19.9.2008 | 16:28
Blessuð sé minning Frjálslynda flokksins
Ég hef verið lengi hissa á því hvað Frjálslyndi flokkurinn lifir. Klofningsframboð og framboð stofnuð í kringum eitt sérstakt málefni hafa oft á tíðum ekki átt góðan líftíma og fæst þeirra lifa lengur en eitt kjörtímabil. Meira segja eru til dæmi þess að slík framboð falli í svefnin langa strax eftir kjördag.
Frjálslyndi flokkurinn er í algjörri upplausn. Flokkurinn var stofnaður gagngert til að berjast gegn kvótakerfinu á sínum tíma og hefur með ótrúlegum hætti náð að halda mönnum inn á þingi. Þingflokkurinn telur 4 þingmenn sem eru engan veginn að ná saman. Fyrrverandi þingmenn hafa áhrif á umræðuna innan þingflokksins með fordómum í garð innflytjenda og flóttafólks á meðan Sigurjón Þórðarson vill gefa kost á sér gegn sitjandi formanni flokksins.
Ungir frjálslyndir hafa ályktað gegn sitjandi þingmanni flokksin Kristni H. Gunnarssyni og vilja hann út. Það er gaman að fylgjast með Kristni, hann á fáa stjórnmálaflokka eftir karlgreyið. Hann var í Alþýðubandalaginu að mig minnir, en færði sig þaðan yfir í Framsóknarflokkinn. Þar náði hann að mála sig út í horn og flúði yfir í Frjálslynda flokkinn, hvert fer hann næst?
Það sem vekur athygli mína í þessum deilum er að þær eru allar innan flokksins. Félagsmenn Frjálslynda flokksins eru að fremja pólitískt sjálfsmorð, alla vega góða tilraun til þess. Hvernig ætlar 4 þingmanna þingflokkur að ganga til kosninga þegar eina eftirtektaverða sem þeir gerðu á kjörtímabilinu var að rífast innbryðis ? Hvernig væri stemmingin í Frjálslynda flokknum ef flokkurinn hefði 15 þingmenn ?
Þetta er hættan við róttækan stjórnmálaflokk stofnaðan til að berjast um eitt málefni. Ef flokkurinn nær að lifa bætast nýjir einstaklingar við sem koma ekki alfarið fyrir eitt málefni, heldur vilja leggja áherslu á aðra málaflokka. Þegar það gerist eru menn engan veginn samstilltir og það sýður upp úr. Ég spái því að Frjálslyndi flokkurinn eigi ekki framtíðina fyrir sér og verði tekinn af lífi í næstu kosningum með lýðræðislegum hætti í kjörklefunum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:30 | Facebook
Athugasemdir
Heyr, heyr
Elenora Katrín Árnadóttir, 20.9.2008 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.