætti að hann má alveg taka pokann sinn mín vegna. Ég spyr hvar eru þingmennirnir okkar sem fengu lýðræðislegt umboð okkar til að standa vörð um hag okkar ? Almenningur í þessu landi hefur nú á annað ár búið við óréttlæti, bankastofnanir skiptu um kennitölur eins og dauðvona bílasala og fengu sínar skuldir afskrifaðar. En skuldir almennings við gömlu bankana var eina arflegðin sem flutt var yfir í þá nýju. Við eigum að borga og þegja.
Almenningur bar loksins sigur í baráttunni við kúgun og óréttlæti með þessum tiltekna dómi, en einhverra hluta vegna liggur fnykur í loftinu. Lýðræðiskjörnu fulltrúarnir okkar eru hljóðlátir í þetta skiptið. Við þurfum að þola niðurskurð í öllum málaflokkum, verðhækkanir á vöru og þjónustu og skattahækkanir upp í rjáfur. Á almenningur þá ekki rétt á leiðréttingu á okri lánastofnana í von um að ná endum saman ? Það er ekki eins og heimilum í landinu hafi verið rétt hjálparhönd í ástandinu.
Ef almenningur fær ekki notið þessa dóm til hins ýtrasta liggur alveg ljóst fyrir að við þurfum að kjósa okkur aðra fulltrúa til að fara með valdið í landinu við hreinlega getum ekki meir.
Ég er mikill lýðræðissinni í hjarta mínu, hef tröllatrú á frelsi til athafna, en köfnunartilfinningin er að verða óbærileg. Við látum bjóða okkur upp á ríkisstjórn, embættismenn og stjórnsýslu, sem á að vera okkur í hag, sem brýtur niður einstaklingana og fjölskyldur í landinu. Ég spyr hreinlega hvað ætlum við að láta bjóða okkur þetta lengi?
Á einum erfiðasta tímabili íslensku þjóðarinnar situr andvana ríkisstjórn sem mynduð er af tveimur stjórnmálaflokkum sem eru sammála um að vera ósammála. Ríkisstjórn sem hefur á engan hátt bætt atvinnuástandið í landinu, ríkisstjórn með skattpíningarhvöt, ríkisstjórn sem er ósammála í ESB málum, ríkisstjórn sem kallar sig norræna velferðarstjórn! Fátækin hefur samt aldrei verið meiri, atvinnuleysi aldrei hærra og heilbrigðisþjónustan skert verulega. Ríkisstjórn sem ætlaði að bjarga fjárhagnum með að skattleggja áfengi og sykraða gosdrykki til að ná endum saman.
Það er deginum ljósara að það þarf fólk á Alþingi sem er í tengslum við raunveruleikann, fólk sem veit og skilur vanda þjóðarinnar, fólk sem veit hvernig það er fyrir barnafjölskyldur að ná endum saman það þarf hreinlega að fara út með ruslið !!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:32 | Facebook
Athugasemdir
Orðskrípið "fulltrúalýðræði" er náttúrlega oxymoron. Alveg eins hægt að kalla einrði "alvaldslýðrði". Þetta er eitt af spunahugtökum samfylkingarinnar, rétt eins og tap er varnarsigur í þeirra augum og fleira gáfulegt úr þeim ranni.
Það er bara ein tegun af lýðræði. Best að hafa það hugfast. Skýringin felst í orðinu sjálfu.
Jón Steinar Ragnarsson, 1.7.2010 kl. 07:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.