Tími breytinga

Boðað hefur verið til alþingiskosnina 25.apríl næstkomandi. Íslensk stjórnmál standa á krossgötum, 18 ára stjórnarseta Sjálfstæðisflokks er lokið og vinstri stjórn tekin til valda. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn stjórnmálaflokka tekið höggið fyrir alþjóðakreppu, Framsóknarmenn hvítþvo hendur sínar og kannast ekkert við neitt, sem segir meira en mörg orð um ábyrgðarkennd flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur að sjálfsögðu verið lengi við völd og því kannski eðlilegt að hann axli ábyrgð. Breytinga er þörf innan flokksins til að vinna aftur traust almennings á flokknum. Breytingar á forystu liggur fyrir, Geir Haarde formaður gefur ekki kost á sér aftur og spurning hvernig Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kemur út úr kosningu um forystu flokksins.

Sjálfstæðismenn um allt land vilja breytingar og þá ekki einvörðungu á forystu flokksins, heldur á framboðslistum líka. Flokkurinn þarf að taka til innan sinnar raða, hleypa öðrum að til að vinna að endurbyggingu samfélagsins. Tiltekt á framboðslistum er stórhluti af iðrun flokksins. Það er lýðræðisleg krafa almennings að fram fari prófkjör í öllum kjördæmum. Flokkurinn mun ekki koma vel út úr kosningu með sömu leiðtogaefnin og sátu í ríkisstjórn, fyrir þessu þurfum við sjálfstæðismenn um land að berjast fyrir.

Við þurfum að koma bönkunum úr öndunarvélunum og af gjörgæslu. Eins og staðan er í dag eru fyrirtæki í landinu á bið í sínum eðlilega rekstri. Fyrirgreiðslur og fjármagn til nýsköpunar í atvinnulífinu eru nauðsynlegar. Atvinnuleysi þarf að eyða á næstu árum og vinna hratt og örugglega í þeim efnum. Fjölskyldur í landinu eru að taka höggið þrátt fyrir að hafa ekki verið með í fjármálaleiknum sem knésetti þjóðina. Sú staða er engan veginn viðunandi, útrásarvíkingarnir eru þeir sem eiga að blæða um þessar mundir.

Við þurfum að skoða vandlega möguleika á upptöku annars gjaldmiðils. Við eigum að fara í aðildarviðræður við ESB til að fá skýr svör um hvað við fáum og hverju við þurfum að fórna. Þegar það liggur fyrir á þjóðin að kjósa um kosti og galla inngöngu í ESB. Þjóðin getur vart gert upp hug sinn þar sem nægilegar upplýsingar liggja ekki fyrir.

Við verðum að hefja hvalveiðar. Hvalastofnin hefur fengið að vaxa og dafna um árabil óáreittur á kostnað fiskistofna sem við höfum með fiskveiðistjórnunarkerfinu okkar reynt að verja. Það liggur fyrir að hvalastofnin þarf að haldast í skefjum. Aukaveiðiheimildir sem nýverið voru leyfðar af sjávarútvegsráðherra hefði mátt deila á byggðarlög á landsbyggðinni með þeim skilyrðum að öll vinnsla færi fram í landi og skapaði atvinnu.

Ný vinstri stjórn hefur á tímum niðurskurðar eytt strax á fyrstu metrunum eytt 500 milljónum. Stjórnlagaþing kostar 300 milljónir og talið er að það kosti ríkið 200 milljónir að skipta út seðlabankastjórum. Þá hafa komugjöld innan heilbrigðisstofnana verið afnumið á sama tíma og fé vantar í heilbrigðisgeirann og innkaup á lyfjum til sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu verða skorin niður svo um munar.

Kosningarnar í apríl næstkomandi verða að bjóða almenningi upp á trausta einstaklinga sem eru reiðubúnir að fórna sér í uppbyggingarstarf, viðreisn Íslands og standa vörð um hag fyrirtækja og heimila í landinu. Samfélagið er ekkert annað en ein stór vél sem þarf að smyrja svo allt gangi sinn vanagang. Við erum olíulaus, núna þurfum við að smyrja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Það er rétt hjá þér að nú er þörf á breytingum. Ég er bara hræddur um að inganga í ESB séu þeim breytingum sem þarf að gera til trafala.

Offari, 4.2.2009 kl. 17:23

2 identicon

sammála mörgu sem þú setur fram, sérstaklega með hvalveiðarnar. Það þarf að breyta ansi mörgu finnst manni til að koma þessu í skikkanlegt horf.

En setning sem "pirrar" mig svolítið, þú talar um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einn tekið höggið fyrir alþjóðakreppuna...Ekki ertu þá að meina að þetta sé allt alþjóðakreppunni að kenna hvernig þjóðin standi í dag?

Mér finnst sjálfsagt að flokkurinn sem einkaVINAvæddi bankanna og er hugmyndasmiðurinn að því fjármálakerfi sem hér var við lýði axli ábyrgð. Annars sammála með Framsókn, hverjum dettur í hug að kjósa þann flokk þó svo að gamalla fríhafnarstarsmaður sé kominn í forystu þar

Helgi Þór (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 09:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband