Svartur dagur í sögu þjóðar

Viðburðarríkt kvöld í lífi íslendinga, mesta skuldsetning í sögu þjóðarinnar samþykkt. Án þess að leita leiða við að ná betri samningum.  Svavar Gestsson leysti samningarviðræðurnar með einföldum hætti og sagði já og amen við öllu saman, sefur hann rótt á nóttunni ?

Ég horfði á beina útsendingu og hlustaði á rök þingmanna. Þeir þingmenn er sögðu já færðu margir hverjir rök sín að nú væri komið gott og Icesave stæði í vegi fyrir endurreisn landsins. Hugurinn óneitanlega leitaði í verk ríkisstjórnarinnar sem hefur brugðið fæti fyrir atvinnuuppbyggingu, stolist í vasapeninga eldri borgara, sett á sykurskatt, hækkað virðisaukaskatt, tekjuskatt, tryggingargjöld og aðeins brot af störfum hennar sé talin upp.

Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að þegar til neyðarsamninga er gripið sé leitað lendingar í stöðunni. Sá aðili sem illa stendur hafi til samninga af raunsæi um eigin getu til að semja um hluta skuldar. Kröfuhafarnir í flestum tilfellum gefi að hluta eftir, til að fá eitthvað í stað þess að fá ekkert. Ég er viss um að samningarnefndin hafi hallað sér aftur í stólunum þegar fulltrúar Íslands gengu af fundi og hlegið.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að hunsa ætti algjörlega ábyrgð tryggingu innistæðueigenda, en þessar upphæðir eru út fyrir öll velsæmismörk og vitna um leið í orð Steingríms Sigfússonar, fjármálaráðherra, “Landsbankinn var einkafyrirtæki.” Ég hef ekki verið viðskiptavinur Landsbankans, ég skrifaði ekki undir yfirlýsingu þess efnis að ég væri reiðubúinn að fórna mínum lífsgæðum, ef illa færi í útrásarsukki bankans. Þjóðin liggur í valnum með kutann í bakinu.

Það er deginum ljósara að Samfylkingin lofaði að greiða Icesave í skiptum fyrir ESB aðild með DHL hraðsendingu. Hvað ætli ESB fái meira ? Auðlindirnar í hafinu ? Fallvötnin? Það verður fróðlegt að fylgjast með vinnubrögðunum á stjórnarheimilinu á næstunni og sjá hverju var fórnað.

Það er með öllu ljóst að 30. desember 2009 verður ritaður sem svartur dagur í sögu þjóðarinnar og ég vona að þeir þingmenn sem sögðu já verði fordæmdir þegar fram líða stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel orðað hjá þér Árni minn. Er þér hjartanlega sammála.

Harpa Sævarsdóttir (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 10:09

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Árni, vel að orði komist!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 31.12.2009 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband