Hvað gerist í kosningunum í vor?

Sjaldan hefur pólitísk sundrung þjóðarinnar verið meiri og nú. Almenningur er brenndur eftir hrun og kjörtímabil skattahækkanna, atvinnuleysis, niðurskurði til menntunar, löggæslu og heilbrigðismála. Málið er það alvarlegt að ekki er löggæsla til að mynda í Vík í Mýrdal og krabbameinssjúklingar, sem heyja baráttu upp á líf og dauða komast ekki í lyfjameðferð þar sem lyfin eru búin í landinu. Næsta sending kemur á næsta ári.

Síðasti vetur velferðarstjórnarinnar er hafinn. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra er glöð með árangurinn. Bullandi hagvöxtur, atvinnuleysi dregst saman og jöfnuður ríkir í samfélaginu. Það lítur út fyrir að við Jóhanna búum ekki í sama samfélaginu. Öll neysla almennings er rándýr, matvæli, fatnaður, lyf, og áfram má telja. Vextir að buga annaðhvert heimili, fátækt aldrei meiri og jú atvinnuleysið dregst saman, en þá má eflaust rekja til þess að fólk flýr land.

Frambjóðendur streyma í prófkjör, uppstillingar og hvað sem þetta allt heitir. Þegar litið er til fjórflokkanna mun stór hópur núverandi þingmanna gefa kost á sér aftur. Sumir færa sig um set hvað varðar kjördæmi, eins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Sem formaður Framsóknarflokksins er hann hræddur um stöðu sína í borginni og leitar annað. Sér til þess að það er uppstilling til að tryggja sig í sessi. Hugsjón með þágu þjóðarinnar að leiðarljósi, eða útsjónarsemi með eigin hag fyrir brjósti? Dæmi hver fyrir sig.

Allir framboðslistar verða valdnir eða skipaðir af flokksfélögum. Ég hef miklar áhyggjur hvað það varðar. Alþingi stendur frammi fyrir vantrausti þjóðarinnar, virðing þess hefur aldrei verið lakari. Almenningur hefur almennt séð takmarkaðan áhuga á að vera flokksbundinn. Þess vegna verður það fastur kjarni hvers flokks fyrir sig sem á endanum velur næstu þingmenn fyrir þjóðina. Hver verður endurnýjunin ? Fasti kjarninn situr fundi og kjördæmaþing með sitjandi þingmönnum og verja þá íllum tungum. Hverjir eru þá möguleikarnir að þjóðin fá ferska framboðslista með góðri endurnýjun, mjög takmarkaðir að mínu mati.

Þá er von á nokkrum nýjum smáframboðum sem bjóða fram í vor. En sagan segir okkur að slík framboð eru ekki langlíf og 5% þröskuldurinn gerir þeim erfitt fyrir. Þar að auki má ekki búast við miklu frá framboði sem nær inn einum þingmanni. Atkvæðin munu því dreifast á fleiri framboð í vor en nokkru sinni fyrr í okkar samtíð. Mörg litlu framboðanna sem munu fá 2 til 5% atkvæða verða til þess að fjórflokkarnir munu flestir standa uppi með sína vanalegu sneið af kökunni.

Hvað breytist þá á nýju kjörtímabili ? heldur stjórnin velli og klaufast áfram ósammála um ESB, Stjórnarskrármálið og auðlindargjaldð ? Hve mörg kjörtímabil á þjóðin að sitja ráðþrota í ræsinu þegar hagur hennar í atvinnumálum, heilbrigðismálum og almennum lífskjörum situr á hakanum? Hvenær fáum fólk á Alþingi sem er í tengslum við raunveruleikann ?


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband