Eigum við að vorkenna honum ???

Þessi frétt vekur upp gremju hjá mér, er verið að ætlast til þess að ég finni til með Björgúlfi ? Þetta er nú einn af þeim sem ég treysti áður, virkaði vel á mig, en annað kom á daginn. þessi maður ásamt nokkrum öðrum útrásarvíkingum sáu til þess að almenningur í landinu blæður.  Viðskiptaráðherra hefur látið þau orð falla að almenningur mun að lokum borga fjármálafyllerí þessara manna.

Ég er reiður því að við stöndum frammi fyrir vonleysi þjóðarinnar, atvinnuleysi, stjarnfræðilega háa vexti og gjaldþrot heimilana í landinu, gjaldþrot fólks sem stundaði bara sína vinnu og stóð  í skilum með sitt og tók ekki þátt í sukkinu. Hver og einn einasti íslendingur finnur fyrir þessu, börnin okkar finna þessu og börn næstu 10 til 20 ára munu finna fyrir þessu.

Hvert erum við komin? Ég er alla vega kominn á þá skoðun að það var rangt að Ísland gekk í ábyrgðir þessara manna. Það kom fram í fjölmiðlum að gjaldþrot Kaupþings og Glitnis eru að slá heimsmet og sitja þar á topp fimm yfir stærtu gjaldþrotin í heimi.

Þessi maður fær uppfjöllun sem telur í hundruðum milljörðum og við eigum að vorkenna honum, við almenningur sem skuldum nokkrar milljónir í íbúða- og bílalán, en snaran bíður okkar. Hann er ennþá í pressðu jakkafötunum sínum og klúturinn er vel brotinn saman í brjóstvasanum !  Sonur hans stunginn af úr landi og hefur það gott meðan sótsvartur almúginn er leiddur undir fallöxina.

Jóhanna sem lofaði öllu fögru í kosningabaráttunni hefur líka sent þjóðinni tóninn, þar verður alls staðar skorið niður og staðan er slík að ríkissjóður getur ekki tekið meira á sig. Þar að auki segja ráðamenn þjóðarinnar við okkur hálfvitana, semjið bara um skuldir ykkar !

Hvernig á venjuleg vísitölufjölskylda að semja ef fólk er atvinnulaust ? Bæturnar duga ekki og foreldrar standa frammi fyrir vonleysi og gjaldþroti og nýta bæturnar í að fæða börnin sem eru framtíð þjóðarinnar, þau eru ekki öfundsverð blessuð börnin ef stjórnvöld taka sig ekki á í málinu og bakka út úr því að taka ábyrgð á fjármálafylleríinu - þessar rúmlega 300 þúsund hræður borga þetta ekki upp á skömmum tíma, það mikið er víst.


mbl.is Björgólfur ábyrgur fyrir 58 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar endar þetta allt saman ?

Vinstri stjórnin er alveg að slá í gegn á þessum 80 dögum. Fyrst var eytt á annan tug daga í að reka einn opinberan starfsmann, þjóðin blæddi á meðan. Þá er tekist á við stjórnlagaþing með kostnað upp á tvo milljarða, þjóðin blæðir ennþá. Og núna er þriðja baráttumálið hjá  vinstri stjórninni og það er að loka nektarstöðum.


Forsjáhyggjan er  yfirgengileg og núna megum við ekki búa við það val að fara á nektarstaði. Persónulega er það eitthvað sem ég sæki ekki og er alveg sama þannig lagað, en mín afstaða þar ekki að ná yfir alla aðra í samfélaginu.


Ég veit að rökin á bakvið aðgerðirnar eru að koma í veg fyrir mannsal. Það er nú þannig að það er nú hægt að setja lagaramma utan um slíkt og framfylgja regluverkinu með öflugu eftirliti. Ég er alfarið á móti forsjárhyggju og höftum í samfélaginu sem kemur beint niður á frelsi einstaklingsins.


Vinstri stjórnin er á villigötum, bankarnir óstarfshæfir, atvinnuleysið ráðandi, heimilin eru í miklum vanda, fyrirtækjum lokar, og málin snúast um það að loka nektarstöðum, hvar endar þetta allt saman ?


Rándýrt stjórnlagaþing

Á meðan almenningur horfir fram á skerta heilbrigðisþjónustu um allt land, lokun deilda og skurðstofa, er ríkisstjórnin að skoða stjórnlagaþing. Geir Haarde og Birgir Ármannsson fóru fram á að vita áætlaðan kostnað við slíkt þing. Tölurnar eru sláandi, stjórnlagaþing sem starfar í 10 mánuði: 1.176 milljónir króna, stjórnlagaþing sem starfar í 18 mánuði: 1.731,6 milljónir króna og stjórnlagaþing sem starfar í 24 mánuði: 2.148 milljónir króna.

Er nauðsynlegt að eyða 1 til 2 milljörðum í spjallþing um stjórnarskránna okkar? Er þetta rétti tíminn til að eyða slíkum upphæðum? Ég get ekki séð það. Ég er alfarið á móti þessum hugmyndum og það sýnir hvað vinstri stjórnir eru ekki í takt við samfélagið. Vilja hækka skatta á meðan engar vaxtalækkanir eru í kortunum hjá þeim. Há verðbólga, atvinnuleysi, háir vextir, skert þjónusta í velferðarkerfinu og þá er þetta til umræðu.

Ég vona að almenningur átti sig á stöðunni og kjósi eitthvað annað en þessa veruleikafirrtu ríkistjórnarflokka í kosningunum í apríl.

 


Suðurnesjamenn á þing

Kæru Suðurnesjamenn ,
Nú er lag að standa saman og tryggja Suðurnesjamönnum brautargengi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri næstkomandi laugardag. Á Suðurnesjum býr nær helmingur íbúa í Suðurkjördæmi og því nauðsynlegt að við höfum eðlilegt vægi þegar kemur að niðurröðun frambjóðenda á framboðslistann fyrir komandi Alþingiskosningar. 

Ég hef í nær tvo áratugi lagt Sjálfstæðisflokknum lið með einum eða öðrum hætti. Ég byrjaði tvítugur í pólitíkinni í Garðinum þar sem ég var varasveitarstjórnarmaður í tvö kjörtímabil. Ég var formaður æskulýðsnefndar og átti sæti í stjórn Sjálfstæðisfélagsins í Garði. Er ég fluttist til Reykjanesbæjar tók ég sæti í stjórn ungra sjálfstæðismanna og gegndi síðar formennsku í tvö ár. Ég er í stjórn Sjálfstæðisfélagi Keflavíkur og í stjórn fulltrúaráðsins Reykjanesbæjar. Þá sit ég í umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar og í stjórn Fasteigna Reykjanesbæjar. 

Ég gef kost á mér í prófkjörinu vegna þess að framundan er mikið verk að vinna í þágu lands og þjóðar. Mikilvægt er að auka verðmætasköpun og fjölga atvinnutækifærum og þannig styrkja stoðir samfélagsins.  Ég vil mannsæmandi lífskjör með öflugu heilbrigðiskerfi, fjölbreyttum menntunarmöguleikum og góðri löggæslu. Ég taldi flokkinn minn ekki vera að standa sig og var ósáttur við frammistöðu stjórnarflokkanna og takmarkaðar aðgerðir, á meðan almenningur í landinu blæddi. Ég stóð frammi fyrir því að ganga úr flokknum eða einfaldlega gera mitt til að hafa áhrif, ég valdi seinni kostinn. 

Ástæðan fyrir ákvörðun minni er sú að sannfæring mín er að samfélagið sem ég vil búa í verður ekki að veruleika nema að stefna Sjálfstæðisflokksins verði höfð að leiðarljósi í því uppbyggingarstarfi sem framundan er. Stefnan hefur ekki brugðist þjóðinni, heldur einstaklingarnir sem sváfu á verðinum við að viðhalda gildum hennar, þess vegna krefst ég breytinga. 

Við þurfum einstaklinga á Alþingi sem er í tengslum við raunveruleikann, lífið sjálft. Einstaklinga sem vita hvernig lífskjörin hafa þurrkast út á nokkrum mánuðum, einstaklinga  sem hafa þurft að berjast fyrir sínu. Ég hef slíka reynslu og er reiðubúinn að láta til mín taka í þágu almennings á Alþingi og leitast eftir samstöðu Suðurnesjamanna í prófkjörinu og óska eftir stuðningi ykkar í 4.sætið. 
 
Árni Árnason
Blaðamaður í Reykjanesbæ
Sækist eftir 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins


Sterkari utan ESB

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins síðar í mánuðinum þarf flokkurinn að taka afstöðu til aðilar að Evrópusambandinu. Mín skoðun hvað málið varðar er alveg ljós, ég vil ekki ganga í ESB. Ísland er ríkt af auðlindum, sjávarútvegur, landbúnaður, umhverfisvæn orka og vonir um olíu á Drekasvæðinu styrkir enn stöðu okkar utan Evrópusambandsins.

Landbúnaður
Við inngöngu í ESB hafa þjóðir gert sérsamninga um landbúnað. Margir telja er að Finnar hafi gert hagkvæmasta samninginn við ESB. Ef við næðum sambærilegum samningi, sem kallast góður, myndu tekjur bænda á Íslandi dragast saman um 30%. Slík skerðing væri dauðabiti margra bænda. Stéttinni væri stefnt í verulega hættu og til þyrfti að koma mun meiri stuðningur við bændur en nú þegar er til staðar. Afurðastöðvar og þjónustuaðilar gætu lokað sem væri til að mynda mikið áfall fyrir svæði eins og Selfoss.

Sjávarútvegur
Hvað varðar sjávarútveginn tel ég það ekki verja hagsmuni okkar best að færa forræði fiskistofnanna til Brussel. Við höfum unnið með fiskstjórnunarkerfi til að vernda fiskistofna okkar gegn ofveiði og  það hefur komið niður á mörgum útgerðum í landinu. Því er nauðsynlegt að sá afli sem er veiddur á Íslandsmiðum sé veiddur af íslenskum útgerðum. Sjávarútvegur er með elstu atvinnugreinum okkar og hefur verið grunnstoð samfélagsins í gegnum tíðina og því er nauðsynlegt að standa vörð um greinina.

Endurnýtanleg orka
Fallvatns- og jarðvarmaorkan er gullnáma sem í liggja mikil tækifæri. Suðurkjördæmi býr við þau forréttindi að eiga mikil tækifæri í virkjun orku. Sérfræðingar á þessu sviði telja að samanlagt orkumagn í kjördæminu geti orðið um 50 teravattstundir á ári. Ef áætlað sé að orkuverðið sé um 2 krónur á kílóvattstundina nemur verðmæti orkumagnsins um 100 milljörðum á ári. Ég tel það mikilvægt að við nýtum virkjunartækifæri í sátt og samlindi við landeigendur og umhverfið

Framtíðin er björt
Með forræði okkar fyrir auðlindunum er framtíð Íslands björt. Við eigum að standa saman og verja hagsmuni okkar. Með öflugra regluverki, gegnsæi í stjórnmálum og viljan að verki getum við endurreist íslenskt samfélag að nýju og skapað mannsæmandi samfélag með góðum lífskjörum allra landsmanna að leiðarljósi, þess vegna segi ég nei við ESB.

Árni Árnason
Blaðamaður í Reykjanesbæ
Sækist eftir 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

 


Nýtum sóknarfærin

Fyrirtæki og heimili í landinu er í fjárhagslegu svelti og eru búin að vera það síðan bankakerfið hrundi í haust. Fyrirtæki fá ekki fyrirgreiðslu með tilheyrandi samdrætti, uppsögnum og atvinnuleysi. Keðjuverkandi áhrifin skila sér inn á heimilin í landinu og fjölskyldur missa tökin.

Vonbrigði
Á meðan samfélagið blæðir hefur núverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna eytt dýrmætum tíma í eitt verkefni, að reka einn mann, Davíð Oddson seðlabankastjóra. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru með eindæmum og verð ég að lýsa yfir vonbrigðum mínum með Jóhönnu Sigurðardóttir sem forsætisráðherra. Ég taldi hana í meiri tengingu við alþýðuna í landinu en raun ber vitni.

Hvað svo?
Atvinnuleysi er ríkjandi í samfélaginu, vextirnir, verðtryggingin og stýrivextirnir með þeim hætti að almenningur ræður ekki afborganir. Frumvarp um gjaldþrot og tveggja ára kröfuskyldu í stað tíu ára, er blekkingin ein. Eina sem almenningi er lofað er að búa í húsnæði sínu í eitt ár eftir að hafa misst það, hvað svo?

Aldrei setið heilt kjörtímabil
Bankastofnirnar eru en óstarfhæfar og einu breytingarnar sem hafa átt sér stað eru endalausar breytingar á stjórnarmönnum, almenningur er látinn bíða. Fjöldi einstaklinga bíða með góðar og fullmótaðar hugmyndir að nýsköpun, sprotafyrirtækjum og öðrum lausnum og sjá tækifæri í kreppunni sem skapa atvinnu og gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Svör bankanna eru öll á einn veginn, enda kannski ekki von á öðru þar sem vinstri stjórnir hafa aldrei í sögu íslenskrar stjórnmálasögu ráðið við stjórnartaumana, hvað þá setið heilt kjörtímabil.

Lífskjör og stöðugleiki
Ísland þarf ríkisstjórn sem lætur til sín taka og vinnur hratt og örugglega að samfélagslegum úrbótum. Við stöndum frammi fyrir breyttu landslagi í stjórnmálum og þurfum breytingar, bæði hvað þingmenn varðar, sem og málefnalegar breytingar. Í vor þarf Sjálfstæðisflokkurinn að tefla fram traustum og sterkum einstaklingum á framboðslistum sínum í öllum kjördæmum. Framboðslistum sem sanna vilja okkar til athafna til að reisa nýtt regluverk og nýtt samfélag byggt á traustum grunni þeirra gilda sem Ísland stendur fyrir. Þrátt fyrir smæð okkar búum við að miklum auðlindum bæði til sjávar og sveita. Nýtum sóknarfærin og búum í samfélagi þar sem lífskjör og stöðuleiki er hafður að leiðarljósi.

Árni Árnason, blaðamaður í Reykjanesbæ
sækist eftir 4.sætinu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

 


Ungt fólk til áhrifa

Ég er ánægður með hvað ungt fólk sem ég hitti á ferðum mínum um Suðurkjördæmi, er bjartsýnt á framtíð landsins. Spár um landsflótta á næstu árum eru ofmetnar að mínu mati. Ungt fólk er bjartsýnt og tilbúið að taka málið í sínar hendur. Það kemur líka glögglega í ljós þegar litið er til þeirra prófkjöra sem eru framundan hjá stjórnmálaflokkunum, þar lætur ungt fólk til sín taka.

Nýtt regluverk
Mikilvægt er fyrir almenning að taka þátt í prófkjörum og styðja ungt fólk til forystu. Við stöndum frammi fyrir því að regluverkið gaf sig undan ofsókn græðgisvæðingarinnar sem heltók þröngan hóp þjóðarinnar. Afleiðingarnar eru að almenningur í landinu blæðir, skert heilbrigðisþjónusta, atvinnuleysi, skuldafen og erfiðleikar, án þess að almenningur hafi neitt með það að gera hvernig fór.

Viðreisn sjálfstæðisstefnunnar
Sjálfstæðisstefnan var misnotuð á mjög neikvæðan hátt og því nauðsynlegt að reisa regluverk þjóðarinnar á nýjan leik, án möguleika á misnotkun. Sjálfstæðisstefnan er reist á frelsi einstaklingsins til komast áfram á eigin ágætum og hæfileikum án þess þó að það skaði aðra. Við sem sem viljum axla ábyrgð erum reiðubúin í að reisa samfélag þar sem allir búi við eðlileg lífsgæði á nýjan leik.

Framtíðarsýn
Ég hef þessa sterku framtíðarsýn fyrir land og þjóð. Ég vil hvergi annarsstaðar búa en á Íslandi og til að Ísland verði land tækifærana er ég reiðubúinn að leggja mitt að mörkum. Ég vil þjóðfélag þar sem einstaklingurinn geti blómstað án hafta og þvinganna. Ég vil næga atvinnu, nýsköpun og spennandi sprotafyrirtæki. Ég vil gott heilbrigðiskerfi og næg hjúkrunarrými, tækifæri ungs fólks til menntunar og öfluga ferðaþjónustu. Ég vil verðtryggingu burt og lægri vexti. Ég vil samfélag sem við Íslendingar getum verið stoltir af.

Ungt fólk til áhrifa
Þann 14.mars nk. fer fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og sækist ég eftir stuðningi í 4. sætið. Ég er reiðubúinn að láta gott af mér leiða í þágu þjóðarinnar í þeirri viðreisnarverkum sem framundan eru. Ég vona að sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi styðji ungt og metnaðarfullt fólk til áhrifa.

Árni Árnason
Blaðamaður í Reykjanesbæ

 


Tími breytinga

Boðað hefur verið til alþingiskosnina 25.apríl næstkomandi. Íslensk stjórnmál standa á krossgötum, 18 ára stjórnarseta Sjálfstæðisflokks er lokið og vinstri stjórn tekin til valda. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn stjórnmálaflokka tekið höggið fyrir alþjóðakreppu, Framsóknarmenn hvítþvo hendur sínar og kannast ekkert við neitt, sem segir meira en mörg orð um ábyrgðarkennd flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur að sjálfsögðu verið lengi við völd og því kannski eðlilegt að hann axli ábyrgð. Breytinga er þörf innan flokksins til að vinna aftur traust almennings á flokknum. Breytingar á forystu liggur fyrir, Geir Haarde formaður gefur ekki kost á sér aftur og spurning hvernig Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kemur út úr kosningu um forystu flokksins.

Sjálfstæðismenn um allt land vilja breytingar og þá ekki einvörðungu á forystu flokksins, heldur á framboðslistum líka. Flokkurinn þarf að taka til innan sinnar raða, hleypa öðrum að til að vinna að endurbyggingu samfélagsins. Tiltekt á framboðslistum er stórhluti af iðrun flokksins. Það er lýðræðisleg krafa almennings að fram fari prófkjör í öllum kjördæmum. Flokkurinn mun ekki koma vel út úr kosningu með sömu leiðtogaefnin og sátu í ríkisstjórn, fyrir þessu þurfum við sjálfstæðismenn um land að berjast fyrir.

Við þurfum að koma bönkunum úr öndunarvélunum og af gjörgæslu. Eins og staðan er í dag eru fyrirtæki í landinu á bið í sínum eðlilega rekstri. Fyrirgreiðslur og fjármagn til nýsköpunar í atvinnulífinu eru nauðsynlegar. Atvinnuleysi þarf að eyða á næstu árum og vinna hratt og örugglega í þeim efnum. Fjölskyldur í landinu eru að taka höggið þrátt fyrir að hafa ekki verið með í fjármálaleiknum sem knésetti þjóðina. Sú staða er engan veginn viðunandi, útrásarvíkingarnir eru þeir sem eiga að blæða um þessar mundir.

Við þurfum að skoða vandlega möguleika á upptöku annars gjaldmiðils. Við eigum að fara í aðildarviðræður við ESB til að fá skýr svör um hvað við fáum og hverju við þurfum að fórna. Þegar það liggur fyrir á þjóðin að kjósa um kosti og galla inngöngu í ESB. Þjóðin getur vart gert upp hug sinn þar sem nægilegar upplýsingar liggja ekki fyrir.

Við verðum að hefja hvalveiðar. Hvalastofnin hefur fengið að vaxa og dafna um árabil óáreittur á kostnað fiskistofna sem við höfum með fiskveiðistjórnunarkerfinu okkar reynt að verja. Það liggur fyrir að hvalastofnin þarf að haldast í skefjum. Aukaveiðiheimildir sem nýverið voru leyfðar af sjávarútvegsráðherra hefði mátt deila á byggðarlög á landsbyggðinni með þeim skilyrðum að öll vinnsla færi fram í landi og skapaði atvinnu.

Ný vinstri stjórn hefur á tímum niðurskurðar eytt strax á fyrstu metrunum eytt 500 milljónum. Stjórnlagaþing kostar 300 milljónir og talið er að það kosti ríkið 200 milljónir að skipta út seðlabankastjórum. Þá hafa komugjöld innan heilbrigðisstofnana verið afnumið á sama tíma og fé vantar í heilbrigðisgeirann og innkaup á lyfjum til sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu verða skorin niður svo um munar.

Kosningarnar í apríl næstkomandi verða að bjóða almenningi upp á trausta einstaklinga sem eru reiðubúnir að fórna sér í uppbyggingarstarf, viðreisn Íslands og standa vörð um hag fyrirtækja og heimila í landinu. Samfélagið er ekkert annað en ein stór vél sem þarf að smyrja svo allt gangi sinn vanagang. Við erum olíulaus, núna þurfum við að smyrja.


Gleðileg jól

 Ekki hefði ég verið góður öryggisvörður í búð fyrir þessi jól. Búðarhlupl hefur verið áberandi síðustu daga og oft á tíðum er um að ræða eldri borgara sem hafa hnuplað sér til matar vegna fátæktar. Fólkið sem hefur unnið baki brotnu fyrir land og þjóð alla sína ævi. Þetta er sorgleg staðreynd í íslensku samfélagi. Við sem vorum svo rík, við sem töluðum um fátækt eins og mein sem ekki væri að finna hjá okkur. Á einum sólarhring breyttist allt, fólk á öllum aldri, ungar barnafjölskyldur sem og eldri borgarar eiga erfitt. Almenningur sem stóð við sitt í samfélaginu, sinntu sínum störfum taka nú höggið fyrir örfáa útrásarvíkinga sem halda nú jól í glæsilegum íbúðum víða um heiminn. Eftir situr þjóðin með sárt ennið. Ég hefði aldrei höndlað það að hrifsa mat af fátæku fólki í búð, ég hefði látið sem ég sæi þetta ekki. Það er ömulegt að eiga ekki fyrir mat á jólunum, alveg ömulegt. 

Ég vona að við íslendingar notum jólin til að íhuga stöðu okkar, við sem setjum að borðum í kvöld hlöðnum kræsingum gerum okkur grein fyrir því að þetta er ekki sjálfsagður hlutum á öllum heimilum í landinu. Lífsgæðin standa á brauðfótum og aldrei fyrr hefur verið eins nauðsynlegt að huga að náunganum. Fylgjumst með næsta manni, nágranna, ættingjum og vinum því ekkert er yndislegra en að geta rétt út hjálparhönd, ekkert gleður meira og tilfinningin í hjartanu verður ómetanleg. Framundan eru erfiðari tímar og aldrei verður meiri þörf á samstöðu og samhug. Sýnum útrárasarvíkingunum að þrátt fyrir að þeim tókst að setja heila þjóð í gjaldþrot þá tókst þeim ekki að selja sálur okkar, hlýhug og vinarþel. 

Kæru vinir og félagar, ég þakka þeim sem hafa lagt leið sína inn á bloggið hjá mér og hafa tekið þátt í skoðanaskiptum hérna. Ég óska ykkur sem og allri þjóðinni gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, njótið þess að eiga stundir með ykkar nánustu, það ætla ég að gera.


Eru jólaseríur orðnar sjaldséðar munaðarvörur ?

 Ég er gapandi hissa núna ! Ég var svo mikill kjáni að leiða hugann að því að skipta út seríunum á jólatrénu hjá þetta árið og rauk af stað til að fjárfesta í nýjum seríum. Ég tel mig ekki setja miklar kröfur, en ég þarf slatta og ætlaði að kaupa rauðar seríur með hringum fyrir neðan perustæðið til að herða hverja peru fyrir sig að greinunum.  

Ég fór í Húsasmiðjuna sem er að drekkja manni í auglýsingum um seríur á gamla verðinu. Jú það var til nokkrar 100 ljósa seríur, en ekki með hringnum sem mig vantaði. Hillurnar voru rytjulegar að sjá, mest til að bláum seríum. Úrvalið fákátlegt, miðað við það sem áður þekkist. Er Jón Ásgeir búinn að draga Húsasmiðjuna í svaðið?  

Jæja leiðin lá í Bykó. Þar var sama sagan ! Ekkert til og hillurnar meira og minna tómar, nema líkt og í Húsasmiðjunni, vantaði ekki rándýrar seríur og útiljósaskraut á tugi þúsunda. Starfsmennirnir voru líka ekkert að þvælast fyrir manni á báðum stöðum. Ég sá tvo önnum kafna starfsmenn í Bykó sem gerðu sitt besta í að sinna öllum þeim sem snérust í hringi í leit að aðstoð. 

Ég er að fara á jólahlaðborð á laugardaginn og er búinn að bjóða fólki heim áður og var ákveðinn í að vera búinn að skreyta til að mynda góða jólastemmingu. Það eitt að breyta um seríu á jólatrénu kostar mig ferð á höfuðborgarsvæðið. Ekki vantar upp á hjá þessum verslunum báðum að troða stanslaust inn bæklingum stútfullum af vörum og tilboðum inn um bréfalúgurnar, en svo er ekkert til ! 

Húsasmiðjan og Bykó eru hér með komin í hóp með Fréttablaðinu sem lítur á Suðurnesjamenn sem annars flokks viðskiptavini. Fréttablaðið sér ekki hag sinn í því að bera út Fréttablaðið til okkar og ætlast til þess að við eltust við blaðið í næstu búð eð bensínstöð. Lesning á Fréttablaðinu á Suðurnesjum fellur og það hratt og áður en langt um líður fellur það í gleymskunnar dá.  

Aldrei áður hefur verið eins nauðsynlegt fyrir okkur Suðurnesjamenn að versla heima fyrir jólin til að styðja við verslun og þjónustu á svæðinu. Við erum 20.000 þúsund hræður og það er sorglegt að Húsasmiðjan og Bykó sjái ekki hag sinn í að halda uppi góðri þjónustu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband