Velkomin á Ljósanótt

Menningar- og fjölskylduhátíðin Ljósanótt hófst hérna í Reykjanesbæ í gær. Það er alveg frábært að vera hérna og sjá hvað bærinn lifnar við og iðar af mannlífi. Það eru atburðir um allann bæ, 60 listsýningar, fjöldi tónleika, vísindasmiðja, Tivólí, já söngur og gaman hvert sem litið er.  

Ég verð að viðurkenna að ég er búinn að hlakka mikð til, ég hlakka orðið meira til Ljósanætur en jólanna og þá er nú mikið sagt. Í gærkvöldi var miðbærinn fullur af fólki á röltinu á milli sýninga og uppákoma og maður rakst allsstaðar á fólk sem maður þekkir og hefur ekki hitt lengi. Það er bros á vörum allra. Ljósanótt er án efa önnur stærsta hátíðin á eftir menningarnótt. Í fyrra voru 30 þúsund manns á Ljósanótt, við erum að tala um þrefalt meira en oftast er á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Í kvöld verður Bubbi Morthens á stóra sviðinu ásamt Jóhanni Helga og Magnúsi, Rúnar, Júl og Raggi Bjarna taka saman lagið og margt fleira. Hápunkturinn sem svo laugardagskvöldið sem endar með flottustu flugeldasýningu sem sögur fara af.  Veðrið leikur við okkur hérna og ættu allir sem eiga þess kost að koma við hjá okkur að drífa sig af stað og eiga frábæra helgi með og reyknesingum, ég segi bara góða skemmtun um helgina og verið velkomin á Ljósanótt


Fréttablaðið úti í kuldanum

“Íslendingar velja Fréttablaðið” segir í auglýsingu blaðsins í útvarpinu þar sem fram kemur samkvæmt skoðunarkönnun að Fréttablaðið er mest lesna blaðið í landinu. Ég er nú eitthvað hræddur um að að lesning á þessu blaði eigi eitthvað eftir að dragast saman á næstunni. 

Pósthúsið, sem er dótturfyrirtæki 365 miðla hefur sagt upp 129 manns sem starfað hefur við dreifingu Fréttablaðsins. Þá verður til að mynda hætt að bera Fréttablaðið í hús í Reykjanesbæ og í fleirum bæjarfélögum. Komið verður upp póstkössum í hverju hverfi þar sem fólk getur farið og náð sér í eintak.

Ég segi nú bara fyrir sjálfan mig að ég er ekki viss um að ég nenni að eltast við póstkassa á einhverju götuhorni til að komast yfir eintak af Fréttablaðinu. Þessi póstkassaháttur er viðhafður í nágrannasveitarfélögunum í kringum okkar og ekki veit ég nú hver lesningin er þar. Það er óneitanlega þægilegt að fá Fréttablaðið og 24 stundir heim og maður getur lesið þetta á náttbuxunum yfir morgunmatnum.  Í Reykjanebæ búa rúmlega 14.000 þúsund manns og ég tel það heldur betur einkennilegt að blað sem auglýsir sig sem mest lesna blaðið sjái ekki hag sinn í að skila sér inn um bréfalúguna hjá okkur í Reykjanesbæ.


Strákarnir eiga að fá fálkaorðuna

Já, Ólafur Ragnar Grímsson forseti á að veita landsliðinu í handbolta fálkaorðuna við komu þeirra heim á miðvikudag. Ég tel það asnalegt að það sé verið að búa til fréttir í fjölmiðlum þess efnis að forsetinn sé að íhuga málið, gjörsamlega fáranlegt !  Gaman fyrir þá að sjá á netmiðlum að forsetinn sé að velta þessu fyrir sér en kemst svo að þeirri niðurstöðu að þeir eru ekki þess virði !  

