Suðurnesin fórnarlamb vinstri stjórnarinnar

Enn einn erfiður dagur að baki í ríkisstjórnarsamstarfinu sem með einhverjum hætti lafir áfram við völd. Atburðir síðustu daga hafa verið með þeim hætti að maður nær ekki áttum hvað varðar  þetta allt saman. Titringur og ósamheldni einkennir ríkisstjórnarsamstarfið og hver og einn í ríkisstjórninni virðist ekkert þurfa að standa við gefin loforð eða samninga.

Svandís Svavasdóttir umhverfisráðherra slóg blautri tusku í andlit Suðurnesjamanna með að afturkalla mat á Suðurlínum sem forveri hennar hafði samþykkt. Með þessu setur hún atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum í upplausn. Álver, Kísilverksmiðja og gagnaver eru sett í hættu og framkvæmdir sem nú þegar hefur verið ráðist í upp á 25 milljarða hanga í óvissu. Það er með ólíkindum að VG er veruleikafirrtur stjórnmálaflokkur. Við á Suðurnesjum búum við mesta atvinnuleysi á landsvísu en þeim er samt að takast að slátra allri uppbyggingu og framtíð svæðisins. Ætli flokkurinn eigi eitthvað atkvæði á Suðurnesjum ?

Til að toppa vinnubrögðin hjá ríkisstjórninni, þá er hún í leynilegu ráðabruggi um byggingu sjúkrahúss kostað af lífeyrissjóðunum.  Það vakti athygli mína að á sömu opnu í Morgunblaðinu var frétt um þetta nýja sjúkrahús. Þá var líka frétt þess efnis að keisaraskurðir verða ekki lengur framkvæmdir á Heilbrigðisstofnuninni á Suðurnesjum og á Akranesi. Enn önnur skerðingin, það er eins og við getum endalaust boðið hinn vangann.

Það vildi til að tveir einstaklingar sem standa mér nærri þurftu á þjónustu að halda á heilbrigðissviði nýverið. Annar einstaklingurinn var fluttur með sjúkrabíl í Reykjavík þar sem ég lenti í stappi við læknirinn þar sem það var svo dýrt að setja sjúklinginn í sneiðmyndatöku. Læknirinn gaf sig að lokum en hreytti í mig hroka vegna frekju minnar. Seinni einstaklingurinn leitaði til Heilbrigðisstofnunarinnar á Suðurnesjum. Þar kom í ljós að viðkomandi var með eitil sem hafði blásið út og starfaði ekki með eðlilegum hætti. Í slíkum tilfellum eru þeir fjarlægðir. En því miður slík aðgerð er dýr og því voru svörin að viðkomandi þurfi að sætta sig við þykkildið. En á sama tíma og heilbrigðisþjónustan í landinu er lömuð á að reisa nýtt sjúkrahús, til hvers? Vísa sjúklingum frá?

Ögmundur Jónasson fyrrum heilbrigðisráðherra hleypur svo frá öllu saman á meðan málaflokkurinn er í uppnámi. Við Suðurnesjamenn megum því búa við skerta þjónustu á HSS og megum vafra um göturnar atvinnulausir. Er þetta það sem kjósendur vildu er þeir kusu þessa flokka til forystu ? Hvað segir ágæt vinkona mín Oddný Harðardóttir um málið? Hún sem fyrrum bæjarstjóri í Garði var baráttumaður álvers í Helguvík. Ég er hræddur um að Oddný sé ekki brosandi hringinn með ákvörðun Svandísar.

Ég er kominn á þá skoðun að sumir sem verma sætin á Alþingi séu bara engan veginn í tengslum við raunveruleikann í íslensku samfélagi í dag. Svo er rokið til og sagt upp áskriftinni af Morgunblaðinu – var það eina málið sem var samstaða um hjá ríkisstjórninni? Bendi þessu liði á að gjægjast út úr fílabeinsturninum og kynna sér ástand almennings í landinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarki Á

Það er augljóst að ríkisstjórnin er að gera eins vel og hún getur og hún vinnur eins hratt og hún getur. Það er líka alveg pottþétt að Jóhanna og Steingrímur eru með hag allra íslendinga að brjósti nema þeirra sem áttu hlutabréf, voru í vinnu, eru í vinnu, þeirra sem eiga hús,þeirra sem eru með hús í láni, og þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.

Bjarki Á, 1.10.2009 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband