Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nýtt blóð í bæinn

Veðursældin er búin að vera með ólíkindum síðustu daga. Ég og félagarnir skelltum okkur í golf á æfingarvellinum í Sandgerði. Við erum ekki þeir bestu í faginu og reynum því að láta lítið á okkur bera. Ég verð nú eigilega að viðurkenna það eins og ég hef gert áður að ég er frekar afleiddur í golfi ef eitthvað er.  

En ég verð að hafa húmor fyrir því og vera meðvitaður um það að æfingin skapar meistarann. Að fara í golf og vera úti í fallegu sumarveðri er eitthvað sem heillar mig. Leiran í Garði og næsta nágrenni golfvallarins í Sandgerði er sjarmerandi á slíkum kvöldum. Það er nú ekki oft sem maður upplifir blankalogn hérna á Suðurnesjum, en það gerist við og við svona á kvöldin.  

Ég er með það á stefnuskránni  að njóta betur þeirrar náttúru sem er við túnfótinn hérna á Suðurnesjum. Við félagarnir fórum  í síðustu viku úr á Reykjanes þar sem náttúran endurspeglast í hrjóstugu hrauni, sandi og virknin í jörðinni spýjast upp úr Gunnuhver með mögnuðum hætti. Þá tókum við göngutúr á berginu á föstudaginn og ég hreinlega skammast mín fyrir að hafa búið á Suðurnesjum allt mitt líf án þess að ganga bergið, þangað ætla ég aftur.  

Við erum oftar en ekki svo stressuð að við tökum ekki eftir okkar nánasta umhverfi, verðum bara einn hlekkur í heildinni án þess að líta í kringum okkur. Svo þegar við fáum frí er brunað út á land eða hoppað í flugvél til fjarlægra landa. Besta dæmið er koma Árna Sigfússonar til Reykjanesbæjar. Hann var aðkomumaður sem kom til bæjarfélagsins og sá hugmyndir og lausnir – eitthvað sem fór alveg fram hjá okkur hlekkjunum. Frá því að nafni minn tók við sem bæjarstjóri 2002, hefur íbúum í Reykjanesbæ fjölgað um rúm 20% ímynd bæjarfélagsins stóraukist. Það sannar það að oftar en ekki er gott að fá nýtt blóð í bæinn.

Tökum fjárhagslega ábyrgð á gjörðum okkar

Ríkisstjórnin tilkynnti 72 milljarða innspýtingu í fjármálakerfið sem vonandi skilar með styrkingu krónunnar og ekki veitir af. Ég verð nú að segja að þrátt fyrir að vera stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar hefur mér fundist vanta kraft í hana hvað þessi mál varðar.  

Ég að vísu geri mér fyllilega grein fyrir því að allt sem fer upp kemur einhverntímann niður. Hagkerfið virkar þannig, en með lagni má milda sveiflurnar, það tókst ekki í þetta skiptið og því þarf að grípa til aðgerða og vona ég að þær skili nú árangri.  

Ég hef samt haft gaman af því að velta fyrir þessu góðæri og hvernig við íslendingar högum okkur á slíkum gleðitímum. Jeppakaup, húsnæði og annar varningur lífsgæðanna knýr okkur áfram. Ég er ekki að segja að ég sé skárri. Ungt fólk í dag vill helst ekki heyra á það minnst að taka við notuðum munum í búið, það þarf helst allt að vera nýtt, það flottasta og þá helst design.  Margir endurfjármögnuðu húsnæði sín til að fá fé fyrir hjólhýsum, jeppum, fjórhjólum og fleiru og margir hverjir sitja í súpuunni núna.  

Vegna hegðunnar okkar velti maður því fyrir sér hvort það sé hægt að bauna skuldastöðu heimilina í landinu á ríkisstjórnina? Er það ríkisstjórninni að kenna að bílalánið er hátt? Eða að Visa raðgreiðslurnar eru að buga þig? Seðlabankinn hefur jú áhrif á vaxtaþróun og það er á hreinu að vextir eru svívirðilega háir, en við sem einstaklingar eigum að vita hvað við getum leyft okkur hverju sinni. Við ein getum gert okkur grein fyrir því hvað buddan leyfir og við verðum að axla ábyrgð á skuldbindingum okkar.


Ísbjarnaflutningur á fjárlög?

Annar ísbjörn genginn á land og nærir sig á æðakollueggjum í góðu yfirlæti við bæinn Hraun í Skagafirði. Lítil stúlka varð vör við ísbjörninn og gerði viðvart. Ísbjörnin er rólegur en vegum hefur verið lokað og fólk beðið að halda sig inni.  Beðið er eftir ákvörðun frá umhverfisráðherra, en skytturnar bíða og vona að drepa megi skepnuna. Ég studdi drápið fyrir tveimur vikum og geri það aftur núna. Við erum á engan veginn í stakk búin til að takast á við flutninga á þessum ísbirni, hvað þá þeim ærlega kostnaði sem því fylgir.  

 Við erum svo berskjölduð gagnvart svona dýrum, ísbirnir eru einu af þremur dýrum í heiminum sem éta fólk, hin eru krókódílar og tígrisdýr. Viljið þið vita af svona dýri lausu hérlendis? Ekki ég, þetta er bara spurning að verja sig og sína, kill og be killed.  

Ég veit að það er falleg hugsun og hjartnæmt að hlífa dýrunum frá því að vera drepinn, sérstaklega þegar þau eru í útrýmingarhættu, en ég tel hér um algjöra tilviljun að ræða að við þurfum að drepa tvo ísbirni sama árið. Tel það verkefni að bjarga honum, deyfa og flytja til Grænlands sé verkefni upp á nokkrar milljónir og spyr mig hvort sú upphæð væri ekki velþegin annarsstaðar í samfélaginu? Hvað þá er þetta verður árleg uppákoma, þurfum við þá að setja í fjárlögin “Ísbjarnaflutningur, 10 milljónir”

Fagna Hönnu Birnu

Ég fagna ákvörðun borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins að Hanna Birna Kristjánsdóttir verði þeirra leiðtogi. Ég hef verið á þeirri skoðun að Hanna átti að leiða listann í síðustu kosningum, er handviss um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið hreinan meirihluta.

Með allri virðingu fyrir Vilhjálmi þá var hans tími liðinn. Hönnu bíður ærið verkefni að rífa flokkinn upp úr 27% fylgi sem er ólíðandi, ég treysti henni til þess. Hún þarf að ná að koma á stöðugleika í borgarstjórnarmálunum, vinna inn traust reykvíkinga á nýjan leik og sýna að flokkurinn er hæfur til forystu. Í borgarstjórnarflokknum er ungt fólk sem er tilbúið að axla ábyrgð, best hefði verið að Vilhjálmur drægi sig ég hlé og léti þeim eftir stjórnartaumanna.  

Ég hlakka til að fylgjast með Hönnu sem borgarstjóra, hún fær samt ekki langan tíma til að snúa málunum í hag flokksins, en ég hef túr á henni og vona að reykvíkingar kjósi Hönnu Birnu til forystu í næstu borgarstjórnarkosningum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband