Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
10.9.2008 | 19:36
Leysa þarf kjaradeilu ljósmæðra
Ekkert þokast í kjaradeilu ljósmæðra, verkfall skellur á í kvöld. Ég verð að viðurkenna að mér brá þegar ég sá í fréttum um daginn launin sem ljósmæður hafa. Ljósmæður hafa lokið fimm ára háskólanámi og eru að fá 274.000 til 291.000 þúsund á mánuði. Þessi laun eru eru engan vegin í takt við það nám sem þær hafa lokið og hvað þá ábyrgðina sem hvílir á herðum þeirra.
Störf ljósmæðra er mjög mikilvæg og verkfall þeirra veldur að sjálfsögðu áhyggjum verðandi foreldra. Sem betur fer er nú lágmarks þjónusta í boði á höfuðborgarsvæðinu, en hérna í Reykjanesbæ ekki. Eitt barn fæddist héðan í verkfallinu í síðustu viku og fæddist það í Reykjavík þar sem þjónustan lá niðri hérna.
Í okkar samfélagi þar sem lífsgæði eru með því besta á heimsvísu, þurfa þungaðar konur að hafa verulegar áhyggjur. Ástandið er engan vegin viðunandi og þarf að leysa þessa deilu hið fyrsta. Ég er samt fullviss að ekki verði gengið að kröfum ljósmæðra um 25% launahækkun en finna þarf málamiðlun í deilunni. Ástandið í samfélaginu er með þeim hætti að ekki er mikil von um að gengið verði til samninga um 25% launahækkun sem gæti verið fordæmisgefandi í komandi samingaviðræðum þegar samningar verða lausir í febrúar næstkomandi.
28.8.2008 | 18:55
Fréttablaðið úti í kuldanum
Íslendingar velja Fréttablaðið segir í auglýsingu blaðsins í útvarpinu þar sem fram kemur samkvæmt skoðunarkönnun að Fréttablaðið er mest lesna blaðið í landinu. Ég er nú eitthvað hræddur um að að lesning á þessu blaði eigi eitthvað eftir að dragast saman á næstunni.
Pósthúsið, sem er dótturfyrirtæki 365 miðla hefur sagt upp 129 manns sem starfað hefur við dreifingu Fréttablaðsins. Þá verður til að mynda hætt að bera Fréttablaðið í hús í Reykjanesbæ og í fleirum bæjarfélögum. Komið verður upp póstkössum í hverju hverfi þar sem fólk getur farið og náð sér í eintak.
Ég segi nú bara fyrir sjálfan mig að ég er ekki viss um að ég nenni að eltast við póstkassa á einhverju götuhorni til að komast yfir eintak af Fréttablaðinu. Þessi póstkassaháttur er viðhafður í nágrannasveitarfélögunum í kringum okkar og ekki veit ég nú hver lesningin er þar. Það er óneitanlega þægilegt að fá Fréttablaðið og 24 stundir heim og maður getur lesið þetta á náttbuxunum yfir morgunmatnum. Í Reykjanebæ búa rúmlega 14.000 þúsund manns og ég tel það heldur betur einkennilegt að blað sem auglýsir sig sem mest lesna blaðið sjái ekki hag sinn í að skila sér inn um bréfalúguna hjá okkur í Reykjanesbæ.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.8.2008 | 14:35
Strákarnir eiga að fá fálkaorðuna
Já, Ólafur Ragnar Grímsson forseti á að veita landsliðinu í handbolta fálkaorðuna við komu þeirra heim á miðvikudag. Ég tel það asnalegt að það sé verið að búa til fréttir í fjölmiðlum þess efnis að forsetinn sé að íhuga málið, gjörsamlega fáranlegt ! Gaman fyrir þá að sjá á netmiðlum að forsetinn sé að velta þessu fyrir sér en kemst svo að þeirri niðurstöðu að þeir eru ekki þess virði !
Ég er nú einn af þeim sem tel forseta lýðveldisins puða þessum fálkaorðum í allar áttir. Ólafur lofaði því í kosningabaráttunni 1996 að draga úr orðuveitingum en hefur nú ekki alveg staðið við það blessaður. Fálkaorðan á að vera eitthvað sem einstaklingar fá sem hafa unnið til afreka með eftiminnilegum og athyglisverðum hætti. Ekki Jón Jónsson héraðsdómari, fyrir 50 ár í starfi, eða Fjóla Aradóttir grunnskólakennari fyrir framlag sitt til menntamála. Fólk á einfaldlega ekki að fá fálkaorðu fyrir að hafa nennt að mæta í sömu vinnuna í hálfa öld, hverjum er ekki sama.
Ég vona að Ólafur standi sig sem forseti stórasta landsins og hengi fálkaorðuna á strákana þegar þeim mæta á klakann, þeir eiga það svo sannarlega skilið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.8.2008 | 18:06
Kjósendur sviknir
Hvert stefnir pólitíkin í dag? Frambjóðendur hlaupa í fýlu og segja sig úr stjórnmálaflokkum ef ekki er allt eftir þeirra höfði. Marsibil hefur nú yfirgefið Framsóknarflokkinn af því að hún hefur ekki trú á nýjum meirihluta í Reykjavík og er greinilega komin í hóp með Margréti Sverrisdóttur sem er alltaf í hlaupaskónum á milli flokka.
Þeir einstaklingar sem gefa kost á sér á framboðslista gerir það vegna eigin sannfæringar að hafa eitthvað fram að færa. Stjórnmálaflokkar mynda sér stefnu í öllum málaflokkum og þeir sem hafa áhuga á að fara í framboð ganga í þann stjórnmálaflokk sem á samleið með hugsjón þeirra. Kjósendur kjósa svo þann framboðslista og málefni sem þeim hugnast í von um að framboðendur geri sitt að mörkum til að ná málamiðlunum í samstarfi við aðra flokka, þar að segja ef framboðslistinn fái ekki hreinan meirihluta.
Stjórnmál eru málamiðlanir til að vinna að hag samfélagsþegnanna. Marsibil og fleiri sem hlaupa undan merkjum eru því augljóslega að svíkja kjósendur. Stjórnmálamaður sem neitar að vinna með þessum eða hinum takmarkar verulega meirihlutaþátttöku stjórnmálaflokks sins og það væri nú gott að kjósendur vissu það fyrir fram áður en þeir kjósa flokk sem hefur slíka stjórnmálamenn að geyma. Af hverju leit Marsibil ekki á þetta sem tækifæri fyrir sig að sanna sig sem varaborgarfulltrúi og formaður nefnda og ráða. Þá hefði hún skilað þeirri vinnu sem kjósendur gerðu kröfu um þegar þeir kusu Framsóknarflokkinn, nei hún ákvað að ganga á bak við orða sinna.
16.8.2008 | 02:49
Traðkað á smáríki
Sá í fréttunum aðfarir rússa gagnvart fréttamönnum í Gerorgíu. Það voru sýndar myndir af fréttamönnum í bíl og rússarnar skutu eins og þeir ættu lífið að leysa á bíl fréttamannanna. Þeir lifðu sem betur fer af en litlu mátti muna, þeir stigu út úr bílnum án þess að vita hvort líf þeirra væri með öllu lokið. Þeir voru teknir og pyntaðir í staðinn.
Himinn og haf skilur á milli hernaðargetu Rússlands og Georgíu og það er hreint með ólíkindum að stórveldi geti í raun leyft sér að nota hernaðarlega yfirburði sína gagnvart smáríki með þessum hætti. Mest er ég hræddur um að mannvitsbrekkan G. Bush forseti Bandaríkjanna fari að skipta sér að, eins og honum einum er lagið. Það yrði nú eitthvað ef USA og Rússland færu í hart saman ! Við yrðum án efa hernumin á nýjan leik !
Þrátt fyrir áhyggjum af málefnum á alþjóðargrundvelli ætla ég að reyna að taka því rólega og fara í sumarbústað í Þrastarskógi í kvöld og skila áhyggjurnar eftir heima.
Njótið helgarinnar, það ætla ég að gera.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.8.2008 | 02:32
Til hamingju Reykvíkingar
Núna er ég glaður fyrir hönd Reykvíkinga, Ólafur er allur, blessuð sé minning hans. Þetta var bráðnauðsynleg aðgerð Sjálfstæðisflokksins, Hanna Birna á eftir að standa sig vel, það er mín einlæg trú og ég hlakka til að fylgjast með henni í borgarstjórastólnum. Hún hefur tvö ár til að bretta upp ermum og rífa borgina upp úr vitleysunni og hún er rétta manneskjan í starfið.
Gærdagurinn var spennandi að mínu mati ég fylgdist stanslaust með og í bíðinni löngu um breytingar olli því að margar sögur fóru af stað og ég var orðinn smeykur á Tjarnakvartettinn kæmist aftur til valda. Sem betur fer varð ekkert úr því. Fjögra flokka meirihluti er auðvitað bara rugl og ekki mönnum bjóðandi, Óskar borgarfulltrúi Framsóknarflokksins sá það sem betur fer í hendi sér. Þar að auki hefði verið hræðilegt að fá pólitísku frekjuskjóðuna Margréti Sverrisdóttur aftur inn hefði Ólafur hætt í borgarstjórn. Ég held að hún hafi ekki getað sitt sínu daglega lífi vegna anna við að skipta um stjórnmálaflokka eftir hentugleika í von um að vera einhversstaðar metin og lyft til metorða.
Ég óska Reykvíkingum til hamingju með nýjan borgarstjóra J
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.8.2008 | 02:47
Burt með Ólaf F. Magnússon
Það kemur mér ekki á óvart að einhver skjálfti sé í flokksbræðrum mínum í Reykjavík. Ólafur F. Magnússon er engan veginn að höndla borgarstjóraembættinu og borginn er í hálfgerðri upplausn. Ólafur er sólóisti í þessu samstarfi og er ekki nægilega sterkur til að ráða við hlutverkið.
Fréttastofa Ríkissjónvarpsins greindi frá því í fréttum í gær að þungavigtarmenn í flokknum vildu fá borgarfulltrúa Framsóknarflokksins til að styrkja stöðu meirihlutans. Ólafur tekur af litlum krafti undir þær hugleiðingar, enda held ég að hann hljóti að sjá að hann er ekki sem blómstrandi rós í starfi sínu. Ég vil bara að Sjálfstæðisflokkurinn taki upp samstarf við Framsóknarflokkinn með því skilyrði að Hanna Birna taki loksins við borgarstjórastólnum. Ég var á því fyrir síðustu kosningar að Hanna Birna ætti að gefa kost á sér sem oddviti flokksins. Kosningarúrslitin hefðu orðið sterkari fyrir flokkinn. Vilhjálmur var búinn að vera áður en hann komst til valda.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að vinna sér inn traust Reykvíkinga aftur og og sanna sig, Borgarfulltrúarnir eru kúgaðir að mínu mati í þessu samstarfi og flokkurinn þarf uppreisnar æru í borginni. Ég vona svo innilega að það styttist í valdatíð Hönnu Birnu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.8.2008 | 19:11
Launanjósnir smáborgaranna
Þá er það árlega umræðan um launamál þjóðarinnar og hverjir eru hæstu skattgreiðendur ársins og svo framvegis. Smáborgarahátturinn í þjóðinni vellur út öðrum hverjum kjafti og sumir flykjast á næstu bæjarstjórnarskrifstofu til að njósna um laun nágrannans eða vinnufélaga sinna. Svo byrjar fólk á að smjatta um Jón í næsta húsi á nýjan jeppa og hjólhýsi og bla bla en er samt bara með þetta í laun á mánuði !
Á meðan að allir geta smjattað á launum hvors annars er verið að tala um launavernd, hvað er launavernd ef við getum svo einu sinni á ári skoðað laun allra? Margir vinnustaðir gera vel við þá sem standa sig vel, launin eru því mismunandi á milli skrifborða, ef þannig má orða það. Í flestum starfssamningum er ákvæði um trúnað um að greina ekki frá launum sínum meðal annarra starfsmanna. Hvernig gengur það upp ? Ef þig grunar að Jón sem vinnur við hlið þér sé með hærri laun þá getur þú auðveldlega komist að því.
Tekjur einstaklinga er þeirra einkamál og að láta gögn með upplýsingum um launakjör liggja frammi er brot á persónuvernd einstaklinga. Eigum við kannski að láta sjúkraskýslur einstaklinga liggja frammi til skoðunnar einu sinni á ári ? Ég vona að þingheimur fari að taka á þessum málum. Okkur kemur ekkert við hvað næsti maður er með í laun, það er ekki okkar að velta fyrir okkur lífsgæðum annarra, við eigum frekar að samgleðjast þeim sem hafa það gott og vinna sjá að því að skapa slíkt umhverfi fyrir okkur sjálf, hver er sinnar gæfu smiður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.7.2008 | 21:10
Helgi var í sumarfríi
22.7.2008 | 21:27
Helgi Seljan misnotar feðraorlofið
Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með það á hreinu, en tel svo vera að þegar maður er í feðraorlofi og þiggur 80% af tekjum sínum til að vera heima með barni sínu, eigi maður ekki að vera í annari vinnu á meðan.
DV greinir frá því í dag að Helgi Seljan Kastljósmaður hafi skellt sér einn túr á Aðalsteini Jónssyni SU og á einni viku náði sjónvarpsstjarnan 700 þúsund krónum í tekjur á sama tíma og hann er að þiggja 80% launa sinna hjá RVÚ. Ef þetta er ekki að misnota kerfið þá veit ég ekki hvað. Ég veit ekki til þess að feðraorlof hafi verið komið á til að nýbakaðir pabbar geti þegið laun fyrir að vera í fríi, en hlaupið til annarra starfa á meðan.
Ég fagnaði þessu fyrirkomulagi að nú gætu pabbar tekið virkan þátt í þeirri stórkostlegu upplifun sem það er að eignast barn, það er með ólíkingum að fólki tekst oft að misnota velferðarkerfið, það fer virkilega í taugarnar á mér. Ég vil að hart sé tekið á þeim sem misnota þetta kerfi, ef menn hafa ekki áhuga að vera heima við og njóta þess að vera heima með fjölskyldunni sinni þá á viðkomandi bara að vera í vinnunni sinni.
Eitt veit ég bara að ég á ekki eftir að horfa hugfanginn á Helga Seljan rakka niður fólk í sjónvarpsviðtölum framvegis, hann hefur margt á samviskunni og er ekki rétti maðurinn héðan í frá til að taka fólk af lífi í beinni útsendingu eins og hann hefur stundað hingað til. Menn sem gerast brotlegir á feðraorlofi á að svipta réttinum og endurgreiða orlofslaunin á allrar tafar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)