Ég er nú einn af þeim sem tel forseta lýðveldisins puða þessum fálkaorðum í allar áttir. Ólafur lofaði því í kosningabaráttunni 1996 að draga úr orðuveitingum en hefur nú ekki alveg staðið við það blessaður. Fálkaorðan á að vera eitthvað sem einstaklingar fá sem hafa unnið til afreka með eftiminnilegum og athyglisverðum hætti. Ekki Jón Jónsson héraðsdómari, fyrir 50 ár í starfi, eða Fjóla Aradóttir grunnskólakennari fyrir framlag sitt til menntamála. Fólk á einfaldlega ekki að fá fálkaorðu fyrir að hafa nennt að mæta í sömu vinnuna í hálfa öld, hverjum er ekki sama. 

Ég vona að Ólafur standi sig sem forseti stórasta landsins og hengi fálkaorðuna á strákana þegar þeim mæta á klakann, þeir eiga það svo sannarlega skilið.


Eitthvað klukkdæmi frá Fowler

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

Fríhöfn, Fréttastjóri Augsýn, Gallerí Keflavík, herradeild, Blaðamaður Tíðinda 

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:

Indiana Jones, James Bond,  Ace Ventura,  Austin Powers 

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

Keflavík, Garður, Reykjavík, Reykjanesbær 

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

CSI, Boston Legal, Jay Leno, King of Queens 

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

Portugal, Spánn, Tyrkland, Grikkland 

Fjórar síður sem ég skoða daglega (fyrir utan bloggsíður):

Mbl.is, Visir.is, Reykjanesbaer.is, Sv.gardur.is 

Fernt matarkyns sem ég held uppá:

Hamborgarahryggur, Svið, Fiskibollurnar hennar mömmu, Grillaðar kjúklingabringur 

Fjórar bækur/blöð sem ég les oft:

Tíðindin, Morgunblaðið, Fréttablaðið, 24 stundir 

Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:

New York, Kína í bjór með handboltastrákunum, Portugal, Dubai  

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

Birta Rós, Elenora, Anna Þóra, Elísabet Ólöf

  


Áfram Ísland !

Ísland er á öðrum endanum yfir velgengni íslenska handboltaliðsins á Olympíuleikunum, enda engin furða. Strákarnir hafa staðið sig með slíkum ágætum að maður hreinlega trúir þessu ekki. Ég hef fylgst með landsliðinu í handbolta í mörg ár. Ég er nú samt laus við öll íþróttagen, en það sem varð til þess að fylgjast með landsliðinu var að Róbert Sighvats frændi lék með liðinu fyrir mörgum árum. 

Að sjálfsögðu stóð maður með frænda og horfði á leikina stoltur, sama geri ég nú og það var ótrúleg gæsahúð sem greip mann við sigurinn á Spán. Það var frábært að sjá í fréttum hvað þjóðin stendur með strákunum, áhugi og stuðningurinn endurspeglast í öllum aldri þjóðarinnar og það er svo gaman að sjá hvað við getum tekið okkur saman og verið sem eitt þegar þess ber undir.  

Ég er virkilega bjartsýnn á að strákarnir sigri frakkanna á sunnudagsmorgun og að sjálfsögðu vaknar maður til að horfa á leikinn, þetta verður stund sem engin íslendingur ætti að missa af. Ég sendi strákunum okkar baráttukveðjur til Kína, þeir hafa skráð sig í íþróttasögu þjóðarinnar með svo glæsilegum hætti að íslenska stoltið og þjóðremban brýst út í manni. 

 Eigið góða helgi og ekki missa af leiknum !


Kjósendur sviknir

Hvert stefnir pólitíkin í dag? Frambjóðendur hlaupa í fýlu og segja sig úr stjórnmálaflokkum ef ekki er allt eftir þeirra höfði. Marsibil hefur nú yfirgefið Framsóknarflokkinn af því að hún hefur ekki trú á nýjum meirihluta í Reykjavík og er greinilega komin í hóp með Margréti Sverrisdóttur sem er alltaf í hlaupaskónum á milli flokka. 

 Þeir einstaklingar sem gefa kost á sér á framboðslista gerir það vegna eigin sannfæringar að hafa eitthvað fram að færa. Stjórnmálaflokkar mynda sér stefnu í öllum málaflokkum og þeir sem hafa áhuga á að fara í framboð ganga í þann stjórnmálaflokk sem á samleið með hugsjón þeirra.  Kjósendur kjósa svo þann framboðslista og málefni sem þeim hugnast í von um að framboðendur geri sitt að mörkum til að ná málamiðlunum í samstarfi við aðra flokka, þar að segja ef framboðslistinn fái ekki hreinan meirihluta.

Stjórnmál eru málamiðlanir til að vinna að hag samfélagsþegnanna. Marsibil og fleiri sem hlaupa undan merkjum eru því augljóslega að svíkja kjósendur. Stjórnmálamaður sem neitar að vinna með þessum eða hinum takmarkar verulega meirihlutaþátttöku stjórnmálaflokks sins og það væri nú gott að kjósendur vissu það fyrir fram áður en þeir kjósa flokk sem hefur slíka stjórnmálamenn að geyma. Af hverju leit Marsibil ekki á þetta sem tækifæri fyrir sig að sanna sig sem varaborgarfulltrúi og formaður nefnda og ráða. Þá hefði hún skilað þeirri vinnu sem kjósendur gerðu kröfu um þegar þeir kusu Framsóknarflokkinn, nei hún ákvað að ganga á bak við orða sinna.


Traðkað á smáríki

Sá í fréttunum aðfarir rússa gagnvart fréttamönnum í Gerorgíu. Það voru sýndar myndir af fréttamönnum í bíl og rússarnar skutu eins og þeir ættu lífið að leysa á bíl fréttamannanna. Þeir lifðu sem betur fer af en litlu mátti muna, þeir stigu út úr bílnum án þess að vita hvort líf þeirra væri með öllu lokið. Þeir voru teknir og pyntaðir í staðinn.  

Himinn og haf skilur á milli hernaðargetu Rússlands og Georgíu og það er hreint með ólíkindum að stórveldi geti í raun leyft sér að nota hernaðarlega yfirburði sína gagnvart smáríki með þessum hætti. Mest er ég hræddur um að mannvitsbrekkan G. Bush forseti Bandaríkjanna fari að skipta sér að, eins og honum einum er lagið. Það yrði nú eitthvað ef USA og Rússland færu í hart saman ! Við yrðum án efa hernumin á nýjan leik !  

Þrátt fyrir áhyggjum af málefnum á alþjóðargrundvelli ætla ég að reyna að taka því rólega og fara í sumarbústað í Þrastarskógi í kvöld og skila áhyggjurnar eftir heima.  

Njótið helgarinnar, það ætla ég að gera.


Til hamingju Reykvíkingar

Núna er ég glaður fyrir hönd Reykvíkinga, Ólafur er allur, blessuð sé minning hans. Þetta var bráðnauðsynleg aðgerð Sjálfstæðisflokksins, Hanna Birna á eftir að standa sig vel, það er mín einlæg trú og ég hlakka til að fylgjast með henni í borgarstjórastólnum. Hún hefur tvö ár til að bretta upp ermum og rífa borgina upp úr vitleysunni og hún er rétta manneskjan í starfið. 

Gærdagurinn var spennandi að mínu mati ég fylgdist stanslaust með og í bíðinni löngu um breytingar olli því að margar sögur fóru af stað og ég var orðinn smeykur á Tjarnakvartettinn kæmist aftur til valda. Sem betur fer varð ekkert úr því. Fjögra flokka meirihluti er auðvitað bara rugl og ekki mönnum bjóðandi, Óskar borgarfulltrúi Framsóknarflokksins sá það sem betur fer í hendi sér. Þar að auki hefði verið hræðilegt að fá pólitísku frekjuskjóðuna Margréti Sverrisdóttur aftur inn hefði Ólafur hætt í borgarstjórn. Ég held að hún hafi ekki getað sitt sínu daglega lífi vegna anna við að skipta um stjórnmálaflokka eftir hentugleika í von um að vera einhversstaðar metin og lyft til metorða.  

Ég óska Reykvíkingum til hamingju með nýjan borgarstjóra J


Burt með Ólaf F. Magnússon

Það kemur mér ekki á óvart að einhver skjálfti sé í flokksbræðrum mínum í Reykjavík. Ólafur F. Magnússon er engan veginn að höndla borgarstjóraembættinu og borginn er í hálfgerðri upplausn. Ólafur er sólóisti í þessu samstarfi og er ekki nægilega sterkur til að ráða við hlutverkið.  

Fréttastofa Ríkissjónvarpsins greindi frá því í fréttum í gær að þungavigtarmenn í flokknum vildu fá borgarfulltrúa Framsóknarflokksins til að styrkja stöðu meirihlutans. Ólafur tekur af litlum krafti undir þær hugleiðingar, enda held ég að hann hljóti að sjá að hann er ekki sem blómstrandi rós í starfi sínu.  Ég vil bara að Sjálfstæðisflokkurinn taki upp samstarf við Framsóknarflokkinn með því skilyrði að Hanna Birna taki loksins við borgarstjórastólnum. Ég var á því fyrir síðustu kosningar að Hanna Birna ætti að gefa kost á sér sem oddviti flokksins. Kosningarúrslitin hefðu orðið sterkari fyrir flokkinn. Vilhjálmur var búinn að vera áður en hann komst til valda.  

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að vinna sér inn traust Reykvíkinga aftur og og sanna sig, Borgarfulltrúarnir eru kúgaðir að mínu mati í þessu samstarfi og flokkurinn þarf uppreisnar æru í borginni. Ég vona svo innilega að það styttist í valdatíð Hönnu Birnu.


Brúðkaup og Sálin

Ég veit ekki alveg hvað er í gangi með mig en ég er ennþá vakandi! Alveg óþolandi hvað ég er mikill nátthrafn. Ég var í brúðkaupi í gær, Björgvin vinur minn og Sigurbjörg unnusta hans gengu í það heilaga í gær í Útskálakirkju. Veislan var í Eldborg og heppnaðist dagurinn þeirra virkilega vel.

Þau voru stórglæsileg, veislan skemmtileg og maturinn frábær.  Ég hafði gaman af því að hlusta á mömmurnar halda ræður. Hrönn mamma Björgvins var klökk á þessum tímamótum og minnti það mig óneitanlega á mömmu mína þegar þegar Jónas bróðir og Björg systir giftu sig (samt ekki hvort öðru sko – bara hafa það á hreinu). Brúðkaup eru tilfinningarlegar stundir fyrir mömmurnar líka, sem er alveg yndislegt, enda hlýtur það að vera ljúf stund að sjá börnin sín stútfull af hamingju og væntingum á leið út í lífið með lífsförunautum sínum. Pabbi Sigurbjargar var ekkert á því að sleppa hendi af litlu stelpunni sinni því í kirkjunni settist hann aftur við hlið hennar eftir að þau höfðu verið gefin saman, Gunni greyið var rekinn yfir til Jónsa, pabba Björgvins svo brúðhjónin gætu nú sitið saman.  

Laugardagurinn er annasamur hjá mér, nóg um að vera. Fjölskylduhátíð í Vogunum sem ég verð að gera góð skil í Tíðindum í næstu viku og því verð ég á ferðinni þar með myndavélina. Hæst ber að forsetinn á að afhjúpa útilistaverk. Ég vona að það verði gott veður hjá nágrönnum mínum í Vogunum.

Þá er grillveisla um kvöldmatarleytið, Kristrún Björg á afmæli í dag, er 8 ára og Ragnar Björn á afmæli á morgun, hann verður 15 ára. Þau eru bróðurbörn mín, ég hef nú mikið gert grín af Jónasi bróður. Hann og Ragga mágkona eiga tvö börn sem eiga afmæli 9. og 10. ágúst. Ég er búinn að reikna þetta út, segi að það beri bara til tíðinda hjá þeim á fullveldisdaginn 1.desember ár hvert. Jónas vill lítið ræða þetta við litla bróðir sinn J  

Nú svo er það Sálin Hans Jóns Míns í Officeraklúbbnum – það er ekki nokkur leið að ég láti það fram hjá mér fara. Sálin er í miklu uppáhaldi og hefur verið það í gegnum tíðina og fyrst að maður er ennþá ungur í anda þá sleppur maður ekki þessu balli. Ég vona að ég sjái sem flesta á ballinu, það verður viðbjóðslega gaman.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband