Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Suðurnesin fórnarlamb vinstri stjórnarinnar

Enn einn erfiður dagur að baki í ríkisstjórnarsamstarfinu sem með einhverjum hætti lafir áfram við völd. Atburðir síðustu daga hafa verið með þeim hætti að maður nær ekki áttum hvað varðar  þetta allt saman. Titringur og ósamheldni einkennir ríkisstjórnarsamstarfið og hver og einn í ríkisstjórninni virðist ekkert þurfa að standa við gefin loforð eða samninga.

Svandís Svavasdóttir umhverfisráðherra slóg blautri tusku í andlit Suðurnesjamanna með að afturkalla mat á Suðurlínum sem forveri hennar hafði samþykkt. Með þessu setur hún atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum í upplausn. Álver, Kísilverksmiðja og gagnaver eru sett í hættu og framkvæmdir sem nú þegar hefur verið ráðist í upp á 25 milljarða hanga í óvissu. Það er með ólíkindum að VG er veruleikafirrtur stjórnmálaflokkur. Við á Suðurnesjum búum við mesta atvinnuleysi á landsvísu en þeim er samt að takast að slátra allri uppbyggingu og framtíð svæðisins. Ætli flokkurinn eigi eitthvað atkvæði á Suðurnesjum ?

Til að toppa vinnubrögðin hjá ríkisstjórninni, þá er hún í leynilegu ráðabruggi um byggingu sjúkrahúss kostað af lífeyrissjóðunum.  Það vakti athygli mína að á sömu opnu í Morgunblaðinu var frétt um þetta nýja sjúkrahús. Þá var líka frétt þess efnis að keisaraskurðir verða ekki lengur framkvæmdir á Heilbrigðisstofnuninni á Suðurnesjum og á Akranesi. Enn önnur skerðingin, það er eins og við getum endalaust boðið hinn vangann.

Það vildi til að tveir einstaklingar sem standa mér nærri þurftu á þjónustu að halda á heilbrigðissviði nýverið. Annar einstaklingurinn var fluttur með sjúkrabíl í Reykjavík þar sem ég lenti í stappi við læknirinn þar sem það var svo dýrt að setja sjúklinginn í sneiðmyndatöku. Læknirinn gaf sig að lokum en hreytti í mig hroka vegna frekju minnar. Seinni einstaklingurinn leitaði til Heilbrigðisstofnunarinnar á Suðurnesjum. Þar kom í ljós að viðkomandi var með eitil sem hafði blásið út og starfaði ekki með eðlilegum hætti. Í slíkum tilfellum eru þeir fjarlægðir. En því miður slík aðgerð er dýr og því voru svörin að viðkomandi þurfi að sætta sig við þykkildið. En á sama tíma og heilbrigðisþjónustan í landinu er lömuð á að reisa nýtt sjúkrahús, til hvers? Vísa sjúklingum frá?

Ögmundur Jónasson fyrrum heilbrigðisráðherra hleypur svo frá öllu saman á meðan málaflokkurinn er í uppnámi. Við Suðurnesjamenn megum því búa við skerta þjónustu á HSS og megum vafra um göturnar atvinnulausir. Er þetta það sem kjósendur vildu er þeir kusu þessa flokka til forystu ? Hvað segir ágæt vinkona mín Oddný Harðardóttir um málið? Hún sem fyrrum bæjarstjóri í Garði var baráttumaður álvers í Helguvík. Ég er hræddur um að Oddný sé ekki brosandi hringinn með ákvörðun Svandísar.

Ég er kominn á þá skoðun að sumir sem verma sætin á Alþingi séu bara engan veginn í tengslum við raunveruleikann í íslensku samfélagi í dag. Svo er rokið til og sagt upp áskriftinni af Morgunblaðinu – var það eina málið sem var samstaða um hjá ríkisstjórninni? Bendi þessu liði á að gjægjast út úr fílabeinsturninum og kynna sér ástand almennings í landinu.


Stöndum frammi fyrir tveimum slæmum kostum

Þingmenn hafa setið undir 2. umræðu um Icesave á Alþingi og enn virðist langt í land í þessu veigamesta máli þjóðarinnar frá upphafi. Bjarni Ben. formaður Sjálfstæðisflokksins telur að breytingartillögurnar haldi ekki.

Þessi Icesave deila virðist engan enda ætla að taka á meðan að þjóðin er í frosti. Ríkisstjórnin var ákveðin í að keyra málið í gegn án allra breytingatillagna og um leið reiðubúin að leggja dauðadóm á þjóðina. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að staðan er virkilega erfið. Ég er þó virkilega ósáttur við samninganefndina sem á örskömmum tíma undirritaði samning sem er engan veginn í takt við stöðu samfélagsins og hvað þá getu þess á næstu árum.

Eðlilega er Icesave deilan til umræðu í þjóðfélaginu og sitt sýnist hverjum. Almenningur á að greiða upp útrásina, á meðan þeir sem komu okkur í vandræðin sjá það ekki í hjarta sínu að biðjast afsökunnar og hvað þá að skila auðæfum til baka. 

Ég hef hingað til ekki verið þeirrar skoðunnar að þjóðin eigi að blæða fyrir einkafyrirtæki, bankarnir voru einkavæddir í góðri trú um að það væri hagur einstaklinga og fyrirtækja í landinu. Því miður var þeim beitt á rangan hátt, við vorum öll agndofa yfir árangrinum, hagnaðinum, veltu þeirra og umsvifum.  Ég velti stöðunni fyrir mér á hverjum degi og hef fyrir löngu áttað mig á því að við erum stopp. Fyrirtæki eru fjárhagslega svellt, bankastofnanir eiga sumar hverjar ekki fjármagn til að borga þeim út sem eiga fjármagn hjá þeim og vilja taka út. Hvað þá að geta komið til móts við fyrirtæki hvað fjármagn varðar.  Á meðan blómstar atvinnuleysi, verðhækkanir eru sjáanlegar á hverjum degi, skuldir heimilana vaxa og almenningur missir tökin. Erum við kúguð til að borga? Svar mitt er því miður já.

Við stöndum frammi fyrir kúgun og eigum tvo valkosti sem báðir eru afar slæmir fyrir Ísland. Greiða og takast á við niðurskurð sem bitnar á hverjum og einum í landinu næstu árin. Hinn kosturinn er að fella frumvarpið um Icesave og einangrast.  Eitt veit ég að við þurfum að fá fjármagn inn í efnahagskerfið til að vinna okkur út úr þessu ástandi.  Hlúa þarf að fyrirtækjum og nýsköpun í samfélaginu til að skapa hér atvinnu. Þetta er keðja sem ekki má slíta, þegar fyrirtækin geta boðið upp á atvinnutækifæri eiga landsmenn fyrir saltinu í grautinn.

Ég vona svo innilega að það myndist sátt á Alþingi og gerðar verða breytingartillögur sem nægja til að einhver varnagli verði á samningnum. Við verðum með einhverjum hætti að leysa aðeins um snöruna, það hefur aldrei verið eins mikil þörf fyrir því að standa saman eins og nú.


Með rassvasana fulla

Mig líkar auglýsingarnar frá Samtökum Iðnaðarins, þar sem með mjög myndrænum hætti er bent á mikilvægi þess að greiða skatta af launum.

Auglýsingarnar sýna fram á þá staðreynd að ef við borgum ekki skatta og skyldur til samfélagsins þá eru að sjálfsögðu ekki lagðir vegir, skólar reistir og starfræktir. Ég tala nú ekki um heilbrigðisþjónusta og allir þeir samfélagslegu póstar sem við reiðum okkur á í venjulegu samfélagi.

Það vakna samt hjá mér hugrenningar við að sjá þessar auglýsingar. Fyrsta er að almenningur í landinu stendur frammi fyrir skattahækkunum í ótrúlegustu myndum á næstunni. Sykurskattur, skattur á eldsneyti, tekjuskattur og eflaust hægt að telja upp fleiri skattahækkanir. Hvað er það sem gerist þegar ríkisstjórnir herða ólina að fjölskyldum með þessum hætti ? Jú við leitum leiða til að afla okkur tekna með svokölluðum svörtum hætti, þetta er staðreynd ! Margir hugsa, til hvers að vinna yfirvinnu eða taka að sér aukastarf þegar skatturinn gleypir þetta allt og ropar á eftir !

Reynslan okkar hefur kennt okkur að með skattalækkun aukast tekjur ríkissjóðs. Almenningur er fúsari að taka að sér aukavinnu og það hreinlega tekur því ekki að standa í svarta brasinu. Hvað gerðist þegar skattar lækkuðu á fyrirtæki í landinu? Jú tekjurnar jukust. Hvað gerist þá núna þegar vinstri – skatta ríkisstjórnin herðir að allt og öllu í íslensku samfélagi ? Tekjur ríkissjóðs munu dragast saman.

Annað sem vekur mig til umhugsunar við að sjá þessar vel unnu auglýsingar frá Samtökum Iðnaðarins, er hvað það er sorglegt að nú þarf að minna sótsvartan almúgan að stinga ekki undan krónu á meðan útrásarvíkingarnir spóka sig og stræti og torg erlendra stórborga í Armani jakkafötunum með rassvasana troðfulla af peningum sem aldrei voru til – og ríkisstjórnin hrifsar til sín hverja auma krónu af okkur til að borga fyrir peningana í rassvösunum.


Lilja Mósesdóttir segðu af þér !

Ég velti fyrir hvað einstaklingar eru að gefa kost á sér til setu á Alþingi, sem treysta sér ekki til að takast við þær skyldur sem þar þarf að takast á við?  Lilja Mósesdóttir þingmaður VG kallaði til varamann á nefndarfund efnahags- og skattanefndar, þar sem hún hreinlega treysti sér ekki að afgreiða atkvæði um meirihlutaáliti nefndarinnar um Icesave.

Hvað er Lilja að gera á þingi ? Vinstri grænir eru þverbrotnir í ríkisstjórnarsamstarfinu. Þau kjósa með aðildarviðræðum þrátt fyrir að vera gallhörð gegn ESB og núna hleypur Lilja undan skyldum sínum í nefndinni, varaformaður nefndarinnar ! Allt er þetta gert til að ríkisstjórnin springi ekki. Hvers megum við almenningur vænta út úr ríkisstjórnarsamstarfi sem er þverbrotið á alla vegu?

Þá talar Steingrímur Joð um að þingmenn séu bundnir sannfæringu sinni – hafa þingmenn hans verið að kjósa í þá vegu? Nei heldur betur ekki og það er í raun ótrúlegt að fylgjast með VG sem hefur gjammað út og suður í gegnum tíðina, gegn ESB, gegn greiðslu á ESB, en hver er staðan í dag? Jú VG er að keyra þetta allt saman í gegn, bara til að halda í völdin, völdin sem þau ráða ekki við.

Lilja hefur á örskömmum tíma sýnt það og sannað að hún á ekkert erindi á Alþingi íslendinga. Lyddur eins hún eru ástæða þess að almenningur er farinn að sakna Davíðs Oddssonar í stjórnmálum. Mann sem þorir að taka ákvarðanir.


ESB aðildarviðræður

Ég er einn af þeim sem hefur áhyggjur af aðildarviðræðum við ESB. Hingað til hef ég ekki verið sannfærður um að sjávarútvegur og landbúnaður fái þar niðurstöðu sem er sættanleg. Á háskólaárum mínum dvaldi ég í viku í Brussel til að kynna mér sambandið og kom heim meira efins um inngöngu en áður. Þunglamalegt regluveldi blasti við mér og þær afgreiðsluleiðir málefna með þeim hætti að ekki sé til eftirbreytni.

Alþingi samþykkti í vikunni að ganga til aðildaviðræðna. Þingmenn voru hvattir til að greiða atkvæði út frá eigin sannfæringu. Þrátt fyrir það komu þingmenn VG upp og lýstu yfir að þeir vildu ekki ganga í ESB, en greiddu atkvæði með aðildarumsókn og viðræðum. Það er mjög merkileg sannfæring á bakvið slík vinnubrögð.

Þó svo að ég hefði greitt atkvæði gegn aðildarviðræðum ræður meirihluti þingsins ferðinni. Ég hef áhyggjur af því að VG studdi málið einvörðungu til að halda völdum í landinu, þó svo að það væri gegn sannfæringu þeirra. Það kemur að vísu ekki á óvart þar sem Steingrímur Sigfússon hefur algjörlega farið á bug við allt sem hann hefur predikað yfir þjóðinni á síðustu áratugum. Samfylkingin situr því ein að samningaviðræðunum og ég spyr mig hvort Össur Skarphéðinsson sé rétti einstaklingurinn til að halda til Brussel.

Ég er samt það víðsýnn að ef það kemur til að samningurinn verði með þeim hætti að auðlindir okkar, sjávarútvegur og landbúnaður verði áfram í okkar höndum og skaðist ekki og fyrir liggi að hann sé þjóðinni til hagsbóta, skal ég glaður samþykkja samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er ekki á móti bara til að vera á móti.

Minn flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn náði ekki saman í málinu á landsfundi, en skiptar skoðanir voru um málið en það er ljóst að 20-30% flokksmanna vildu aðildarviðræður. Flokkurinn þarf að gera eins og ég, skoða málið af víðsýni þegar samningurinn liggur fyrir og greiða í þágu lands og þjóðar, sama þótt niðurstaðan verði já.


Vanhæf ríkisstjórn !!

Enn má almenningur bíða og bíða eftir alvöru aðgerðum í þágu fyrirtækja og heimila í landinu. Vinstri grænir hafa verið í nokkra mánuði við völd í landinu, flokkurinn sem stóð á bak við búsáhaldabyltinguna og tók undir af krafti “VANHÆF RÍKISSTJÓRN” – en ekkert gerist.

Greiðsluaðlögun heimilana er með þeim hætti að viðkomandi þarf að semja við lánadrottna sína, reyna að standa í skilum við þá, ef það gengur ekki, verða þeir að sækja um greiðsluaðlögun til gerðadómara. Þrautarganga almennings í leit að aðstoð til að halda húskofunum yfir höfði sér er með slíkum eindæmum að best er að líkja henni við píslagöngu Jesús með krossinn á bakinu. Það er verið að gera lítið úr almenningi, það er komið fram við fólk eins og það sé að ganni sínu að sníkja út “greiða” til að þurfa ekki að standa við skuldbindingar sínar – það er komið fram við okkur eins og rottur.

Loksins hrein meirihluti vinstri stjórnar í landinu sögðu þau Jóhanna og Steingrímur, tvíeykið sem vildu niður með frelsi einstaklingsins, markaðsbrask og velmegun. Þau vildu vinnu og velferð ! En ekki hvað, atvinnuleysi aldrei meira, bankarnir eru eins og frosin fiskflök í kistunni  á meðan niðurskurðarhnífnum er sveiflað í allar áttir. Það á að fækka háskólum niður í tvo, þannig að þið sem eruð atvinnulaus og hugðust nýta ástandið til að mennta ykkur, farið í röðina, hún verður löng. Traust fyrirtæki eru tekin yfir af ríkinu, Icelandair og Sjóvá svo eitthvað sé nefnt og þetta er eflaust bara byrjunin. Ég vona að það haldi engin að sukk, klíka og vitleysa í fyrirtækjum verði minni þegar þau eru komin í pólitíska umsjón Steingríms ? Nei þá fyrst fer þetta að byrja og gott dæmi er ráðning Einars Karls aðstoðarmanns Össurar.

Annað sem ég hjó eftir varðandi niðurlægingu almennings sem í sjálfsbjargarviðleitni sinni reynir að nýta sér aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Einstæð móðir sem fær ekki laun sín greidd frá Straumi vegna þess að það þar lagabreytingu frá Alþingi til að fá launin sín. Komst að því lagafrumvarpið liggur ekki enn fyrir Alþingi og mánaðarmót að bresta á. Hún fór og vildi frysta íbúðarlánið sitt, nei beiðni hennar kom eftir 20.maí, því miður elskan!

Þessi vinstri stjórn er gjörsamlega lömuð og Jóhanna sem hingað til hefur hangið í pólitík á stuðningi þeirra sem minna mega sín í samfélaginu kemur fram við fólk eins og rottur. Ég spyr bara hvar er Hörður Torfa núna ? Er hann búinn að fá útborgað frá Vinstri grænum og flúinn land öðru sinni ? Ástandið er þannig að líða fer að öðrum mótmælum enda er þjóðin fyrst núna að kynnast því að hafa vanhæfa ríkisstjórn.


Já er það Ólafur ?

Ég segi nú bara stutt og laggott um ræðu forsetans, að það var verst að þjóðin tók ekki af festu og öryggi valdið sem henni bar í síðustu forsetakosningum! Kosið í burt gólftusku útrásarvíkinganna, sitjandi forseta okkar sem kann ekki að skammast sín !!! Ekki axlar hann ábyrgð á gjörðum sínum - réttast væri að boða til mótmæa á Bessastöðum og taka úr ruslið sem þar situr.

Ólafur hefur í ljósi eigin hagsmuna gengið of langt fyrir sér útvalda útrásarvíkinga. Verið á ferðinni í einkaþotum og í afslöppun í snekkjum þeirra. Forsetinn á að sjálfsögðu að vekja athygli á íslenskri framleiðslu og kynna land og þjóð á erlendri grundu. En hann á ekki að beita sér í viðskiptabraski með tuskuverslanir og áhættusömum viðskiptum.


mbl.is Þjóðin tók valdið í sínar hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar endar þetta allt saman ?

Vinstri stjórnin er alveg að slá í gegn á þessum 80 dögum. Fyrst var eytt á annan tug daga í að reka einn opinberan starfsmann, þjóðin blæddi á meðan. Þá er tekist á við stjórnlagaþing með kostnað upp á tvo milljarða, þjóðin blæðir ennþá. Og núna er þriðja baráttumálið hjá  vinstri stjórninni og það er að loka nektarstöðum.


Forsjáhyggjan er  yfirgengileg og núna megum við ekki búa við það val að fara á nektarstaði. Persónulega er það eitthvað sem ég sæki ekki og er alveg sama þannig lagað, en mín afstaða þar ekki að ná yfir alla aðra í samfélaginu.


Ég veit að rökin á bakvið aðgerðirnar eru að koma í veg fyrir mannsal. Það er nú þannig að það er nú hægt að setja lagaramma utan um slíkt og framfylgja regluverkinu með öflugu eftirliti. Ég er alfarið á móti forsjárhyggju og höftum í samfélaginu sem kemur beint niður á frelsi einstaklingsins.


Vinstri stjórnin er á villigötum, bankarnir óstarfshæfir, atvinnuleysið ráðandi, heimilin eru í miklum vanda, fyrirtækjum lokar, og málin snúast um það að loka nektarstöðum, hvar endar þetta allt saman ?


Rándýrt stjórnlagaþing

Á meðan almenningur horfir fram á skerta heilbrigðisþjónustu um allt land, lokun deilda og skurðstofa, er ríkisstjórnin að skoða stjórnlagaþing. Geir Haarde og Birgir Ármannsson fóru fram á að vita áætlaðan kostnað við slíkt þing. Tölurnar eru sláandi, stjórnlagaþing sem starfar í 10 mánuði: 1.176 milljónir króna, stjórnlagaþing sem starfar í 18 mánuði: 1.731,6 milljónir króna og stjórnlagaþing sem starfar í 24 mánuði: 2.148 milljónir króna.

Er nauðsynlegt að eyða 1 til 2 milljörðum í spjallþing um stjórnarskránna okkar? Er þetta rétti tíminn til að eyða slíkum upphæðum? Ég get ekki séð það. Ég er alfarið á móti þessum hugmyndum og það sýnir hvað vinstri stjórnir eru ekki í takt við samfélagið. Vilja hækka skatta á meðan engar vaxtalækkanir eru í kortunum hjá þeim. Há verðbólga, atvinnuleysi, háir vextir, skert þjónusta í velferðarkerfinu og þá er þetta til umræðu.

Ég vona að almenningur átti sig á stöðunni og kjósi eitthvað annað en þessa veruleikafirrtu ríkistjórnarflokka í kosningunum í apríl.

 


Suðurnesjamenn á þing

Kæru Suðurnesjamenn ,
Nú er lag að standa saman og tryggja Suðurnesjamönnum brautargengi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri næstkomandi laugardag. Á Suðurnesjum býr nær helmingur íbúa í Suðurkjördæmi og því nauðsynlegt að við höfum eðlilegt vægi þegar kemur að niðurröðun frambjóðenda á framboðslistann fyrir komandi Alþingiskosningar. 

Ég hef í nær tvo áratugi lagt Sjálfstæðisflokknum lið með einum eða öðrum hætti. Ég byrjaði tvítugur í pólitíkinni í Garðinum þar sem ég var varasveitarstjórnarmaður í tvö kjörtímabil. Ég var formaður æskulýðsnefndar og átti sæti í stjórn Sjálfstæðisfélagsins í Garði. Er ég fluttist til Reykjanesbæjar tók ég sæti í stjórn ungra sjálfstæðismanna og gegndi síðar formennsku í tvö ár. Ég er í stjórn Sjálfstæðisfélagi Keflavíkur og í stjórn fulltrúaráðsins Reykjanesbæjar. Þá sit ég í umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar og í stjórn Fasteigna Reykjanesbæjar. 

Ég gef kost á mér í prófkjörinu vegna þess að framundan er mikið verk að vinna í þágu lands og þjóðar. Mikilvægt er að auka verðmætasköpun og fjölga atvinnutækifærum og þannig styrkja stoðir samfélagsins.  Ég vil mannsæmandi lífskjör með öflugu heilbrigðiskerfi, fjölbreyttum menntunarmöguleikum og góðri löggæslu. Ég taldi flokkinn minn ekki vera að standa sig og var ósáttur við frammistöðu stjórnarflokkanna og takmarkaðar aðgerðir, á meðan almenningur í landinu blæddi. Ég stóð frammi fyrir því að ganga úr flokknum eða einfaldlega gera mitt til að hafa áhrif, ég valdi seinni kostinn. 

Ástæðan fyrir ákvörðun minni er sú að sannfæring mín er að samfélagið sem ég vil búa í verður ekki að veruleika nema að stefna Sjálfstæðisflokksins verði höfð að leiðarljósi í því uppbyggingarstarfi sem framundan er. Stefnan hefur ekki brugðist þjóðinni, heldur einstaklingarnir sem sváfu á verðinum við að viðhalda gildum hennar, þess vegna krefst ég breytinga. 

Við þurfum einstaklinga á Alþingi sem er í tengslum við raunveruleikann, lífið sjálft. Einstaklinga sem vita hvernig lífskjörin hafa þurrkast út á nokkrum mánuðum, einstaklinga  sem hafa þurft að berjast fyrir sínu. Ég hef slíka reynslu og er reiðubúinn að láta til mín taka í þágu almennings á Alþingi og leitast eftir samstöðu Suðurnesjamanna í prófkjörinu og óska eftir stuðningi ykkar í 4.sætið. 
 
Árni Árnason
Blaðamaður í Reykjanesbæ
Sækist eftir 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband