20.11.2008 | 02:21
Eigum við að ganga í ESB?
Þá er það þetta blessaða Evrópusamband sem margir halda að sé ljósið í myrkrinu hjá okkur íslendingum um þessar mundir. Ég sat fund á vegum sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sl. mánudagskvöld um sambandið þar sem tekist var á um málið.
Margt gott kom fram á fundinum en mörgum spurningum er enn ósvarað að mínu mati. Ég líka velti því fyrir mér hvort það sé hægt að mynda hóp einstaklinga til að skoða Evrópusambandið með eins óhlutdrægum hætti og nauðsyn er ? Þeir sem vilja ganga í ESB eru svo heilaþvegnir margir hverjir og sama má segja um þá sem eru því algjörlega ósammála. Þegar ég hitti slíkt fólk þá tapar það trúverðugleika nema að rökin séu það fjölþætt að þau varpi ljósi á allar staðreyndir málsins.
Ég nam stjórnmálafræði við Háskóla Íslands 2001-2004 og tók þar nokkra Evrópu áfanga og þar af einn sem var vikuferð til Brussel. Eftir nám mitt þá var ég ekki hlynntur inngöngu í ESB, ástæða inngöngu þá var byggð á rökum sem ekki heilluðu mig. Ég hef ávallt litið á ESB sem hálfgert risa félagasmálaráðuneyti, ráðuneyti sem hefur jú stöðugri gjaldmiðil en þau ríki sem standa vel græði minna á aðildinni. Ég hef ekki litið svo á að íslenskir bændur þurfi á auknu styrktarkerfi að halda, finnum stærðarhagkvæmnina í landbúnaði eins og við ætlumst til af öðrum stéttum.
Landbúnaðarstefna ESB er langt í frá að vera fullkomin. Sambandið hefur staðið frammi fyrir því að leggja 50% af fjárlögum sínum í málaflokkin. 2003 voru 11 milljónir bænda í ESB-ríkjunum 4 milljónir bænda í Póllandi. Þar voru bændur verulega fátækir og útbúnaður þeirra árhundruðum á eftir siðmenntuðum þjóðum. Gífulegur stuðningur við stéttina olli því að ESB stóð frammi fyrir framboði yfir eftirspurn. Á tímabili var landbúnaðarvörum safnað í geymslur til að hægja ekki á framleiðslu bændanna og að lokum endaði það á haugunum. ESB ákvað viðmiðunarverð á landbúnaðarvörum, veit ekki hvort það sé enn við lýði. Allar vörur sem framleiddar eru utan Evrópska efnahagssvæðisins eru aukaskattlagaðar svo að vörur svæðisins séu lægri.
Matarkarfan á að lækka þvílíkt við inngöngu í ESB, er þá reiknað inn í dæmið sendingarkostnaður? Eða er tekið verð í verslun í Frakklandi, Þýskalandi eða Bretlandi og lagt á borð fyrir okkur ? Við verðum að átta okkur á að við skutlumst ekki með vöruna okkar á flutningabíl yfir landamæri, við erum á eyju. Það er staðreynd að matarkarfan hefur ekki lækkað í öllum þeim löndum sem hafa gengið í ESB.
Sjávarútvegsstefnan er langt í frá að vera fullkomin heldur. Allur kvóti fer í einn pott og ESB deilir honum niður á löndin sem úthluta honum áfram til útgerða. Við fáum aðgang að veiðum í lögsögum ESB ríkjanna og þeir hjá okkur. Samkvæmt Rómarsáttmálanum er bannað að mismuna eftir þjóðernum þegar kemur að úthlutun kvótans. Getum við þá sótt um sérkjör hvað kvótan varðar ? Á Íslandi er kvótinn yfirveðsettur ! Þá var á tímabili stundað svokallað kvótahopp þar sem lönd voru að díla með veiðarnar. Bresk skip á veiðum undir spænsku flaggi og öfugt. Veiddu í spænskri lögsögu en sigldu svo með aflan til Bretlands. Noregur sótti um undanþágu varðandi fiskveiðarnar og þeim var synjað. Þeim var boðin aðlögunartími þar sem þeir réðu yfir 6 til 12 mílna landhelgi við strendur Noregs. Norðmenn felldu aðildartillöguna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Miðað við núverandi ástand á Íslandi ættum við að auka kvóta á smábáta og láta þá koma með aflann í land og auka þar með atvinnutækifærin á landsbyggðinni.
Ég vil fá svör við öllum málaflokkum varðandi aðild okkar að ESB. Ég skal skoða svörin, staðreyndirnar með hlutlausum hætti og svara þá hvað ég vil. Ég verð að viðurkenna það að ganga inn í þingsal Evrópuþingsins og sjá öll sætin og hugsa til þess að við fáum þar kannski fimm sæti af tæplega 800 hundruð vakti athygli mína á smægð okkar. Þingmenn allra ríkjanna skiptast niður eftir hvaða flokki þeir tilheyra, íhaldsmenn saman, jafnaðaramenn og svo framvegis. Samt hafa komið upp deiluefni þar sem stóru ríkin innan ESB rotti sig saman burt séð frá flokkum til að keyra í gegn málefni, kúga þar með smáríkin.
Haraldur Helgason formaður Sjálfstæðisfélagsins Njarðvíkings vitnaði á fundinum í orð Vigdísar Finnbogadóttur fyrrum forseta lýðveldisins. Hún sagði í Sjálfstæðu fólki nýverið að hún vill sjá hverju hún þarf að fórna og hvað hún fær í staðin áður en hún gefur upp afstöðu sína um ESB. Þar er ég henni hjartanlega sammála, við Vigdís og Haraldur erum semsagt óákveðin eins og er.
P.S. eitt sem ég veit er að Vigdís gæti enn verið forseti okkar - þvílíkur munur sem það væri :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.11.2008 | 18:55
Til skammar að grýta Alþingishúsið
Ég skil vel þá reiði sem ríkir í íslensku samfélagi, ég skil að almenningur rísi upp, segi skoðanir sínar og vilji láta í sér heyra. Ég skil að almenningur vilji að á það sé hlustað. Almenningur situr uppi með tap útrásarvíkinganna, hrun bankanna, fall krónunnar, háa stýrivexti. Almenningur stendur frammi fyrir greiðsluerfiðleikum og margir sjá fram á gjaldþrot, eigur sínar teknar þar sem afborganir á lánum eru í hæstu hæðum og fáir ráða við byrgðina.
Ég er líka almenningur og ég er líka í miklum vanda. En þegar ég horfði á fréttirnar í gær þar sem þúsundir manna söfnuðust saman á Austurvelli til að mótmæla varð ég reiður. Mótmælin fóru út í vitleysu, til átaka kom og Alþingishúsið grýtt. Alþingishúsið er eitt af glæsilegustu byggingum þjóðarinnar og við eigum það öll saman. Alþingishúsið hefur staðið sem klettur í íslensku samfélagi í gegnum tíðina og er merki sjálfstæðis og mikilvægi þjóðarinnar og það er til skammar að það sé grýtt. Mótmælin birtust á réttan hátt á fundi í Iðnó og að sjálfsögðu má mótmæla fyrir utan Alþingishúsið,en ekki grýta það.
Þá fóru mótmælendur og flögguðu Bónusfánanum á þaki Alþingishúsins. Hvað var það ? Var verið að hylla Bónusfeðga ? Það sem ég er ekki að skilja hjá stórum hluta almennings er að það eru ekki allir að líta á málið í samhengi. Baugsfeðgar, Björgúlfsfeðgar, Hannes Smárason og fleiri útrásarvíkingar virðast losna undan ábyrgð almennings. Þar er ég ekki sammála.
Ég veit að lagaramman vantaði og það er á ábyrgð Alþingis, það er á ábyrgð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, en Framsókn virðist alveg sleppa við ábyrgð í þessu máli. Stærsta ábyrgðin liggur hjá þeim sem stunduðu útrásina. Útrásin er tólfföld velta þjóðarinnar. Menn hafa ekki verið að taka því rólega, enda sýna einkaþoturnar og sérhannaðar snekkjur það að menn hafa haft sig alla við að eyða peningum sem voru ekki til. Bankarnir sýndu endalaust frábæra afkomu og almenningur og stjórnmálamenn tóku uppgjörum þeirra gilda.
Leikur með fyrirtæki á milli sömu einstaklinganna eins og með Sterling sýnir siðblindu útrásarvíkinganna. Fyrirtæki keypt leikið með tölur til að taka hærri lán á kostnað þeirra og peningum stungið undan er hættulegur leikur sem skilur okkur eftir með brúsann.
Þetta er tekið af eyjan.is afhverju er Hannes og félagar ekki grýttir ?
Sumarið 2005 lét Hannes Smárason, þá stjórnarformaður FL, flytja án heimildar þrjá milljarða króna af reikningum FL til Kaupþings í Lúxemborg, til þess að hjálpa Pálma Haraldssyni við að greiða fyrir kaupin á lággjaldaflugfélaginu Sterling í Danmörku. Þetta kemur fram í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.Þegar upp komst um gjörninginn neituðu endurskoðendur að skrifa upp á sex mánaða uppgjörið og stjórn og forstjóri sökuðu Hannes um að hafa þverbrotið lög með þessumStjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.10.2008 | 01:35
HVAÐ GERIR PABBI ÞINN ???
Nonni litli er í sjötta bekk grunnskóla.
Dag einn var samfélagsfræði og þá spurði kennarinn hvað feður þeirra störfuðu.
Börnin svöruðu eins og þeim er lagið: Pabbi minn er lögga, brunaliðsmaður, skrifstofumaður, vinnur í verslun og svo framvegis.
En kennarinn tók eftir því að Nonni litli var óvenju hljóður og lét lítið fara fyrir sér.
Hvað gerir svo pabbi þinn, spurði kennarinn Nonna litla.
Hann dansar nakinn fyrir framan karla á öllum aldri á veitingastað á kvöldin og á næturnar.
Svo græðir hann fullt á því að fara með þeim áhorfendum sem best bjóða út í portið á bak við veitingastaðinn þar sem hann dansar einkadans fyrir þá í nokkrar mínútur.
Kennarinn varð eðlilega mjög undrandi yfir svari Nonna litla og í miklu fáti skipaði hann hinum krökkunum að fara að lita, en Nonna litla tók hann afsíðis.
Er þetta alveg satt sem þú sagðir um hann pabba þinn ... Dansinn og allt það?
Nei, nei, sagði Nonni litli feiminn.
Pabbi vinnur hjá einum af bönkunum en ég þorði sko alls ekki að segja það fyrir framan hina krakkana.
15.10.2008 | 01:55
Jól í október :)
Ég er búinn að finna lausnina, lausnina sem sameinar íslendinga að nýju eftir vitleysuna sem hefur tröllriðið þjóðfélaginu. Ég er alla vega syngjandi glaður í kvöld. Ég var á kóræfingu og við erum bara byrjuð að æfa fyrir jólatónleikanna þannig að jólalögin hringlast í kollinum á mér og ég brosi hringinn.
Þetta minnir mann bara á það hvað það er stutt í hátíð ljós og friðar þar sem öll vandamál eru lögð til hliðar og allir sem einn gleðjast, alla vega í flestum tilfellum. Ég byrjaði að vísu á sunnudagskvöldið að syngja Það heyrast jólabjöllur og ofan úr fjöllunum fer, hópur að jólaköllum til að gantast við krakkanna hér. Gerði þetta bara til að angra Árna Þór sem er ekki kominn í stuð fyrir jólalög (hvað er að honum eigilega) og Raggi var með okkur. Svo á mánudeginum smsar Raggi mér og ég greindi einhvern pirring í honum þá var hann með lagið á heilanum í vinnunni og var ekki alveg sáttur við þetta.
Var það ekki Laddi sem eitt sinn söng afi er orðinn amma mín og jól í október. Það er kannski þjóðarheill að flýta jólunum ? Skreytum og fögnum saman, færum hvort öðru gjafir og gleðjumst saman á þessum síðustu og verstu tímum.
Gleðileg jól J
Spaugilegt | Breytt 17.10.2008 kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
13.10.2008 | 01:25
How I met your mother
Það er ekki öll vitleysan eins ! Ég, Árni Þór og Raggi hefur tekið á kreppunni með jafnaðargeði og hefum nú á nokkrum kvöldum slátrað 3 seríum og 3 þáttum af 4 seríu af gamanþættinum How I met your mother. Seríurnar eru á flakkara og erum við búnir að sitja límdir yfir þessu,hlægjandi út í eitt eins og smástelpur ! þessi þáttur er að gera það virkilega gott í Bandaríkjunum og víðar.
Þátturinn fjallar um fimm vini í New York, þau Ted, Marshall, Lily, Robin og Barney og hvernig þau takast á við hversdagslega lífið og ástarmálin. Barney, sem leikinn er af Neil Patrick Harris er þvílíkur snillingur, hann er kvennabósi af Guðs náð og kann öll trikkinn í bókinni til að komast yfir stúlku og láta sig hverfa um leið og hann er búinn að skora. Þetta æði okkar minnir einna helst á æðið sem greip marga þegar Friends voru upp á sitt besta.
Núna erum við búnir að ná að horfa á alla þætti sem er búið að gefa út þannig að við þurfum að bíða í tvo daga eftir þeim næsta og svo viku í senn. Það er auðvitað alveg ömulegt ástand og langar manni einna helst að komast yfir alla seríuna á einu bretti. Við erum að auðvitað komnir með alla frasana úr þættinum á heilann og þegar við erum innan um aðra vini okkar þá eru þeir hálf hissa á vitleysunni í okkur. Svo er líka spurning hvað nágrannar mínir í stigaganginum halda, við raulum með laginu í upphafi hvers þáttar, þannig að á 25 mínútna fresti síðustu kvöld höfum við raulað hástöfum ! Spurning hvort að mennirnir í hvítu sloppunum fari að láta sjá sig !!! eheh
En hvað um það, maður verður bara að lyfta sér upp á þessum síðustu og verstu tímum og þá er ekki slæmt að geta gert það ókeypis heima í stofu. hehehehe
P.S. Við erum búnir að gera fan-síðu á facebook.com um þáttinn !
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2008 | 02:51
Ísland er land mitt !
Ég er ríkur, ég vil hvergi annarsstaðar vera en á mínu ylhýra Íslandi. Land og þjóð er mér allt og hér hef ég alið manninn alla mína hunds og kattatíð. Hér líður mér vel. Síðustu mánuði hef ég látið neikvæðni ná tökum á mér, verið pirraður út alla aðra en sjálfan mig. Pirraður yfir kreppunni, ástandinu, pirraður yfir því að vera í fjárhagslegum vandræðum, hef ekki séð til sólar vegna hugarástands sem er engum hollt.
Við unga fólkið viljum eiga allt það flottasta, glæsileg heimili, flotta bíla og ganga í klæðnaði sem endurspeglar hátískuna á hverjum tíma. Sumir eru hagsýnir og safna fyrir hlutunum og fara eftir mottói Páls Óskars, að það sé skemmtilegra að kaupa sér hlutina þegar maður á fyrir þeim, mikið til í þeirri speki. Ég hef átt nokkur góð samtöl við móður mína sem er rúmlega sextug. Ég hef áttað mig hvernig þeir sem eldri eru hugsa öðruvísi en við sem yngri erum. Með samtölunum hef ég náð að framkvæma hugarfarsbreytingu og núna líður mér betur.
Ég á frábæra fjölskyldu, foreldra, ömmu, þrjú systkini og sex frændsystkini sem ég dýrka. Peningar koma og fara, hús og bílar koma og fara, en á meðan við höfum hvort annað og höldum heilsu þá erum við rík. Lífsgæðakapphlaupið má ekki ná tökum á okkur, við megum ekki gleyma því mikilvægasta í lífinu. Það er stuðningur, ást og umhyggja þeirra sem standa manni næst. Ég er líka svo ríkur að ég á stóran vinahóp sem fyllir líf mitt að gleði og hlátri, samverustundum sem eru mér svo mikils virði.
Í öllum þessum látum sem ganga yfir þjóðfélagið núna gleyma margir sér, leyfa reiði og hatri ná tökum á sér, neikvæðum tilfinningum sem skilar engu nema eigin vanlíðan.
Þar sem ég er sjálfstæðismaður og verð það alltaf, fæ ég að heyra það reglulega frá fólki, hvernig minn flokkur er búinn að klúðra íslensku samfélagi, hvernig minn flokkur hefur gert drauma og vonir fólks að engu. Ég er ekki sammála þessu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið einn við stjórnvöldin hér í landinu síðastliðna áratugi, þótt hann hafi að sjálfsögðu verið einn af stjórnarflokkunum. Geir hefur í sumar unnið að því að auka lausafjármagn í landinu til að draga úr áhrifum kreppunnar. Ekki má heldur gleyma því í umræðunni að þetta ástand er ekki eins dæmi. Kreppan er um alla Evrópu, Bandaríkin, Kanada. Allsstaðar er sótt að almenningi í þessu ástandi. Geir og félagar standa í ströngu við að bjarga hag þjóðarinnar á sama tíma og fjölmiðlar næra almenning á neikvæðni og stuðla að múgæsingi. Það væri frábært ef fjölmiðlar gætu séð af sér og fjallað með jákvæðum hætti um stöðuna. Ég vinn við fjölmiðil sjálfur og veit alveg hvernig hægt að stjórna umræðunni ef maður vill fara þann veg.
Ég hélt að ég ætti aldrei eftir að segja að við ættum að taka Bandaríkin okkur til fyrirmyndar, en nú er staðan slíka að keyra þarf upp samkennd og einingu í landinu. Keyra á þjóðernishyggju og baráttuhug þjóðar sem hingað til hefur náð að bjarga sér úr erfiðum aðstæðum í gegnum tíðina. Náttúruhamfarir,kreppur, Þorskastríð, hersetu, berklar og fleira sem við höfum glímt við og alltaf staðið okkur. Þjóðin þarf að taka höndum saman og standa á bakvíð ríkisstjórn landsins, vinna með henni að árangri. Ég er get sannfært ykkur um það að sama hvaða stjórnmálamaður úr sama hvaða stjórnmálaflokki stæði í sporum Geirs þessa stundina þá hefði viðkomandi minn stuðning. Einn maður vinnur ekki stórsigra í hópíþrótt, hann þarf liðið allt með sér og stuðning úr áhorfendastúkunum.
Kæru íslendingar oft er þörf en nú er nauðsyn að standa öll sem einn, brjótum ekki niður það sem er verið að reyna að afreka, tölum hlutina upp á við, jákvæðnin ein getur flutt fjöll. Hættum sandkassaleiknum að finna einhvern sökudólg, hættum að röfla um brottrekstur embættismanna, það er tími fyrir slíkt síðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.9.2008 | 02:45
Reynum að vera jákvæð :)
Jæja það er nú ekki gaman að heyra það að maður sé leiðilegur !!! Já ég er búin að fá að heyra það nokkrum sinnum eftir að ég færði mig yfir á moggabloggið. Ég var með svona bloggsíðu eins og unglingarnir og var jú stundum að blogga á léttu nótunum og hef víst gert lítið af því uppá síðkastið.
Maður verður auðvitað að hlýða á kall lesenda sinna og reyna að bæta úr því. Það versta við það að þegar maður byrjar að skrifa með það að leiðarljósi að vera fyndinn þá kemur gjörsamlega ekkert upp í hugann. Ég lék mér stundum að koma með kaldhæðnislega pistla um skemmtilegar fréttir og hef vafrað núna um netfréttamiðla en það er bara ekkert skemmtilegt að gerast !
Þar sem ég er blaðamaður sjálfur þá verð samt að segja að maður er orðinn hálf þunglyndur á fréttaflutningnum sem er í gangi. Orkuveitan hækkar, olíufélögin hækka, matarkarfan hækkar eina sem lækkar er gengi krónunnar. Þá eru það slys, morð, dæmdir nauðgarar, handrukkarar leiddir í gildru fyrir framan myndavélarnar, uppsagnir, Eimskip að sökkva og Icelandair að nauðlenda. Það liggur við að maður skeri sig á púls að lesa þetta !
Þjóðin er að drukkna í eigin neikvæðni og það sést vart bros á vör lengur. Það er spurning að við flykkjumst öll í Já hópinn sem virðist vera þau einu fáu sem hugsa á jákvæðu nótunum. Ég held að það væri þjóðarráð hjá fjölmiðlum að hrista upp í sér og reyna að gera jákvæðu fréttirnar meira áberandi. Ég veit að ég þarf líka að taka þá hugmynd upp hjá mér í minni vinnu, en maður reynir alla vega.
Ég verð að enda þetta á jákvæðu nótunum fyrst að ég er að röfla yfir neikvæðni. Framundan er frábær spenna hérna í Reykjanesbæ. Keflavík getur átt möguleika á Íslandsmeistaratitlinum í Landsbankadeildinni á laugardaginn. Ég er nú ekki þekktur fyrir mikla visku eða áhuga á íþróttum, en ég er bara hryllilega spenntur ! Þetta er yrði ekki bara frábær uppskera strákanna í liðinu, heldur líka mjög jákvætt fyrir Reykjanesbæ sem leggur mikið upp úr íþróttum og forvarnargildi þeirra. Keflavík í körfu urðu Íslandsmeistarar og því yrði gaman að fá þennan titil líka. Ég sendi strákunum baráttukveðjur og vona svo innilega að ég taki myndir af Íslandsmeisturum á laugardaginn.
P.S. skal reyna að vinna í þessu með skemmtilegheitin síðar J
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.9.2008 | 14:56
Björn Bjarnason á villigötum
Ég verð að viðurkenna það að ég er virkilega ósáttur með flokksbróðir minn og dómsmálaráðherra Björn Bjarnason. Hann hefur ákveðið að auglýsa stöðu lögreglstjóra á Suðurnesjum.
Jóhann Benediktsson lögreglustjóri á Suðurnesjum hefur staðið sig með prýði í störfum sínum. Hann hefur styrkt lögregluna á svæðinu og Suðurnesjamenn eru ánægðir með löggæsluna á svæðinu og þann árangur sem náðst hefur.
Margir tala um að fíkniefnatilfellum fari fjölgandi á Suðurnesjum. Auðvitað getur verið einhver aukning, en fyrst og fremst tel ég að um sé að ræða markvissari rannsóknir og öflugri aðgerðir. Ég sannfærist ekki að rökum ráðherrans um að vegna breytinga á embættinu sé nauðsynlegt að auglýsa og hans persónulegu skoðun að oftar eigi að auglýsa stöður hjá ríkinu en nú er gert.
Sveinn Andri lögfræðingur segir að ákvörðun ráðherrans sé ekkert annað en uppsögn, því er ég alveg sammála. Ég tel það mikill kostur að Jóhann sé ekki Suðurnesjamaður og búi ekki hérna. Tengist engum hérna og er að taka verulega á málunum og er að skila góðum árangri og það er það sem við íbúarnir á svæðinu viljum.
Ég vona að Björn Bjarnason sjái af sér í þessu máli og dragi hugmyndir sínar um að auglýsa starfið til baka, hann er á villigötum hvað þetta varðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.9.2008 | 16:28
Blessuð sé minning Frjálslynda flokksins
Ég hef verið lengi hissa á því hvað Frjálslyndi flokkurinn lifir. Klofningsframboð og framboð stofnuð í kringum eitt sérstakt málefni hafa oft á tíðum ekki átt góðan líftíma og fæst þeirra lifa lengur en eitt kjörtímabil. Meira segja eru til dæmi þess að slík framboð falli í svefnin langa strax eftir kjördag.
Frjálslyndi flokkurinn er í algjörri upplausn. Flokkurinn var stofnaður gagngert til að berjast gegn kvótakerfinu á sínum tíma og hefur með ótrúlegum hætti náð að halda mönnum inn á þingi. Þingflokkurinn telur 4 þingmenn sem eru engan veginn að ná saman. Fyrrverandi þingmenn hafa áhrif á umræðuna innan þingflokksins með fordómum í garð innflytjenda og flóttafólks á meðan Sigurjón Þórðarson vill gefa kost á sér gegn sitjandi formanni flokksins.
Ungir frjálslyndir hafa ályktað gegn sitjandi þingmanni flokksin Kristni H. Gunnarssyni og vilja hann út. Það er gaman að fylgjast með Kristni, hann á fáa stjórnmálaflokka eftir karlgreyið. Hann var í Alþýðubandalaginu að mig minnir, en færði sig þaðan yfir í Framsóknarflokkinn. Þar náði hann að mála sig út í horn og flúði yfir í Frjálslynda flokkinn, hvert fer hann næst?
Það sem vekur athygli mína í þessum deilum er að þær eru allar innan flokksins. Félagsmenn Frjálslynda flokksins eru að fremja pólitískt sjálfsmorð, alla vega góða tilraun til þess. Hvernig ætlar 4 þingmanna þingflokkur að ganga til kosninga þegar eina eftirtektaverða sem þeir gerðu á kjörtímabilinu var að rífast innbryðis ? Hvernig væri stemmingin í Frjálslynda flokknum ef flokkurinn hefði 15 þingmenn ?
Þetta er hættan við róttækan stjórnmálaflokk stofnaðan til að berjast um eitt málefni. Ef flokkurinn nær að lifa bætast nýjir einstaklingar við sem koma ekki alfarið fyrir eitt málefni, heldur vilja leggja áherslu á aðra málaflokka. Þegar það gerist eru menn engan veginn samstilltir og það sýður upp úr. Ég spái því að Frjálslyndi flokkurinn eigi ekki framtíðina fyrir sér og verði tekinn af lífi í næstu kosningum með lýðræðislegum hætti í kjörklefunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.9.2008 | 19:36
Leysa þarf kjaradeilu ljósmæðra
Ekkert þokast í kjaradeilu ljósmæðra, verkfall skellur á í kvöld. Ég verð að viðurkenna að mér brá þegar ég sá í fréttum um daginn launin sem ljósmæður hafa. Ljósmæður hafa lokið fimm ára háskólanámi og eru að fá 274.000 til 291.000 þúsund á mánuði. Þessi laun eru eru engan vegin í takt við það nám sem þær hafa lokið og hvað þá ábyrgðina sem hvílir á herðum þeirra.
Störf ljósmæðra er mjög mikilvæg og verkfall þeirra veldur að sjálfsögðu áhyggjum verðandi foreldra. Sem betur fer er nú lágmarks þjónusta í boði á höfuðborgarsvæðinu, en hérna í Reykjanesbæ ekki. Eitt barn fæddist héðan í verkfallinu í síðustu viku og fæddist það í Reykjavík þar sem þjónustan lá niðri hérna.
Í okkar samfélagi þar sem lífsgæði eru með því besta á heimsvísu, þurfa þungaðar konur að hafa verulegar áhyggjur. Ástandið er engan vegin viðunandi og þarf að leysa þessa deilu hið fyrsta. Ég er samt fullviss að ekki verði gengið að kröfum ljósmæðra um 25% launahækkun en finna þarf málamiðlun í deilunni. Ástandið í samfélaginu er með þeim hætti að ekki er mikil von um að gengið verði til samninga um 25% launahækkun sem gæti verið fordæmisgefandi í komandi samingaviðræðum þegar samningar verða lausir í febrúar næstkomandi.